Tenglar

13. september 2011 |

Vegagerð á tveimur hæðum?

Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson alþm. skrifar:

 

Niðurstaða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra varðandi Vestfjarðaveg 60 veldur miklum vonbrigðum. Það má sjá af viðbrögðum heimamanna, sem við höfum séð síðustu dægrin. Í raun felur tillaga ráðherrans í sér að farið skuli með veginn í Gufudalssveitinni um hálsana, Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Það er sú leið sem heimamönnum hugnast síst. Ljóst er að vegagerð um hálsana leysir ekki samgönguvandann á þessum slóðum. Markmið vegagerðarinnar hlýtur þó að vera sú að færa vegamál á þessu svæði eins og annars staðar í landinu inn á 21. öldina. Það er samdóma álit heimamanna sem gleggst þekkja til, að tillaga ráðherrans geri það ekki.

 

Það hlýtur þó að vera markmið allra að fara ekki í vegagerð þar sem vitað er að tjaldað verði til einnar nætur. Þrátt fyrir deilur um vegstæðið á þessum slóðum hljótum við að geta sammælst um að leggja veg vestur að Skálanesi með þeim hætti að örugg vissa sé um að sú vegagerð verði til bóta og uppfylli sanngjarnar kröfur okkar, allt árið um kring.

 

Það er ekki ástæða til þess að rekja sorgarsöguna enn og aftur í löngu máli. Svo vel þekkjum við hvernig allt hefur lagst gegn okkur. Eftir áralanga baráttu fyrir því að leggja veginn á þessum slóðum eftir láglendinu, um Þorskafjörð vestanverðan og með þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar, var vegagerðinni þar hafnað af Hæstarétti haustið 2009, á tæknilegum forsendum. Umhverfisráðherra var ekki heimilt að skírskota til umferðaröryggis í hinum vandaða úrskurði sem upp var kveðinn í ársbyrjun 2007, að mati dómstólsins.

 

Vegagerð um hálsana verður aldrei unað

 

Síðan eru liðin mörg ár ...

 

Nú tveimur árum síðar liggur fyrir tillaga innanríkisráðherra, sem sjálfsagt hefur ekki talið pólitískar forsendur fyrir annarri niðurstöðu. Fyrir liggur glerhörð afstaða núverandi umhverfisráðherra í þessu máli; fullkomin andstaða við láglendisveg. Hitt er jafnljóst að tillögu um veg um hálsana verður aldrei unað. Það er tómt mál um að tala. Hefðu menn einhvern tímann ljáð því máls væri sá vegur löngu kominn. En heimamenn og þingmenn lögðu aldrei til að sú leið væri farin, af ástæðum sem þegar hafa verið raktar; sú leið leysir ekki þann vanda sem nú er til staðar. Það getur því enginn ætlast til þess að við samþykkjum dýra vegagerð, sem kostar milljarða króna, sem við innst inni vitum að leysir ekki það sem ætlunin er að leysa. Það er kjarni málsins.

 

Vegagerð á tveimur hæðum?

 

Innanríkisráðherra nefnir til sögunnar mögulega jarðgangagerð undir Hjallaháls, einhvern tímann inni í blámóðu fjarskans, í sömu andrá og tillagan gengur út á að fara með veginn um hálsana. Það er ekki trúverðugt, þó ekki verði dreginn í efa góður hugur ráðherrans. Á mínum pólitíska ferli, sem spannar nú allmörg ár, hefur mér amk. aldrei til hugar komið að leggja veg þarna, eða annars staðar, á tveimur hæðum! Annars vegar yfir Hjallaháls og síðar einnig undir hann.

 

Þetta er ekki flókið. Annað hvort hyggja menn að jarðgöngum EÐA vegi yfir hálsinn. Ekki hvort tveggja. Svo einfalt er það.

 

Sé alvara í þessum hugmyndum um jarðgöng verða þær tillögur að liggja fyrir með skýrari og markvissari hætti og tímasettar í þokkabót. Ljóst þarf að vera hvort þessar tillögur séu raunhæfar verkfræðilega. Er hægt að leggja þarna brúkleg jarðgöng? Hvað kosta þau? Hver verða umhverfisáhrifin af annarri vegagerð – og jarðgöngunum – á þessu svæði? Hvernig er ætlunin að fjármagna þau? Leysa hugmyndir um jarðgöng undir Hjallaháls og vegur meðal annars um Ódrjúgsháls samgönguvandann til frambúðar? Munu þau raska öðrum jarðgangaframkvæmdum, svo sem Dýrafjarðargöngum, og þannig má áfram telja.

 

Fyrsta skrefið að því að svara þeim spurningum er auðvitað að hefja tafarlausar rannsóknir. Þær hljóta að geta hafist í haust, enda flýgur tíminn frá okkur. Eðlilegt er að ljúka því að svara öllum álitamálum varðandi vegagerð á þessum slóðum sem fyrst, þannig að hana megi hefja eigi síðar en í rökréttu og beinu framhaldi af vegagerðinni frá Kjálkafirði í Vattarfjörð, sem vonandi verður boðin út nú á haustdögum.

 

Láglendisvegur er besti kosturinn

 

Það er nauðsynlegt að árétta, að frá mínum bæjardyrum séð ætti vegurinn að liggja eftir svonefndri B-leið og hef ég ásamt þingmönnunum Ásbirni Óttarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni flutt um það frumvarp, sem kunnugt er. Hins vegar stöndum við nú frammi fyrir nýrri stöðu í málinu og eindreginni afstöðu innanríkisráðherra og þar með samgönguyfirvalda. Sú niðurstaða er hins vegar ekki endanleg og því brýnt að átta sig á öðrum valkostum, séu þeir á annað borð til staðar.

 

Innanríkisráðherra hefur sjálfur sagt að þessu máli sé ekki lokið, samráðið muni enn eiga sér stað. Viðbrögð okkar hljóta sem fyrr að vera mörkuð af samstöðu um kröfu um nútímalegan veg, sem stenst kröfur samtímans um vegalagningu. Þar getum við ekki gefið afslátt. Því þó þessi orusta hafi tapast í bili er stríðið ekki útkljáð.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30