Tenglar

5. febrúar 2012 |

Tvö ungmenni í Reykhólaskóla fá 1.-2. verðlaun

Unnur Birna, Katrín, Fanney Sif, Elín Huld, Starkaður, Elínborg og Fríða Vala. Ljósm. Torfi Pálsson.
Unnur Birna, Katrín, Fanney Sif, Elín Huld, Starkaður, Elínborg og Fríða Vala. Ljósm. Torfi Pálsson.

Stjórn Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni:

 

Afhending verðlauna fyrir bestu hugmyndir til góðs fyrir heimabyggð í verkefni á vegum Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni, sem ber nafnið Heimabyggðin mín, nýsköpun, heilbrigði og forvarnir, fór fram í Háskólanum í Reykjavík 31. janúar.

 

Er þetta sjöunda árið í röð, sem verkefnið er á dagskrá á vegum Landsbyggðarvina, en það er ætlað grunnskólanemendum á aldrinum 12-16 ára. Markmið þess er að hvetja ungt fólk til að hugsa um heimabyggð sína út frá þeim tækifærum, sem þar bjóðast, auk þess að vera um leið þroskandi og skemmtileg viðbót við hefðbundið skólanám. Verkefnið er unnið í góðri samvinnu við yfirvöld skólamála sem og skólastjóra og kennara.

 

Víst er, að verkefnið hefur áunnið sér ákveðinn sess í íslensku skólakerfi. Er það almennt álit skólanna, sem taka þar þátt, að sjálf vinnan við verkefnið gefi unga fólkinu ákveðið sjálfstraust - þá tilfinningu að vera tekið alvarlega og að á það sé hlustað!

 

Góð undirbúningsvinna er skilyrði fyrir góðum árangri, rýnivinna og gagnasöfnun, sem og að geta komið efninu skýrt frá sér. Sú vinna skilar sér í færni við að takast á við fleiri áþekk verkefni seinna í skóla og í lífinu og réttari ákvarðanatöku, auk þess að efla frumkvæði.

 

Við verðlaunaathöfnina þakkaði fulltrúi dómnefndar, Ólafur Hersisson arkitekt, öllum þeim, sem tóku þátt í verkefninu. Allar þær fjölmörgu hugmyndir, sem settar voru fram, lýsa hugmyndaríki, frumkvæði og áhuga á viðfangsefninu, svo að dómnefnd var talsverður vandi á höndum. Með Ólafi í dómnefnd voru Björn H. Halldórsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri, og Þórólfur Þórlindsson prófessor.

 

 

1.-2. verðlaun:

 

Dómnefnd verðlaunar sameiginlega í 1.-2. sæti Elínborgu Egilsdóttur, nemanda í 9. bekk Reykhólaskóla, og Fanney Sif Torfadóttur í 8. bekk sama skóla.

 

Elínborg sendi inn ritgerð, sem kalla mætti Ylströnd við Þörungaverksmiðju. Setur hún fram áhugaverðar og metnaðarfullar tillögur um ferðamennsku á Reykhólum, sem byggjast á því að vekja athygli á landsins gæðum í heimabyggð hennar, Reykhólum. Meginhugmyndin er djörf og byggir á nýtingu jarðvarma, sem rennur frá Þörungaverksmiðjunni, og að koma á fót ylströnd í líkingu við Bláa lónið. Hugmyndir Elínborgar eru settar fram af sannfæringu, áhuga og einlægni. Frágangur er skýr og góður.

 

Fanney Sif sendi inn ritgerð, sem ber titilinn Reykhólar allan ársins hring. Setur hún fram mjög áhugaverðar og sannfærandi tillögur um ferðamennsku á og kringum Reykhóla allan ársins hring. Hugmyndir Fanneyjar byggja á þeirri náttúruparadís, sem Reykhólar eru, og settar eru fram fjölmargar hugmyndir, flokkaðar eftir árstíðum. Sem dæmi um hugmyndir Fanneyjar má nefna selaskoðun, réttir, merktar gönguleiðir með áningarstöðum, fuglaskoðun, hjólaferðir og sjósund og svo mætti lengi telja. Um er að ræða fjölbreyttar og vel raunhæfar tillögur, sem allar eru sérlega vel rökstuddar. Framsetning er mjög góð og hugmyndirnar settar fram á skipulegan og skýran hátt. Þá vill dómnefnd sérstaklega hrósa Fanney Sif fyrir einstaklega fallegt ljóð í enda ritgerðarinnar. Full ástæða er til að óska þess, að Fanney Sif láti ekki staðar numið við ljóðagerð sína.

