Tenglar

23. janúar 2019 | Sveinn Ragnarsson

Vegagerð með stórum og litlum staf

Kristján Gauti Karlsson
Kristján Gauti Karlsson

Varúð: Hér á eftir fer grein sem er ekki jafn skemmtileg og hún er löng. Raunar er neikvæð fylgni milli skemmtanagildis hennar og lengdar. Og hún er mjög löng.


Í upphafi vil ég taka fram að efni greinarinnar tengist frétt um afgreiðslu sveitarstjórnar Reykhólahrepps á fundi 22. jan. ekki með beinum hætti. Næst vil ég taka fram að ég hef enga sérstaka skoðun á því hvaða leið sé best. Enn síður hef ég áhuga á að heyra hvaða leið öðrum þykir vænlegust. Efnistökin eru önnur.


Eftirfarandi varnagla er þó rétt að slá áður en lengra er haldið: sjónarmið landeigenda, hvort sem er á Reykjanesi, í Teigsskógi eða annars staðar þar sem hugmyndir eru uppi um að leggja veg skil ég mjög vel. Auðvitað vill enginn fá þjóðveg í gegnum sitt land og réttur allra er að berjast gegn því og láta reyna á slíka ákvörðun fyrir dómstólum ef með þarf. Sömuleiðis skil ég þá sem vilja fá veginn framhjá Reykhólum og sjá tækifæri í því en einnig þeirra sem telja tækifærin liggja í því að Vestfjarðavegur komi þar hvergi nærri og vilja hafa þorpið áfram utan alfaraleiðar. Einna best skil samt þá sem er bara alveg sama, því sjálfum er mér í rauninni alveg sama hvar vegurinn verður lagður. Allt hefur kosti og galla.


En þessi grein fjallar ekki um það hversu vel ég skil alla. Hún inniheldur vangaveltur mínar um Vegagerð með stórum staf að beita sér fyrir vegagerð með litlum staf. Hefst þá eiginlegt meginmál færslunnar:


Ég hef til þessa aldrei getað skilið hvers vegna Vestfirðingum er ekki nákvæmlega sama hvaða leið þeir keyra í gegnum Reykhólahrepp á leið sinni til og frá höfuðborginni. Ef til vill eru þeir smeykir við að fá aldrei veg ef ekki verður farið að vilja Vegagerðarinnar. Lái þeim hver sem vill. Kannski er ótti þeirra réttmætur.
(Í þessum hluta ætlaði ég að hafa vondan brandara, segja að ég skildi ekki hvers vegna landsbyggðarbúum væri ekki sama hvaða leið börnin þeirra færu í gegnum hrepp þegar þau myndu á endanum óhjákvæmilega flytja til Reykjavíkur og snúa aldrei heim aftur. En ég hætti við, því eins og getið var í upphafi verður neikvæð fylgni milli skemmtanagildis greinarinnar og lengdar hennar. Hér verða því engir brandarar sagðir).


Ég var að lesa fundargerð frá aukafundi sveitarstjórnar í dag, þar sem samþykkt var að taka Þ-H leið inn í aðalskipulagsferli. Sá lestur er um margt mjög áhugaverður. Að honum loknum get ég ekki annað en tekið hatt minn ofan fyrir öllum fulltrúum sveitarstjórnar, með og á móti niðurstöðu fundarins, fyrir að láta Vegagerð ríkisins heyra það í bókunum sínum, sem og stjórnendur nágrannasveitarfélaga.


Ég tel mig hafa fylgst vel mjög með þessu máli, og af því sem ég hef séð í gegnum lestur á skýrslum, greinum, fréttum, viðtölum, mörgum fundargerðum og ýmsum yfirlýsingum, auk samræðna við fólk sem er á öllum mögulegum skoðunum um málið, get ég ekki annað séð en að ávítur sveitarstjórnar eigi fullan rétt á sér: að kjörnir fulltrúar Reykhólahrepps hafi í raun aldrei haft neitt val í málinu, heldur hafi Vegagerðin með þrýstingi og yfirgangi í reynd svipt hreppinn skipulagsvaldinu sem hann á hafa. Það er grafalvarlegt mál. Ef enginn vegur verður lagður nema sá sem Vegagerðin vill leggja þá er skipulagsvaldið í vegamálum í raun bara formsatriði, eins og komið er inn á í fundargerðinni. Það vekur upp áleitna spurningu: af hverju fara sveitarfélög yfirleitt með skipulagsvaldið ef því er í reynd miðstýrt af Vegagerðinni í ákveðnum málum?


Áður en lengra er haldið langar mig að rifja upp að ákvörðun um vegagerð um Teigsskóg skv. B-leið sem þá hét var felld úr gildi fyrir hæstarétti 2009. Reykhólahreppur á sannarlega sína sök í því sem á eftir kom, vegna þess að hann samþykkti þá leið á sínum tíma og þurfti því auðvitað að díla við afleiðingarnar, sem voru að fá málið aftur inn á sitt borð því sveitarstjórn verður að setja nýja vegleiðir inn í aðalskipulag.


