Tenglar

1. júní 2016 |

Tollasamningur sem ógnar byggð og atvinnuöryggi

Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti Vinstri grænna í NV-kjördæmi.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti Vinstri grænna í NV-kjördæmi.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþm. skrifar

 

Búvörusamningur og tollasamningurinn við Evrópusambandið eru til umfjöllunar í nefndum Alþingis. Hægt er að gagnrýna báða þessa samninga út frá mörgum sjónarmiðum. Eins og komið hefur fram hefur tollasamningurinn ekki verið unninn í neinu samráði við bændur, aðra hagsmunaaðila, neytendur eða aðra flokka en þá flokka sem sitja í ríkisstjórn.

 

Ef þessi tollasamningur gengur eftir hefur þetta gífurleg áhrif á starfsumhverfi landbúnaðar í heild á Íslandi, ekki bara þeirra bænda sem eru að framleiða hvítt kjöt heldur alla kjötframleiðslu í landinu og vinnslu afurða þegar menn ætla sér að opna svona gífurlega mikið á kjötinnflutning inn til landsins eins og áætlað er, en þar er ekkert smámagn á ferðinni.

 

Í svínakjöti er núverandi kvóti 200 tonn og fer upp í 700 tonn á þessu tímabili, á fjórum árum, og í alifuglakjöti er kvótinn í dag sem flytja má inn 200 tonn en fer upp í 856 tonn, svo dæmi sé nefnt. Við þetta bætast unnar kjötvörur, þar á innflutningur að aukast úr 50 tonnum upp í 400 tonn, og innflutt magn af pylsum á að aukast úr 50 tonnum í 250 tonn.

 

Þetta er gífurleg aukning og ekkert skrýtið að svínabændur og kjúklingabændur hafi lýst miklum áhyggjum af því hvað þessi samningur muni þýða fyrir afkomu þessara greina. Að óbreyttu er raunveruleg hætta á að fólk hrökklist út úr þessum atvinnugreinum vegna þessa. Það er erfiðara að reisa aftur við matvælaframleiðslu í þessum greinum ef snúa á til baka seinna meir, ef í ljós koma neikvæðar afleiðingar mikils innflutnings á landbúnaðarafurðum á framleiðslu innlendra landbúnaðarafurða. Í þessu samhengi vil ég líka leggja mikla áherslu á að innlend framleiðsla á mjólkurdufti njóti forgangs.

 

Mér finnst þessi umræða um aukinn innflutning landbúnaðarafurða sem notið hefur tollverndar oft mjög sérstök. Það er alltaf tengt saman að aukinn innflutningur gefi sjálfkrafa lægra verð til neytenda. Við þekkjum það varðandi afnám vörugjalda og tolla á ýmsan varning, að lækkunin hefur langt í frá skilað sér til neytenda.

 

Í dag er mikið magn af landbúnaðarvörum og hvítu kjöti flutt til landsins. Það hefur komið fram í umræðunni eins og varðandi svínakjötið, að þar eru menn að nýta tollkvótana til að flytja inn dýrustu hlutana, eins og lundir. Síðan verður skortur á vöru eins og svínasíðum, sem beikonið er framleitt úr, og þá bætist það við og verður að frjálsum innflutningi eins og verið hefur frá maí til september. Í lok september birgja menn sig upp fyrir næstu mánuði svo það er verið að flytja inn miklu meira magn en menn gera sér grein fyrir.

 

Það veldur ójafnvægi í samkeppni við alla kjötframleiðslu í landinu þegar þessi innflutningur á hvítu kjöti verður að veruleika. Þá er hætta á undirboðum gagnvart framleiðslunni hér á landi, sem veldur því að innlendir kjötframleiðendur eiga erfitt með að keppa við þær aðstæður.

 

Núna eru aðstæður þannig, t.d. í Danmörku og fleiri löndum þar sem svínakjöt er framleitt, að það er viðskiptabann hjá Rússum gagnvart innflutningi frá Evrópu á svínakjöti og verðið þess vegna mjög lágt í Evrópu, sem hefur áhrif á íslenska framleiðslu. Þarna eru á ferðinni mjög erfiðar og ósanngjarnar samkeppnisaðstæður og öll virðiskeðjan með fjölda starfa kemst líka í uppnám vítt og breitt um landið. Úrvinnsla kjötafurða og annarra fjölbreyttra afurða úr landbúnaðargeiranum skapar miklu fleiri störf í landinu en fólk gerir sér grein fyrir.

 

Tollasamningur ríkisstjórnarinnar ógn við landbúnað og byggðaþróun

 

Ef þessi tollasamningur gengur fram óbreyttur mun það valda mikilli byggðaröskun í landinu. Þetta mun ekki bara bitna á þeim bændum sem þarna eiga í hlut, heldur hefur þetta áhrif á svo margt annað sem fylgir þessari atvinnustarfsemi í hliðargreinum í landbúnaðargeiranum. Ég held að menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skera í raun og veru upp herör gagnvart byggð í landinu, sem verið er að gera með þessum tollasamningi. Það er verið að ógna byggð um landið með þessum samningi. Það er með ólíkindum að þetta eigi að fara sisona í gegn, án þess að afleiðingar af þessum samningi verði skoðaðar ofan í kjölinn.

 

Það hefur líka komið fram, að heilbrigði íslenskrar framleiðslu, svo ég taki sérstaklega út fyrir sviga svínarækt og alifuglarækt, er með allt öðrum hætti en víða í Evrópu. Við erum þar mjög framarlega með lágmarksnotkun sýklalyfja og strangar reglur varðandi heilbrigði búa og afurðanna. Innanlandsframleiðsla ætti auðvitað að njóta þess þegar horft er á verð, samkeppni og aukinn innflutning. Fram hefur komið í könnunum á gæðum á ferskum kjúklingi í kjötborði í Bretlandi, að allt að 70% af ferskum kjúklingi voru sýkt af kampýlóbakteríu og salmonellu.

 

Verjum sjálfbærni í íslenskum landbúnaði og eflum umhverfisvæna framleiðslu

 

Við Vinstri græn viljum verja íslenska landbúnaðarframleiðslu og teljum að með þeim tollasamningi sem hér liggur fyrir sé verið að ógna landbúnaðarframleiðslu í landinu, og ekki bara henni, heldur líka ótal atvinnugreinum sem starfa til hliðar við frumframleiðslu í landbúnaði.

 

Við eigum að standa vörð um okkar góðu framleiðslu og halda áfram að þróa hana á sjálfbæran hátt og efla lífræna framleiðslu og kornrækt hér á landi. Það eru líka umhverfisleg sjónarmið sem liggja að baki, því fylgir mikil mengun að flytja hingað landbúnaðarafurðir um langan veg, hvort sem um er að ræða kjöt, osta eða aðra þá vöru sem við getum framleitt hér heima.

 

Íslenskar landbúnaðarafurðir eru í fremstu röð hvað heilnæmi og gæði vörunnar varðar og við eigum líka að horfa til matvælaöryggis í landinu og að stuðningur við innlenda framleiðslu skili sér sem best í verðum og aukinni innanlandsneyslu.

 

– Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31