 

 

3. verðlaun:

 

Dómnefnd verðlaunar í 3. sæti Elínu Huld Melsteð Jóhannesdóttur í Auðarskóla í Dölum.

 

Elín Huld sendi inn ritgerð, sem ber titilinn Auður djúpúðga. Setur hún fram nýstárlegar, áhugaverðar og metnaðarfullar tillögur um nýsköpun í ferðaþjónustu í heimabyggð sinni. Meginhugmynd Elínar er, að reist verði landnámssetur í Hvammi í Hvammssveit í Dölum tileinkað Auði djúpúðgu og Laxdælu, en jafnframt verði þar aðstaða til að koma á framfæri núverandi og upprennandi listamönnum svæðisins. Settar eru fram í tengslum við fyrirhugað landnámssetur áhugaverðar hugmyndir um merktar gönguleiðir og leiðsögn um svæðið. Hugmyndirnar er settar fram af innlifun, augljósu innsæi og góðri þekkingu Elínar, sýnd er teikning, sem lýsir hugmynd Elínar, og lagðar eru fram ljósmyndir og kort til rökstuðnings, framsetning er öll til fyrirmyndar.

 

 

Viðurkenning:

 

Þá vill dómnefnd koma á framfæri viðurkenningu til eins nemanda, þó að ritgerð hans hafi ekki ratað í verðlaunasæti að þessu sinni. Ritgerð Starkaðar Péturssonar, nemanda í 9. bekk í Lækjarskóla í Hafnarfirði, hlýtur sérstaka viðurkenningu, en í ritgerð sinni setur Starkaður fram margar góðar og sumar hverjar nýstárlegar hugmyndir, sem frekar auðvelt er að framkvæma. Hugmyndir Starkaðar, t.d. um nýtingu Víðistaðatúns til tónleikahalds, að gera upp gamla bæinn í upprunalegri mynd og að koma á fót bítlasafni í Hafnarfirði, eru allt góðar og vel ígrundaðar tillögur. Starkaður hefur grandskoðað heimabyggð sína í leit að nýjum tækifærum.

 

Í ræðu menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, við athöfnina kom fram, að menntamálaráðuneytið hyggst á næsta ári, sem er í raun 10. starfsár verkefnisins, standa fyrir úttekt á hvaða árangri verkefnið hefur skilað. Er það gert að ósk verkefnisstjórans, Fríðu Völu Ásbjörnsdóttur, formanns Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni, sem heldur því fram, að nú sé unga fólkið ekki aðeins þiggjendur, eins og margir halda fram, heldur líka eftirtektarverðir hugsuðir, þegar vel lætur og umhverfi og aðstæður leyfa. Í ávarpi sínu í lokin sagði hún, að lýðræði sé seinvirkt, krefjist umræðu, rökvísi, góðs skipulags, þrautseigju og þolinmæði. Lok verkefnisins verða að öllum líkindum 15. maí 2012 í Norræna húsinu. Verða þá bestu lausnir kynntar. Við hlökkum því til vorsins!

 

Að lokum kom Fríða Vala á framfæri þökkum til allra þeirra fyrirtækja, stofnana og einstaklinga, sem lagt hafa Landsbyggðarvinum lið til að gera þessa athöfn að veruleika - til Háskólans í Reykjavík, Geirs Ólafssonar, hönnuðar verðlaunaspjaldanna og fyrirtækisins Pixel, Bókaútgáfunnar JPV, bókaforlagsins Bjartur og Veröld, Reykjavíkurborgar, Mannvits, Bílaleigu Akureyrar, Flugfélags Íslands, Icelandic Glacial og veitingastaðarins Saffran, sem lögðu til veitingar í lokin.

 

- Stjórn Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni.

 

_________________________________________________________________

 

Meðfylgjandi mynd við afhendingu verðlaunanna (smellið á til að stækka) tók Torfi Pálsson, faðir Fanneyjar. Talið frá vinstri: Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, meistaranemi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, fyrrverandi alheimsfegurðardrottning og verndari aðalverkefnis Landsbyggðarvina, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Fanney Sif Torfadóttir, Elín Huld Melsteð Jóhannesdóttir, Starkaður Pétursson, Elínborg Egilsdóttir og Fríða Vala Ásbjörnsdóttir kennari, stofnandi, drifkraftur og formaður Landsbyggðarvina í Reykjavík og nágrenni.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30