Umræðan um atkvæðavægið er á villigötum
Einar Kristinn Guðfinnsson alþm. skrifar
Umræðan um atkvæðavægið er á miklum villigötum hér á landi. Þetta sjáum við til dæmis í umræðunni sem hefur sprottið upp í tilefni af tillögum Stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslunni / skoðanakönnuninni sem fram fer 20. október. Þegar menn velta fyrir sér kosningafyrirkomulagi í öðrum löndum hafa menn í huga marga þætti. Ekki bara spurninguna um atkvæðavægið, eins og umræðan hefur einvörðungu snúist um hér á landi.
Fyrir nokkrum árum lét breska þingið fara fram ítarlega úttekt á þessum málum vegna deilna sem þar í landi hafa verið um þessi efni. Í Bretlandi eru einmenningskjördæmi, en það leiðir til þess að ekki er nákvæm fylgni á milli heildaratkvæðamagns flokkanna og þingmannafjölda þeirra. Þannig er þetta vitaskuld víðar þar sem einmenningskjördæmi eru.
Í þessari úttekt breska þingsins var bent á að nokkra þætti bæri að leggja til grundvallar þegar rætt væri um kosningafyrirkomulag. Nefna má í þessu sambandi þrennt:
1. Vægi atkvæða.
2. Hvernig hægt sé að tryggja sem best samband þingmanns og kjósanda.
3. Hvort kosningakerfið sé líklegt til þess að stuðla að myndun meirihlutastjórnar.
Að ýmsu að hyggja
Í stórum kjördæmum, svo ekki sé nú talað um þar sem landið er eitt kjördæmi, skerðist möguleikinn á virku sambandi þingmanns og kjósanda. Nútíma tölvutækni, tölvupóstar og slík fjarskipti koma ekki í stað hins milliliðalausa sambands, sem er svo mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta verða menn að hafa í huga þegar rætt er um kjördæmaskipanina og spurninguna um vægi atkvæða.
Þar sem landið er eitt kjördæmi og án þröskuldar sem menn þurfa að komast yfir til þess að fá menn á þing verða hinir pólitísku kostir mjög óskýrir. Fjöldi stjórnmálaflokka verður til og erfitt verður um myndun ríkisstjórna. Um þetta eru mörg dæmi frá öðrum löndum.
Skal svo böl bæta ...?
Í umræðunni um kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag er keyrð algjör einstefna. Menn geta svo sem svarað því þannig, að sú staða sem landsbyggðin hefur á Alþingi hafi ekki dugað vel. Og rétt er það. Mikið vantar á að hlutur landsbyggðarinnar sé sá sem hann þyrfti að vera.
En dettur einhverjum lifandi manni það í hug, að það yrði í þágu hagsmuna landsbyggðarinnar að veikja pólitíska stöðu hennar, veikja raddir hennar og þar með möguleikann á baráttunni fyrir bættum hag? Það sjá allir svarið við þessu. Ekki nema menn séu þeirrar skoðunar að svo skuli böl bæta að bíði annað meira, svo vitnað sé í ekki minni kappa en Gretti Ásmundarson.
Veikir hlut landsbyggðarinnar
Í dag eru þingmenn í landsbyggðarkjördæmum í minnihluta á Alþingi og hefur svo verið frá því að núverandi kjördæmaskipan var leidd í lög. Með tillögum Stjórnlagaráðs er alveg ljóst að enn myndi að miklum mun fækka þeim þingmönnum sem bæru hagsmuni landsbyggðarinnar sérstaklega fyrir brjósti. Það getur verið að einhverjum þyki það í lagi og svo verði að vera. En þá verða menn að hafa uppburði í sér til þess að segja það.
Því er haldið fram, að á Alþingi sem kosið verði á grundvelli þessara nýju tillagna muni alltaf verða fyrir því séð að landsbyggðarfólk eigi þar fulltrúa. En er það svo? Geta dæmin ekki kennt okkur eitthvað?
Tveir fulltrúar af landsbyggðinni – engir af stærstum hluta landsins
Þegar kosið var til Stjórnlagaþings (sem reyndist ólögleg kosning) kom þetta ágætlega í ljós. Fjöldi landsbyggðarmanna bauð sig fram. Niðurstaðan varð sú að af 25 fulltrúum búa 2 á landsbyggðinni eða 8% fulltrúanna. Annar býr á Akureyri, hinn í Þingeyjarsýslum. Enginn sem sagt af Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Austurlandi, Suðurlandi né Suðurnesjum.
Ætla menn svo að halda því fram, að þetta hafi ekki með einhverjum hætti mótað afstöðu Stjórnlagaráðsins?
Landsbyggðarfólk láti ekki þetta yfir sig ganga
Þess vegna er svo mikilvægt að landsbyggðarfólk sem hyggst kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni (sem nær væri þó að kalla skoðanakönnun) láti í sér heyra um þetta atriði.
Hafna ber 5. spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni / skoðanakönnuninni. Verði hún samþykkt og rati þetta ákvæði inn í nýja stjórnarskrá mun það hafa mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir landsbyggðina og veikja enn stöðu hennar.
- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.