Um vegamál í Gufudalssveit fyrr og nú
Vegur vestur í Gufudalssveit opnaðist árið 1950. Í tuttugu og fimm ár var sá vegur þannig, að hann lokaðist oft strax þegar fyrst gerði verulega snjóa og var síðan lokaður fram til vors. Kaupfélag Króksfjarðar bjargaði bændum með því að opna verslun á Skálanesi árið 1954. Mjög lítill samgangur var úr Gufudalssveit yfir veturinn, enda oft kaldir og snjóþungir vetur á þeim árum.
Árin 1984-85 var endurbyggður vegur í Þorskafirði og um Hjallaháls. Hönnuðirnir voru Gísli Eiríksson og Kristján Kristjánsson hjá Vegagerðinni á Ísafirði, en hinn síðarnefndi hlaut þá viðurnefnið „hlykkur“ vegna krappra hlykkja á Hjallahálsi.
Einnig var Þorskafjarðará brúuð. Á undirbúningstímanum barðist oddviti Gufudalshrepps, Reynir Bergsveinsson, fyrir því að farið yrði yfir fjörðinn og leiðin stytt. Ekki var hlustað á það, frekar en nú er gert.
Slysavarnadeildin Sigurvon í Gufudalssveit gekkst fyrir því, að gerður var í sjálfboðavinnu flugvöllur á Melanesinu eftir fyrirsögn Björns Pálssonar sjúkraflugmanns. Hann var alltaf boðinn og búinn til ferða að sækja sjúklinga og sækja konur til að fæða börn og skila þeim svo aftur heim. Eftir Björn tók Hörður Guðmundsson flugmaður á Ísafirði við, af sömu hjálpsemi. Vel minnist ég þess, þegar hann vorið 1987 sótti fimm slasaða úr bílslysi hjá Kleifastöðum. Ómar Ragnarsson kom líka, flutti farþega og leitaði jafnframt frétta.
Það er því ærin ástæða fyrir því að ég hef áhuga á því að fá sem bestan veg um Gufudalssveit, í þeirri von að það tryggi byggðirnar í sveitum og þéttbýli fyrir vestan.
Það sætir mikilli furðu, að nú eigi að fara að ræða að velja aðra leið en þá sem hefur farið í öll lögformleg ferli og verið samþykkt af fyrri sveitarstjórn og ráðherra umhverfismála. Hæstiréttur finnur enga annmarka á umhverfismatinu og hafnar í raun öllum rökum landeigenda gegn því að þarna sé lagður vegur. Rétturinn komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu, að ráðherra hafi verið óheimilt að nota „öryggi vegfarenda“ sem rök fyrir niðurstöðu sinni. Dómurinn má því teljast nokkuð furðulegur.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp nokkurra þingmanna um lausn á þessu máli. Fáist það tekið fyrir mun það væntanlega fara til samgöngunefndar og síðan aftur til þingsins sjálfs til ákvörðunar, enda ber þessum aðilum að leysa málið í samráði við Vegagerðina og umhverfisráðherra. Núna er komið fram á Alþingi frumvarp um stjórnlagaráð. Þar er fordæmi um lausn þegar vandi er á höndum.
Ég er á jeppa og skrepp á honum vestur í Kollafjörð. Ég klifra yfir hálsa í 500 metra hæð. Færi ég leið B yfir alla firðina þrjá styttist leiðin um 22 km, þar af um 10 km í Þorskafirði. Stytting fram og til baka væri því um 44 km. Ef reiknað er með kostnaðinum 100 krónur á km yrði sparnaðurinn 4.400 krónur.
Árið 2008 var ársumferð á Klettshálsi 67 bílar á dag. Það eru liðlega 24.500 bílar á ári. Ef leið B verður valin yrði sparnaður vegfarenda, miðað við 100 krónur á km, nærri 54 milljónir króna á ári. Í þessar tölur vantar þó innansveitarumferð í Gufudalssveit og a.m.k. hluta þeirra sem nú fara með Baldri yfir Breiðafjörð. Reynslan sýnir að umferð eykst og jafnvel margfaldast við greiðari leið þegar óvegir leggjast af.
