Tenglar

26. apríl 2010 |

Um stílbrot og muninn á því að „heita“ og „vera“

Jóhannes Snævar Haraldsson.
Jóhannes Snævar Haraldsson.
Jóhannes Snævar Haraldsson skrifar:

 

Í ágætum greinum hér á síðunni og á Strandir.is fjalla þeir Karl Kristjánsson á Kambi og Matthías Lýðsson í Húsavík um nafngiftina á nýjum vegi milli Stranda og Barðastrandarsýslu. Benda þeir réttilega á að það nafn sem nú er í notkun, Þröskuldar, stingur heldur í stúf við umhverfi sitt. Ég hef ekki séð ástæðu til að blanda mér í spekúleringar um þessa nafngjöf, en verð þó að viðurkenna að ég varð undrandi þegar nafn þetta kom fyrir auglit manna, u.þ.b. þegar verið var að taka veginn í notkun haustið 2009.

 

Undanfarin ár hef ég mikið hugsað um örnefni, enda má segja að ég vinni með þau daglega víðs vegar um Breiðafjörð. Hefur það orðið til þess að ég er líklega svolítið sér á báti þegar kemur að viðhorfum til viðhalds og endurnýjunar staðarnafna, en það er utan við efni þessa greinarstúfs.

 

En við hverju er að búast þegar nöfn á kennileitum eru ákveðin af nefnd sem fær það hlutverk, og skiptir þá ekki máli hvort barnunginn er fjallvegur eða nýtt eldfjall? Með ofangreindan veg má segja að ferlið hafi líkst spennutímanum frá fæðingu til þess allir sitja á kirkjubekkjunum. Flestir bjuggust við hefðbundnu, einhverju i ættinni, en þegar svo nafnið kom urðu afarnir og ömmurnar ansi skrítin í framan.

 

Og, svona nöfn koma upp þegar menn halda að þeir séu að „skíra" náttúruna í umhverfi sínu. Gera sér kannski enga grein fyrir því að Þröskuldar eru líklega á vatnaskilum helmings allra fjallvega á Vestfjörðum, og sennilega víðar. Ekki svo að nafnið sem slíkt sé ljótara en önnur, óþægilegra í notkun eða hafi í sér einhverja óæskilega tilvísun, heldur eins og þeir Karl og Matthías benda á - það er stílbrot.

 

En ég verð að viðurkenna að mér finnst þeir félagar misstíga sig í þúfum málvenjunnar. Vil ég því telja hér upp nöfn þeirra fjallvega á umræddu svæði sem ég hef vit til að þekkja, og byrja vestan frá. Með í upptalningunni hef ég svo þeirra tillögu að nafni á umræddum vegi.

 

     Skálmardalsheiði

     Kollafjarðarheiði

     Þorskafjarðarheiði

     Laxárdalsheiði

     Bæjardalsheiði

     Arnkötludalur

     Tröllatunguheiði

     Steinadalsheiði

     Laxárdalsheiði

     Haukadalsheiði

 

Vil ég svo biðja hvern og einn sem þetta les að finna út hvar stílbrotið er falið.

 

En hvernig halda menn að örnefni hafi orðið til? Hvenær hætta hlutir að „vera" og fara að „heita"? Heldur fólk að staðir og kennileiti hafi verið skírt?

 

Strax í árdaga búsetu á Íslandi fóru menn að setja auðkenni á landið, sér til þæginda í frásögnum og öðrum tilgreiningum. Gautur hefur búið í Gautsdal, sem þá „var" Gautsdalur en „heitir" það í dag. Á Klettshálsi er fjallavatn sem vinnuflokkur reisti búðir sínar við um miðja síðustu öld. Þá „varð" vatnið Tjaldvatn. Kannski Tjaldbúðavatn fyrst, hver veit? Núna áratugum eftir að öll tjöld eru horfin og vinnuflokkar farnir af svæðinu „heitir" vatnið Tjaldvatn, til auðkenningar frá vötnunum í kring. Á landamerkjum nánast allra jarða Breiðafjarðar eru Þrætusker. Sum „heita" það bara, önnur „eru" það enn.

 

Í mínum huga er því ekki nokkur ástæða til að skeggræða mikið um nafngift á viðkomandi fjallvegi. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr liggur leiðin um Arnkötludalsheiði og því engin ástæða til að eyða tíma í að finna önnur nöfn.

 

Ætli menn hins vegar að sleppa heiðar-viðbótinni, til fegrunar eða lastar, vil ég benda á að betra væri nota nafnið Þröskuldaheiði en einungis Arnkötludalur, það væri mun minna stílbrot. Auðkennin í náttúrunni hafa nefnilega fengið nöfn af því sem þau „eru" í meira en 1000 ár og best að halda sig við þá venju.

