Tenglar

30. apríl 2009 |

Tímamótakosningar að baki

Guðbjartur Hannesson og Ólína Þorvarðardóttir.
Guðbjartur Hannesson og Ólína Þorvarðardóttir.

Guðbjartur Hannesson og Ólína Þorvarðardóttir skrifa:

 

Eftir stutta og snarpa kosningabaráttu í einum mikilvægustu kosningum til Alþingis stöndum við nú á tímamótum. Samfylkingin og VG hafa hlotið umboð til að leiða þjóðina undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur út úr þeim erfiðleikum sem frjálshyggja, sérhagsmunagæsla og græðgisvæðing leiddu yfir okkur. Þetta er í fyrsta skipti sem jafnaðar- og félagshyggjuflokkarnir fá hreinan meirihluta í kosningum. Krafan er um jákvæða, framsýna og áræðna velferðarstjórn, sem sækir fram í þágu almennings þessa lands og berst gegn misrétti hvers konar. Þó að stjórnarflokkarnir tveir séu um margt ólíkir munu þeir sameinast um grunngildi lýðræðis, réttlætis og jafnréttis, sem eru svo mikilvæg í endurreisn okkar þjóðfélags.

 

Nýafstaðnar kosningar eru mikill sigur fyrir jafnréttið í landinu, þar sem konur eru nú 43% þingmanna og helmingur þingflokks Samfylkingarinnar. Þá er ljóst að mikil endurnýjun hefur orðið í þingmannahópnum þar sem 29 þingmenn setjast nú inn á Alþingi í fyrsta sinn.

 

Niðurstaða kosninganna hér í NV-kjördæmi var um margt merkileg. Fjórflokkurinn fékk svipaða útkomu, þar sem aðeins 70 atkvæði skildu að Framsóknarflokkinn (sem var minnstur flokkanna) og Sjálfstæðisflokkinn (sem varð stærstur þrátt fyrir fimmtungs fylgistap). Þar á milli komu Samfylking og VG, en VG fékk jöfnunarþingsæti og 3 þingmenn. Frjálslyndir duttu út af þingi og Borgarahreyfingin náði engu flugi hér í kjördæminu.

 

Samfylkingin vann góðan sigur yfir landið í heild og er nú stærsti flokkurinn í 4 kjördæmum af 6 og raunar stærsti flokkurinn á landsbyggðinni, með 8 þingmenn samtals í NV, NA og Suðurkjördæmi.

 

Ný og stór verkefni bíða. Reisa þarf atvinnlífið við að nýju og tryggja afkomu einstaklinga og heimila. Margt hefur verið gert í þessu skyni, en meira þarf til. Framtíðar okkar vegna er brýnt að þjóðin fái að taka afstöðu til ESB í lýðræðislegum kosningum eftir að samningsmarkmið hafa verið skilgreind og viðræður farið fram. Krafan er að við höldum forræði okkar yfir auðlindum landsins og ná þarf fram öruggum gjaldmiðli, afnámi verðtryggingar og lækkun vaxta.

 

Gegnsæi og réttlæti er mikilsvert við endurreisn fyrirtækja og fylgja þarf eftir ákvörðunum um að tryggja þjóðareign á auðlindum. Koma þarf til móts við álit mannréttindanefndar SÞ um jafnræði við úthlutun aflaheimilda um leið og verja þarf hagsmuni undirstöðuatvinnuvega okkar til sjávar og sveita. Ná þarf sátt við þjóðina um sjávarútvegsstefnuna.

 

Sú kosningabarátta sem að baki er hefur verið okkur lærdómsrík og gefandi. Við viljum þakka öllu okkar stuðningsfólki fyrir dugnað og atorku, kjósendum Samfylkingarinnar fyrir stuðninginn og frambjóðendum almennt málefnalega og drengilega kosningabaráttu.

 

Ástæða er til að óska nýkjörnum þingmönnum til hamingju með kjörið en hér í NV-kjördæmi er glæsilegur hópur þingmanna sem við treystum að muni standa saman um hagsmuni kjördæmisins. Um leið eru þeim sem nú kveðja þingmennskuna þökkuð þeirra störf í þágu kjördæmisins og landsins alls. Megi þeim farnast vel á nýjum vettvangi.

 

Við hlökkum til að eiga samstarf við aðra þingmenn og alla íbúa NV-kjördæmis í störfum okkar. Um leið heitum við því að beita okkur fyrir framfaramálum í þágu almennings.

 

Kærar þakkir og kveðjur.

 

- Guðbjartur Hannesson og Ólína Þorvarðardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30