Treysti Ásbirni best – nýtum aflið
Erla Friðriksdóttir skrifar:
Laugardaginn 21. mars nk. verður prófkjör Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi. Við sjálfstæðismenn fáum tækifæri til endurnýjunar á lista flokksins, margir góðir einstaklingar bjóða sig nú fram til starfa og það er sérlega ánægjulegt að sjá hversu margbreytilegur hópurinn er bæði hvað varðar reynslu af sveitarstjórnarmálum og úr atvinnulífinu. Allt skiptir þetta máli þegar kemur að því að velja fulltrúa okkar á Alþingi Íslendinga og sennilega aldrei meira en nú þegar við horfum fram á erfið mál sem þarf að vinna að og taka á með nýjum aðferðum.
Þess vegna fagna ég því mjög að Ásbjörn Óttarsson forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar skuli bjóða sig fram til forystu á þessum lista. Ásbjörn hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarstörfum, fyrirtækjarekstri og félagsmálum. Hann hefur lifað og hrærst í heimi sjómennskunnar þar sem menn kalla ekki allt ömmu sína þegar vandamálin koma upp. Hann er sérstaklega vinnusamur, ósérhlífinn, úrræðagóður og umfram allt heiðarlegur maður, virtur og vinsæll í sínu samfélagi. Ég fullyrði að einmitt svona fólk þurfum við á Alþingi, fólk sem þekkir landið, íbúana, auðlindirnar og þorir að taka ákvarðanir þegar það þarf að taka þær. Ég eins og flestir Íslendingar vil sjá breytingar, ný vinnubrögð, nýjar áherslur. Ég treysti Ásbirni Óttarssyni best til þess að leiða okkur sjálfstæðismenn í NV-kjördæmi inn í nýtt Ísland. Ég set Ásbjörn Óttarsson í 1. sæti á laugardaginn og hvet sjálfstæðismenn í kjördæminu til að gera slíkt hið sama.
Erla Friðriksdóttir,
bæjarstjóri í Stykkishólmi.