 

- Jóhannes Snævar Haraldsson.

 

Athugasemdir

Pálína Pálsdóttir, rijudagur 27 aprl kl: 01:45

Eftir að hafa lesið þennan pistil míns ágæta skólabróður, langar mig að benda honum á eitt atriði, varðandi þennan annars ágæta veg. Hann liggur um tvo dali, Gautsdal og Arnkötludal og milli þeirra liggja þessir umræddu Þröskuldar. Rökin fyrir því aðkalla þessa leið heiði, finnast mér því ekki eiga hér við. Frekar en við færum að nefna Svinadalinn, í Dölum, heiði. Fyrir mörgum árum lenti ég í þrætu við einstakling sem hélt því fram að Svínadalurinn væri heiði, ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt heimamenn kalla Svínadalinn heiði. Dalur er dalur, sama hvar hann er, hvað hann heitir og hvernig hann liggur í landinu. Að því leyti er ég ósammála þér Jóhannes, að leiðin um Gautsdal, Þröskulda og Arnkötludal skuli kallast heiðarvegur. En annars var gaman að lesa pistil þinn og megir þú hafa það sem best.
Með kveðju, Pálína St. Pálsdóttir frá Múla, Þorskafirði.

Geiri, laugardagur 29 ma kl: 19:41

Ég er samála Jóhannesi...það á að kalla svona fjallveg "heiði" þetta eru ein af mörgum mistökum pólitýskra ákvarðanna sem þessir aumingja þingmenn Norð-Vestur kjördæmis og fyrverandi Vestfjarðakjördæmis ....hafa látið hafa sig út í....hlustað með eyranu sem heyrnin er á...Ísfirðinga...Bolvíkinga Strandamenn...en látið svo Tófunni sem tríttlar úr aldingarð forheymskra ákvarðanna í friðlandi Hornstranda...þingmenn þessar landshluta hugsa eins og Tófan...bara eyðum byggð á suður-hluta Vestfjarða! Stærstu mistök samgangna voru framkvæmd með því að nauðga fólki til að aka yfir Steingrímsfjarðaheiði....til hvers? jú til að kaupa sér fylgi og ná í atkvæði fyrir Framsókn....allt snérist þetta um atkvæði og heimtur þeirra í kostningum..Vegagerðin lagði til ódýrasta kostin sem var vegur um Kollafjarðaheiði ...niður í Kollafjörð...væri sem sagt einn fjallvegur frá Ísafirði til Búðardals...mjög ásættanleg tilaga..nei þetta hugnaðist ekki frómum þingmönnum að samþykkja...heldur taka stóran krók á leyð fólks...senda það lóðbeint upp í að aka viðsjálverðan veg...Steingrímsfjarðaheiði...það var toppurinn!!! en um framhaldið var aldrei rætt fyrr en einhverjum sýslumans-agent í Bolungavík datt það í hug að koma leyð um Arnköttludal á koppinn með einhvers konar einkaframkvæmd...ekki í fyrsta skypti sem samgöngumál Vestfjarða eru ákvörðuð í Bolungarvík!! Undirskriftarlisti um bættar samgöngur til Reykjavíkur var settur á koppinn jafnhliða ákvörðun.... Vegargerðarinnar að besti valkostu tengingar við suðurhluta Vestfjarða væri um Kollafjarðaheiði....þá fóru gömlu gufuvélarnar í gang...emt var til undirskriftalista um bættar samgöngur til Reykjavíkur...hausnum á undirskriftalistanum var breytt á Ísafirði af Framsóknarmanninum Jóni Kristni Jónssyni...er látin fyrir nokkru síða..blessuð sé mynning hans...Það er með ólíkindum hvernig að sveitastjórnar menn og alþingismenn hafa nálgast þetta viðfangsefni ...sem eru samgöngumál Vestfjarða....Af hverju mátti ekki efna til tillagna allra íbúa um hvað þeym fyndist um samgöngur þeirra landshluta?? Nei það átti að eyða þessari byggð..hér á Vestfjörðum vegna harðbýlis og vályndrar veðráttu...héðan komu samt 15% tekna þjóðarinnar...þær voru framkallaðar með vinnu...en ekki braski!!....Þið væntanlegir frambjóðendur og þingmannsefni Norð-Vestur kjördæmis skulið hugsa ykkar gang...ekki ganga að því vísu að klappliðið sé tilbúið að hrósa ykkur....ef þið hafið eitthvað að segja...og viljið láta taka ykkur alvarlega...látið þá ekki flokknum ykkar eftir að sprauta ykkur í rassinn með róandi....og gefa svo ykkur "ritalín" á morgnana í þinginu til að þið séuð góðir og þægir....þannig þingmenn kjósa Vestfirðir ekki að nota!!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30