Vandi verslunarrekstrar á landsbyggðinni
Í framhaldi af grein Guðrúnar Eggertsdóttur, verkefnastjóra AtVest, sem birt er á vef Byggðastofnunar, var ég beðinn um að skrifa um okkar reynslu hér á Reykhólum af því sem grein hennar fjallar um.
Hólakaup er í grunninn matvöruverslun / söluturn en með sýnishorn af gjafavöru og ritföngum og auk þess olíuvörur og eldsneytissjálfsala. Við höfum rekið þessa verslun í tæpt ár, þannig að ágæt reynsla er komin á þetta. Sem betur fer höfðum við töluverða reynslu í þessu því annars hefði útkoman orðið önnur.
Gólfflötur sölurýmis er innan við 60 fermetrar, þannig að við skilgreinum okkur sem reddingabúð en ekki valbúð. Flest er til, en ekki í mörgum tegundum. Að jafnaði er einn starfsmaður og opið er alla daga vikunnar.
Vöruflutningar
Þó svo að einungis séu 230 km á milli Reykhóla og Reykjavíkur erum við ótrúlega einangruð hér og engar beinar ferðir hingað úr höfuðstaðnum. Flutningabíll þrisvar í viku allt árið er yfir nótt í Búðardal. Rúta tvo virka daga í viku (var þrjá virka daga) stoppar í Króksfjarðarnesi. Mjólkurflutningur þrisvar í viku (óstaðfestar fréttir eru um að eigi að fækka um eina ferð) stoppar yfir nótt eða helgi í Búðardal. Þetta gerir alls átta ferðir í viku. Til gamans má geta þess, að samsvarandi verslun á Kópaskeri er með nítján ferðir á viku frá Akureyri (svipuð vegalengd), þar af tólf samdægurs.
Flutningskostnaður
Sumir birgjar borga flutningskostnað skilyrðislaust en aðrir með skilyrðum (yfirleitt lágmarksupphæð í innkaupum) en sumt borgum við sjálf. Við sem einyrkjar höfum lítið samningsvægi við flutningaaðila og þess vegna hefur stundum verið betra að fá heildsala til að borga flutning og sleppa í staðinn fastaafsláttum. Síðan er umfang sendinga til að fá sem hagstæðastan flutning (verð pr. kg). Því stærri sendingar, því ódýrara pr. kg. Þó maður sé allur af vilja gerður getur það verið beint tap að panta lítið af einhverjum (sérpanta) sem maður verslar að jafnaði ekki við.
Rafmagnskostnaður
Rafmagnskostnaður er gríðarlegur. Flutningskostnaðurinn og hann eru langstærstu kostnaðarliðirnir við rekstur búðarinnar.
Helstu vandamálin í samantekt
Okkar helstu vandamál eru: Tíðni ferða of lítil, engar beinar ferðir, pöntunarfyrirvari of langur, hár flutningskostnaður, hár rafmagnskostnaður, smæð húsnæðis.
Ekkert þéttbýli þrífst án matvöruverslunar. Heimamenn geta ekki tryggt að þeir hafi slíka verslun nema með því að versla sem mest í heimabyggð, jafnt heimili sem stofnanir og önnur fyrirtæki.
Ég vona að þessar línur verði einhverjum til gagns og vona jafnframt að verslun í dreifbýli megi styrkjast.
Með bestu kveðjum.
- Eyvindur Magnússon í Hólakaupum á Reykhólum
þátttakandi í námskeiðinu Blómstrandi dreifbýlisverslun á Bifröst.
Sjá einnig:
25.03.2011 Frétt um grein Guðrúnar Eggertsdóttur, verkefnastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, ásamt tengli í greinina:
Enginn vilji til að jafna aðstöðumun á landsbyggðinni