Afleiðingar þeirra málalykta fyrir Vegagerðina voru hins vegar engar, nema að málskostnaður hefur væntanlega greiðst úr ríkissjóði, sem ég leyfi mér að efast um að hafi haft nokkur sérstök áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Vegagerðin ákveður síðan árum síðar að samt skuli farið í gegnum Teigsskóg, breytir veglínuninni í Þ-H og ætlar að láta reyna á Teigsskógarleið aftur, þó það þurfi að fara aftur fyrir dómstóla ef með þarf. Ef Þ-H verður hnekkt fyrir dómstólum á næstu árum verða afleiðingarnar fyrir Vegagerðina þær sömu og síðast, engar. Reykhólahreppur mun hins vegar fá málið aftur í hausinn, eðlilega, því sök hans yrði þá hin sama og síðast; að hafa sett leið sem dómstólar meta ólögmæta inn í aðalskipulag. Það sama gildir auðvitað burtséð hvaða leið hefði verið valin í dag, ef þeirri ákvörðun hefði síðan verið hnekkt fyrir dómstólum. Í ljósi þess er enn ómaklegra að skipulagsvaldið hafi í reynd verið tekið af hreppnum, eins og kjörnir fulltrúar Reykhólahrepps lýsa í fundargerðinni. Ákvörðunin er annarra en afleiðingarnar hreppsins, ef allt fer á versta veg.


Þrátt fyrir fyrri loforð fær höfundur ekki stillt sig um að kasta fram öðrum brandara, en til að halda tryggð við fyrirheit um neikvæða fylgni skemmtunar og lengdar, er sá brandari hafður mjög lélegur og á kostnað Vegagerðarinnar, sem er aldrei fyndið:
Ég: „Heyrðu, hver er eiginlega munurinn á brú og vegræsi?“
Vegagerðin: „Það er fjörður sitt hvoru megin við brúna.“

Á undanförnum árum hefur Vegagerðinni gengið ótrúlega vel að kenna Reykhólahreppi um allar þær tafir sem hafa orðið á málinu nánast frá upphafi. Raunin er auðvitað sú, eins og bent er á í fundargerðinni, að hreppurinn hefur undanfarið ár aðeins verið að rækja sínar lögformlegu skyldur við að láta greina þá valkosti sem eru í stöðunni eru, til þess að einhvern tímann verði mögulega hægt að leggja almennilegan veg án þess að málið verði stoppað fyrir dómstólum. Þær tafir sem hafa orðið á málinu undanfarna tvo áratugi eru fyrst og fremst Vegagerðinni að kenna. Þar á bæ eru menn bara flinkari í því að kenna öðrum um en þeir sem funda á hreppsskrifstofunni á Reykhólum.


- Hliðarsaga hefst-
Einhverju sinni hafði verið beðið mánuðum saman eftir skýrslu frá Vegagerðinni um veginn. Boðað hafði verið að þar yrði tekin afstaða til leiða. Á mínum vinnustað var ég spurður hvort ég vissi nokkuð hvað væri að frétta af þessari skýrslu. Ég sagði svo ekki vera, en lýsti mig tilbúinn að veðja upp á pylsu og kók að sama dag og skýrslan kæmi út myndum við heyra fulltrúa Vegagerðarinnar og vestfirska þingmenn segja í fréttum að „vegagerð um Gufudalssveit þoli enga bið.“ Dagurinn rann að lokum upp og ég borðaði frítt í hádeginu, eina með öllu og ískalda kók.
-Hliðarsögu lýkur-


Upp á síðkastið hafa stjórnendur nágrannasveitarfélaga Reykhólahrepps orðið sér til skammar með því að taka undir þá vitleysu að allar tafir sem nokkrun tímann hafa orðið í málinu séu af völdum hreppsins, í stað þess að staldra bara örlítið við og hugsa aðeins lengra en bara um það af hverju það kom ekki nýr vegur undir bílana þeirra í gær. Hvernig þeir sjá ekki að kjörnir fulltrúar Reykhólahrepps eru bara að reyna að vanda sig eins vel og þeir geta skil ég ekki. Sérstaklega í ljósi þess að stjórnendur þessara sveitarfélaga ættu að þekkja manna best hversu mikilvægt er að vanda sig á öllum stigum í skipulagsferlinu. Ef menn hefðu vandað betur til verka á þeim bæjum fyrir ekki löngu síðan væri laxeldið vestur á fjörðum ekki rekið á bráðabirgðaleyfi í dag.


