Tilraunavirkjanir í Gilsfirði og Mjóafirði
Bygging og rekstur tilraunavirkjana í þverunum Mjóafjarðar og Gilsfjarðar munu auka mikilvæga þekkingu hérlendis á sviði virkjunar sjávarfalla. Fréttavefurinn bb.is á Ísafirði hefur undanfarið fjallað um hugmyndir um virkjun sjávarfalla í Mjóafirði og bent á, að í útttekt Almennu verkfræðistofunnar fyrir Orkubú Vestfjarða fyrir um áratug var slík virkjun ekki talin hagkvæm þar sem nýtanlegur hæðarmunur í sjávarfallavirkjuninni væri lítill miðað við þekktar sjávarfallavirkjanir erlendis. Einnig var bent á að nýtingartími sjávarfallavirkjunar er aðeins um 25-30% og því forsenda hæpin að orkan fari inn á stórt orkunet þannig að hún nýtist að fullu í samrekstri með velmiðluðum vatnsafls- og jarðhitavirkjunum.
Árið 1992 lét greinarhöfundur sænska fyrirtækið Vattenfall AB kanna tæknilega möguleika og hagkvæmni í virkjun sjávarfalla í þverun Gilsfjarðar í samstarfi við Stefán bróður minn, sem þá var oddviti Reykhólasveitar. Á þeim tíma og miðað við aðra virkjunarkosti í fallvötnum og jarðhita, þá reyndist þetta ekki hagkvæm virkjun. Auk þess var orkuframleiðslan að sjálfsögðu háð reglulegum sólarhringsbreytingum sjávarfalla, eins og fram kemur í skýrslu Almennu verkfræðistofunnar um sjávarfallavirkjunina í Mjóafirði.
Undirritaður er samt að undirbúa að skoða aftur möguleika á virkjun í þverun Gilsfjarðar með innlendum og erlendum samstarfsaðilum. Hefur verið haft samband við Þorgeir Pálsson, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, um samvinnu um samtímis könnun á virkjun sjávarfalla í þverun Mjóafjarðar. Áhugavert er að kanna hvort ekki fengist meiri hagkvæmni út úr sjávarfallavirkjunum sunnan og norðan Vestfjarðakjálkans til að jafna út sveiflur í framleiðslu. Bæði Þorgeir Pálsson og Óskar Steingrímsson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, hafa staðfest áhuga sinn á að ræða slíkt samstarf. Kannaðir verða möguleikar á styrkjum frá norrænum og evrópskum sjóðum til að fjármagna þessar kannanir, svo og byggingu og rekstur tilraunavirkjunar.
Þó svo að líklegt sé að framleiðslukostnaður orku í sjávarfallavirkjunum í Mjóafirði og Gilsfirði verði ekki hagkvæmur m.a. vegna lítils munar á flóði og fjöru, þá geta þessar virkjanir lagt grunn að nýrri atvinnugrein hérlendis og útflutningi á þekkingu og búnaði á sviði nýtingar sjávarorku alveg eins og í jarðhitanum.
Við þurfum að afla okkur reynslu á þessu sviði með slíkum tilraunavirkjunum alveg eins og með Kröfluvirkjun á sínum tíma, sem lagði grunn að þekkingu okkar á sviði jarðhita.
Sjávarorka við Ísland
Talið er að verulegar auðlindir felist í virkjun sjávarorku kringum Ísland. Það er núna tímabært að fara að skoða þessa auðlind af meiri alvöru þó svo við getum enn virkjað vatnsföll og jarðhita með þekktri og tiltölulega hagkvæmri tækni. Tækni til virkjunar öldu og strauma í sjó er enn á tilraunastigi og vart samkeppnisfær ennþá. Verulegum fjármunum er samt varið til þróunar á tækni til slíkra virkjana víða um heim, einkum í Skotlandi og Englandi, vegna aukins áhuga á virkjun endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkulinda.
Innan áratugar munu þessar auðlindir í sjó verða okkur mjög verðmætar og ekki síður mikilvægari fyrir þjóðarhag en vatnsföll okkar og jarðhiti. Rökin fyrir því eru mörg, og nægir að benda á þá andstöðu sem hefðbundnar virkjanir hafa sætt og mun aukast enn frekar með vaxandi umhverfisvitund. Varla verða reistar fleiri stórar vatnsorkuvirkjanir í sátt við þjóðina og vafasamt er um virkjun nýrra háhitasvæða ef aðrir „hreinni" kostir geta verið í boði. Menn líta þó björtum augum til árangurs í djúpborunartækni til virkjunar jarðhita. Við þurfum því að huga að nýjum orkukostum til sjávar, bæði til að eiga möguleika á þátttöku í þessari þróun og til að undirbúa nýtingu verulegra auðlinda þjóðarinnar á þessu sviði í framtíðinni.