Ég hef rætt við Helga Auðunsson á Patreksfirði. Frá honum keyra tveir til þrír flutningabílar þessa leið á dag. Þeir eyða um 30% meiri olíu en flutningabílar annars staðar á sömu vegalengd. Viðhaldskostnaður er meiri og dekkjaslit meira. Þá er ótalið álag og erfiði bílstjóranna. Sömu sögu var að heyra frá Mjólkursamsölunni í Búðardal um ferðir Helga Pálssonar tvisvar í viku.
Hér skal tilfærð bókun á fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps 15. desember 2005:
Samþykkt var eftirfarandi umsögn:
Reykhólahreppur leggur áherslu á mikilvægi vegabóta í Gufudalssveit fyrir íbúa og aðra vegfarendur. Vísað er til fyrirliggjandi skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, „Samfélagsáhrif og arðsemi", sem fjallar um vegtengingar á Vestfjörðum. Þar kemur vel fram mikilvægi styttinga í Gufudalssveit (svokölluð leið B) þar sem vegurinn verður á láglendi.
Áfangi I, Bjarkalundur - Þórisstaðir
Þverun Þorskafjarðar er gríðarlega mikilvæg, enda styttir hún leiðina um 9,5 km. Hreppsnefnd telur að öll stytting á vegum hafi jákvæð áhrif fyrir umhverfið, þar sem hún minnkar útblástur frá bílvélum. Sama gildir reyndar þegar vegir flytjast af fjöllum niður á láglendi.
Áfangi II, Þórisstaðir - Kraká
Sem fyrr mælir hreppsnefnd eindregið með leið B, enda eiga brattir fjallvegir að heyra sögunni til. Sú leið liggur í gegnum Teigsskóg. Huga þarf að því að taka eins lítið rými undir veginn sjálfan og kostur er, þannig að sem minnst verði gengið á skóginn sjálfan. Hreppsnefnd leggur áherslu á að annar áfangi þessarar leiðar verði boðinn út í einu lagi. Ekki kemur til greina að lagður verði bráðabirgðavegur um Grónes sunnanvert.
Sömuleiðis er mjög mikilvægt að huga að vegtengingu bæjanna fjögurra, þ.e. Djúpadals, Brekku, Gufudals og Fremri-Gufudals, sem verða fyrir mestri röskun ef leið B verður valin. Safn- og tengivegir heim að þessum bæjum lengjast og ganga þarf vel frá þeirri vegagerð í samráði við ábúendur. Djúpadalsbæinn verður að tengja með vegi út Djúpafjörð sunnanverðan. Gufudalsbæina og Brekku skal tengja með vegi um Hofsstaðahlíð.
Með B-leiðinni styttist mjög leiðin bæði að Skálanesi og Múla í Kollafirði sem hlýtur að teljast mjög jákvætt.
Þannig var bókun hreppsnefndar Reykhólahrepps undir árslok 2005. Einnig skal hér tilfærð bókun hreppsnefndar Reykhólahrepps á fundi 19. júní 2008:
Bréf Vegagerðarinnar frá 26. maí 2007 með beiðni um framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar í Gufudalssveit. Sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir nýjum Vestfjarðavegi (60) frá Þórisstöðum í Þorskafirði um Hallsteinsnes, yfir Djúpafjörð og Gufufjörð um Grónes og Melanes og að nýbyggingarkafla vestan Skálaness. Leyfið veitt með fyrirvara um að farin verði efri leið frá stöð 1900 að stöð 3500 eins og landeigendur í Gröf hafa farið fram á. Einnig að vegtengingar við bæi í Gufudalssveit verði ásættanlegar fyrir íbúana.
- Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal.