Vaknið, vakNIÐ, VAKNIÐ!
Sigurður Örn Ágústsson skrifar:
Pólitísk umræða á Íslandi í dag er galin. Snargalin. Umræðan snýst um eitthvað sem skiptir almenning engu máli. Viljum við ekki ræða hver sé framtíð Íslands? Er þetta ekki aðalspurningin sem brennur á allra vörum? Hvaða rugl er eiginlega í gangi? Ég hélt að þau mistök sem gerð hafa verið, af svo mörgum, í gegnum árin væru flestum ljós. Ég hélt líka að það væri einhugur meðal þjóðarinnar að læra af þeim. En umræðan núna er snargalin og í engum takti við þau RISA-verkefni sem eru framundan.
Þegar ég tala um snargalna umræðu þá er ég að vísa til styrkjamálsins svokallaða sem hefur einangrast við Sjálfstæðisflokkinn. Þó má segja að ekki sé eðlismunur sé á þeim styrkveitingum og styrkveitingum og lánum Samfylkingar svo dæmi séu nefnd. Sjálfstæðismenn hafa harðlega gagnrýnt viðtöku styrkjanna og endurgreitt þá. Nýr formaður hefur sýnt styrk sinn með því að ganga fram af meiri skörungsskap í þessu máli en fyrri forystu hefði verið trúandi til. Þetta mál er ömurlegt og með öllu óþolandi. EN það er á ekki að vera aðalmálið í kosningunum. Aðalmálið hlýtur að vera; HVERNIG ætla stjórnmálaflokkarnir í landinu að leysa þann vanda sem við búum við? Tek hér nokkur dæmi um mál sem vert væri að ræða, en eru ekki rædd:
- Gjaldmiðillinn. Hann er ónýtur til lengri tíma litið. Hvað á að taka við? Hvernig ætla flokkarnir sér að halda genginu stöðugu, þannig að vísitalan verði ekki hærri en 150-160 í lok árs? Gjaldeyrishöftin eru ekki að virka. Hvaða stefnu hafa flokkarnir hér? (Umsókn um aðild að ESB leysir ekki þennan vanda). Hvernig verður málum svo fyrirkomið að hér verði vextir ekki hærri en 5-7% í lok árs?
- Peningamálastjórnun. Hvernig ætla flokkarnir sér að ná tökum á verðbólgu þannig að hún verði ekki hærri en 4-5% í lok árs 2009?
- Atvinna fyrir Íslendinga. Atvinnuleysi er í hæstu hæðum. Hvernig, endurtek; hvernig á að skapa störfin? Sjálfstæðismenn hafa bent á að skapa megi um 20.000 ný störf, með m.a. uppbyggingu orkufreks iðnaðar. VG hafa efni á því að sniðganga slíkar lausnir.
- Afdrif fyrirtækja. Hver á að vera pólitíska línan sem bankarnir eiga að fylgja við ákvörðun um hver fái lán og hver verði sett í þrot. (Dæmið af Pennanum, þar sem ríkið stundar kennitöluflakk og fer í samkeppni við einkageirann.... er þetta það sem koma skal?).
- Rekstur ríkissjóðs. Er nú með um 170 ma halla. Hvernig á að stoppa í þetta gat? (Skattahækkanir duga hvergi nálægt því til). Hvar og hvernig á að skera niður?
- Skuldir heimilanna. Hvernig á að vinda ofan af þessu óréttlæti og gera fólkinu í landinu kleift að búa áfram á Íslandi?
Ég óska eftir því að kosningabaráttan fari að að snúast um alvöru mál, sem eru þessi mál. Ekki bara innantóma frasa sem segja ekkert nema að „stefnt sé að" og „kanna eigi möguleika á". Mér sýnist andstæðingar Sjálfstæðisflokksins vera hæstánægðir með að ræða EKKI um lausnir. Það hentar þeim vel því þeir hafa engar lausnir.
Beitum skynsemi og skoðum hvaða lausnir boðið er upp á.
- Sigurður Örn Ágústsson.
Höfundur skipar 6. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og er í miðstjórn.