Tenglar

17. mars 2009 |

Úr púkó í töff á einni nóttu

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir skrifar:

 

Um langt árabil hefur það ekki talist til meiriháttar tískustrauma að búa úti á landi. Skilningur margra á högum okkar sem tilheyrum hinum dreifðu byggðum hefur oft og tíðum verið takmarkaður. Störf í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði hafa bliknað í samanburði við gylliboð fjármálastofnana og þeirra sem hæst hafa boðið launin. Segja má að á uppgangstímunum hafi kjördæmið okkar, þar sem frumframleiðsla á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar og stóriðju er jafn mikilvæg og raun ber vitni, hreinlega þótt púkalegt.

 

En svo hrundi íslenska efnahagskerfið. Á svipstundu breyttist afstaða Íslendinga til svo margs, ekki síst frumframleiðslunnar. Nú skyldi slátur tekið og fiskur hafður í flest mál með íslensku meðlæti undir yfirskriftinni „Veljum íslenskt". Þjóðin opnaði augun fyrir þeirri staðreynd að það skiptir máli að hafa aðgang að innlendum landbúnaðarafurðum, það skiptir máli að geta veitt og selt fisk á heimsmælikvarða og skapað þannig nauðsynlegar gjaldeyristekjur. Og það skiptir máli að vera leiðandi í framleiðslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Kannski má með nokkrum sanni segja að NV-kjördæmið hafi farið úr púkó í töff á einni nóttu.

 

Og einmitt þar liggja tækifærin í kjördæminu okkar. Við búum á gjöfulu landsvæði sem hefur þolað efnahagslegar þrengingar um langt skeið. Við höfum mátt hafa okkur öll við til að tryggja atvinnutækifæri í héraði. Nú, þegar áherslan eykst á framleiðslugreinar, er brýnt að byggja nýsköpun og þróun á sérstöðu hvers landsvæðis fyrir sig. Beitum menntastofnunum okkar í ríkari mæli í þeim greinum þar sem við kunnum best til verka.

 

Atvinnulífið verður að byggja á krafti einstaklingsframtaksins. Fyrirtækin okkar geta aðeins þrifist í samkeppni ef tryggt er að þau sitji við sama borð og önnur fyrirtæki í landinu hvað varðar samgöngur, fjarskipti, raforkuöryggi og flutningskostnað.

 

Ef rétt er á málum haldið mun kjördæmið okkar fljótt ná þeirri fótfestu sem nauðsynleg er til laða að fólk og fyrirtæki og tryggja okkur betur í sessi, sem höfum háð harða baráttu til að byggja upp eftirsóknarvert samfélag. Nú erum við töff - nú er tækifærið.

 

- Birna Lárusdóttir, býður sig fram í 1.-2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30