Tenglar

8. mars 2014 | vefstjori@reykholar.is

Umboðsmaður aldraðra - löngu tímabært

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir.
Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir.

 

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir,

formaður Landssambands eldri borgara:

 

Það hefur æ oftar komið fram á fundum hjá aðildarfélögum Landssambands eldri borgara hversu mikilvægt er að við fáum „umboðsmann aldraðra“. Í umræðunni hefur verið bent á að æði mörg og margvísleg mál gætu borist til umboðsmanns aldraðra. Fyrirspurnir, ábendingar og hreinlega kærur þar sem menn telja rétt sinn brotinn. Það er líka rétt að það komi fram, að barist hefur verið fyrir því að fá umboðsmann aldraðra árum saman á meðan aðrir hagsmunahópar hafa fengið talsmann eða umboðsmann. Á undanförum árum hefur t.d. ítrekað verið farið í kringum réttindi eldri borgara um að fá sambærilegar kjarabætur og aðrir. Erfið varnarstaða kemur þá upp þar sem þessi hópur hefur ekki kjarasamningsrétt.

 

Að veikjast eða lenda á sjúkrahúsi

 

Við vitum öll um rétt sjúklinga og þrátt fyrir það þá er sífellt talað til aldraðra/veikra sem festast inni á sjúkrahúsum fram að dvöl á hjúkrunarheimili eins og um sértækt vandamál sé að ræða miðað við aldur. Enginn annar aldurshópur fær slíka umfjöllun. Aldursmismunun, er það ekki? Einnig er fjölmiðlaumræða um aldraða á hjúkrunarheimilum oftast í þeim stíl, að fólk sé í lúnum flókaskóm og komist ekki milli herbergja. Aldursmismunun? Já, tvímælalaust. Ekki þykir tiltökumál að ganga við styrka hönd í bernsku.

 

Að þekkja rétt sinn

 

Þekking fólks á réttindum sínum er misjöfn og þurfa margir að láta kanna stöðu sína, aðgengi að upplýsingum liggur víða og veitist mörgum flókið að ná heildarmynd af þeim. Hvergi er hægt að ganga að upplýsingaflæði fyrir eldra fólk um þau ár sem þá eru framundan. Eldri borgarar sem eru í leit að hentugra húsnæði eru dæmi um hóp sem fær misvísandi upplýsingar um hvað sé þjónustuíbúð eða öryggisíbúð og þurfa opinberir aðilar, þar með talinn umboðsmaður aldraðra ef við hefðum hann, að koma að því að fá fasta og örugga skilgreiningu á þessum íbúðamálum. Ekki má kaupa köttinn í sekknum.

 

Nú hefur verið stofnað embætti umboðsmanns borgarbúa og svo lítum við til umboðsmanns barna, en þar er orðið mjög fastmótað starf í þágu barna og til að koma Barnasáttmálanum á framfæri. Þangað leita bæði börn og foreldrar. Sum af þeim málefnum sem þar eru upptalin eiga líka við um eldri borgara. Má þar nefna mismunun, ofbeldi, vanrækslu og nokkur fleiri atriði.

 

Alþingi þarf að taka þetta mál til skoðunar og vinna að löggjöf um „umboðsmann aldraðra“ með það að leiðarljósi, að slíkt embætti geti stuðlað að bættu upplýsingaflæði til eldri borgara og að réttarstaða þessa hóps sé virt í hvívetna. Taka á móti fyrirspurnum, kanna mál einstaklinga, og stuðla að því að fólk á öllum aldursskala efri áranna njóti persónulegra réttinda, virðingar og samfélagsþátttöku. Samþykkt var á landsfundi Landssambands eldri borgara sl. vor að vinna að framgangi þessa máls. Nú er rétti tíminn til að koma þessu í verk, því þeim eldri borgurum fjölgar hratt sem þurfa öryggi og bakhjarl í baráttunni við skriffinnsku og flókið kerfi.

 

– Höfundur er form. kjaranefndar Landssamb. eldri borgara. Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2014.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30