Takmarkaðar mælingar liggja fyrir um straumhraða á virkjanlegum stöðum við strendur landsins, að frátöldum örfáum stöðum innanfjarða. Því er útilokað að meta þessa miklu framtíðarauðlind af nokkru viti, eða gera áætlanir um nýtingu hennar nema með slíkum mælingum. Örfáir aðilar hafa sýnt sjávarorku nokkurn áhuga og má þar meðal annars nefna:
- Sjávarorka ehf. í Stykkishólmi sem hefur unnið að mælingum og könnun á virkjun Rastarinnar í Hvammsfirði um nokkur ár.
- Fjórðungssamband Vestfirðinga er nú í samstarfi nokkurra evrópskra strjálbýlishéraða, RenRen verkefninu, sem leitar leiða um nýjar leiðir í orkuöflun, m.a. sjávarorku.
- Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur einnig unnið að athugunum um leiðir til að nýta sjávarstrauma á svæðinu.
- Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða er að kanna möguleika á virkjun sjávarfalla í þverun Mjóafjarðar í samstarfi við Fjórðungssamband Vestfirðinga, Orkubú Vestfjarða, Háskólasetrið á Ísafirði svo og japanskan háskóla og fyrirtæki.
- JHM ehf. lét sænska fyrirtækið Vattenfall AB kanna tæknilega möguleika og hagkvæmni þess að virkja þverun Gilsfjarðar árið 1992.
Íslendingar geta orðið framarlega í nýtingu sjávarorku
Íslendingar hafa núna einstakt tækifæri til að verða virkir þátttakendur í því mikla kapphlaupi sem hafið er á heimsvísu um tæknibúnað til að virkja sjávarorku; þessa miklu, hreinu og ónotuðu auðlind mannkyns. Við gætum jafnvel tekið forystu í þróun tækni til sjávarorkunýtingar vegna reynslu okkar í nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og á því sviði njótum við virðingar annarra þjóða. Hér er hátt tæknistig og við eigum virta sérfræðinga á sviði orkumála, byggingar skipa, hafnargarða o.fl. Einnig má nefna hinar fjölbreyttu aðstæður hér við land til prófana og þróunar þessarar tækni. Við strendur landsins er að finna allar gerðir strauma og aðstæðna til að prófa og þróa nýjan búnað. Hér eru sund með mishörðum straumum; rastir við annes með missterkum straumum á misjöfnu dýpi, sumar nærri byggð.
Tækni til virkjunar sjávarstrauma er nokkuð vel á veg komin en tækni til ölduvirkjunar enn styttra. Þróunin er samt mjög hröð, enda er nýting hreinnar orku orðin forgangsmál í öllum iðnríkjum heims. Nú þegar hafa verið settar upp prófunarstöðvar í nokkrum löndum, m.a. í Orkneyjum á Bretlandi, sem er leiðandi á sviði sjávarvirkjana.
Tækifæri Íslendinga til að vera með og jafnvel taka forystu er núna. Verði það ekki nýtt er hætta á að það glatist og að við verðum til frambúðar þiggjendur en ekki forystuafl í þessari grein. Með því myndu vafalaust einnig glatast mikil tækifæri, bæði á sviði þekkingar og viðskipta. Skotar hafa lagt mikla áherslu á þróun tækni og nýtingu sjávarorku og eru framanlega á þessu sviði. Stefna þeir að því að skapa um 12.000 ný störf á þessu sviði fyrir árið 2020 og auka viðskipti landsins um 2,5 milljarða punda eða um 600 miljarða króna.
Sjávarorkusetur
Verið að undirbúa stofnun sérstaks Sjávarorkuseturs við Orkurannsóknarmiðstöð Keilis í Ásbrú (Keflavíkurflugvelli). Stefnt er að nánu samstarfi við Háskólasetrið á Ísafirði um mælingar strauma og ölduhæðar, svo og um byggingu og rekstur tilraunavirkjana í sjó á Vestfjörðum.
- Jón Hjaltalín Magnússon, verkfræðingur.