Umhverfið verði í samræmi við náttúrufegurðina
Núna fyrir stuttu fór ég hringinn í kringum landið og á leið minni kom ég við í ýmsum bæjum og þorpum. Ég ætla samt ekki að fara hér yfir ferðasöguna heldur ætla ég að skrifa um upplifun mína þegar ég kom hingað heim á Reykhóla. Ég komst að einni niðurstöðu, að Reykhólar eru subbulegur bær. Mér finnst þetta skelfileg uppgötvun hjá mér. Ég veit ekki hvort að þetta er athugunarleysi, áhugaleysi eða hreinlega níska að vilja ekki gera meira fyrir byggðarkjarnann okkar. Reykhólar eru höfuðstaður Reykhólasveitar og má stundum segja að það sé nafli alheimsins, því þangað getum við sótt þá þjónustu sem við þurfum og jafnvel þurfum ekki.
Við íbúarnir erum orðnir samdauna umhverfinu okkar og sjáum kannski ekki hvernig það er, en utanbæjarfólk sem kemur hingað segir yfirleitt „mikið er fallegt hér í Reykhólasveit en ofsalega er bærinn subbulegur og lítið hirt um húsin hér og umhverfið“. Viljum við vera kölluð subbulegur bær? Nei, það held ég ekki.
Síðastliðin ár hefur verið hefð að halda hér hreinsunardag, sem að mínu mati hefur tekist vel, og sveitarfélagið hefur boðið upp á pylsur í Kvenfélagsgarðinum á eftir. Enginn slíkur dagur hefur verið þetta árið, ekki veit ég hvers vegna, kannski vegna þess að pylsurnar voru ekki inni á fjárhagsáætlun þessa árs.
Í öllum bölmóði er alltaf hægt að segja eitthvað gott. Ég vil nota tækifærið og hrósa sveitarstjórn fyrir að hafa látið mála húsnæðið sem hýsir Hlunningasýninguna, enda er allt annað að sjá húsið núna. Einnig fær flokksstjóri unglingavinnunar hrós fyrir að vera duglegur að leggja sitt af mörkum til þess að gera þorpið okkar fallegra. En það er víst ekki nóg, en samt góð byrjun.
Ég er sannfærð um að íbúar Reykhóla séu tilbúnir til þess að leggja sitt af mörkum til þess að gera þorpið okkar fallegra. Einnig er ég viss um að með litlum tilkostnaði er hægt að fegra bæinn okkar, þannig að við getum verið stolt þegar við segjum „ég bý á Reykhólum“.
Ég skora því á íbúa Reykhóla (og er ég þar ekki undanskilin) og sveitarstjórn að stefna að því að umhverfið okkar verði í samræmi við náttúrufegurðina hér í Reykhólasveit.
Látum Reykhóla líka vera „unað augans“.
- Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, húsfreyja á Litlu-Grund.