Það er staðreynd að Teigsskógur nýtur verndar skv. náttúruverndarlögum, hvað sem mönnum finnst um það eða skóginn yfirleitt. Skipulagsstofnun hefur áður beint þeim tilmælum til hreppsins að rökstyðja þurfi sérstaklega ef Þ-H leið verður valin vegna þess að hún sé í andstöðu við náttúruverndarlög. Sömuleiðis er staðreynd að Landvernd sagði í umsögn við vinnslutillögu aðalskipulagsbreytinga í janúar 2018 að hún teldi Þ-H í mikilli andstöðu við lög um verndun Breiðafjarðar. Fram kom á fundi Vegagerðarinnar á Reykhólum á dögunum að fara mætti í gegnum svæði sem njóta verndar vegna sjónarmiða umferðaröryggis. Allt saman satt og rétt og í prinsippinu er það hið besta mál. En hver metur umferðaröryggi? Jú, það er Vegagerðin. Af því leiðir að stofnunin sjálf hefur í hendi sér tæki til að fara á svig við náttúruverndarlög ef henni sýnist svo. Persónulega teldi ég eðlilegra ef þetta mat væri alfarið í höndum óháðra aðila.
Ef fólki finnst yfirleitt í lagi að stofnun sé það í raun sjálfvald sett hvort hún brjóti náttúruverndarlög eða ekki vaknar áleitin spurning: eru náttúruverndarlög bara orðin tóm og allt í lagi að fara á svig við þau ef hentar hverju sinni? Ef svarið við þeirri spurningu er já, þá vaknar enn áleitnari spurning: gildir þá ekki það sama um önnur lög? Ef já, af hverju eru þá yfirleitt lög í landinu?


Kæri lesandi, takk fyrir að fylgja mér alla þessa leið. Ég biðst afsökunar á því hvað greinin er orðin löng, svo löng að ég er orðinn hræddur um að mér verði persónulega kennt um að tefja málið fram úr hófi. En ég minni á að ég var búinn að vara þig við.


Hér hefur Þ-H leiðin mikið verið notuð sem dæmi. Færsluna má þó ekki að lesa sem svo að ég sé að taka afstöðu til hennar eða annarra leiða. Þær hafa allar kosti og galla. Þ-H er einfaldlega dæmið sem verður að nota þegar ritað er um Vegagerð með stórum staf að beita sér fyrir vegagerð með litlum staf. Eftir að hafa fylgst náið með málinu undanfarin ár get ég ekki dregið aðra ályktun en þá að Vegagerðin hafi aldrei verið reiðubúin að svo mikið sem velta öðrum möguleikum en Teigsskógarleið fyrir sér, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, dómsmál, kærur og deilur. Ég skil bara ekki hvers vegna.


Áður en botninn verður sleginn í þessi skrif langar mig að segja þetta: Ég ber hag minnar heimasveitar fyrir brjósti. Hagsmunir íbúanna í þessu máli eru ólíkir eftir því hvar þeir búa í sveitinni og hvað þeir fást við. Allir hafa þeir jafnan rétt á að halda sínum sjónarmiðum á lofti og berjast fyrir sínum hagsmunum. Hart hefur verið tekist á. Sum sár eru dýpri en önnur. En á bakvið átökin er venjulegt fólk sem er bara að reyna að reyna að gera það sem það telur rétt fyrir sig og sína, best fyrir alla eða skásta kostinn af mörgum vondum. Niðurstaða dagsins í dag, sama hvað mönnum finnst um hana, markar kaflaskil og boðar þrátt fyrir allt ákveðin endalok málsins. Vonandi geta sárin gróið með tímanum.

 

Kristján Gauti Karlsson

 

  

Athugasemdir

Jón Halldór Gunnarsson, fimmtudagur 24 janar kl: 09:41

Hvað með ábúendur á Stað? Þeir vilja ekki veg um túnið sitt. Hvað hefði það tekið mörg ár að koma veglínu þar framhjá? Ef allar kæruleiðir hefðu verið farnar? Hvers á fólkið sem býr á suðurfjörðum Vestfjarðakjálkans að gjalda fyrir fjármögnunarfýsi Pálmasona í ofurfriðun sumra staða sem flestir hafa það sameiginlegt að vera langt, langt frá Reykjavík.

Sunnlendingur, fstudagur 25 janar kl: 17:38

Er þeim sem telja sig eiga Teigshrísið virkilega sama þó góðar bújarðir sér skornar í sundur með þjóðvegi?. Því í ósköpunum að skemma góðar bújarðir þegar hægt er að fara um óbyggt svæði, Þó svo nokkrar hrísplöntur verði undir, samskonar hrís vex þarna í nágrenninu um allar koppagrundir og er jafn merkilegt og teigshrísið. Nefna má að þegar vegurinn var lagaður í Vatnsfirðinum þá gekk mikið á, en í dag er eins og vegurinn hafi alltaf verið þarna og hrísið er alltaf að færast nær akbrautinni. Fyrir allnokkrum árum ætlaði ég að skoða fyrirbærið Teigskó en þá var búið að henda svo miklu grjóti á veginn að hann var ófær.
Skýringuna sögðu heimamenn vera að einhver þar í sveit hafi misst það út úr sér að þetta helvítis hrís væri best brunnið til ösku því það væri ógaman að smala þetta svæði.
Nú er vonandi að eitthvað fari að gerast í samgöngumálum. Vestfirðingar eru að vonum langþreittir á öllu þessu stappi, hitt er þó verra þegar fjársterkir aðilar hika ekki við að bera fé á sveitarstjórnarmenn í formi greiðslna á einhverjum skýrslum bara til að tefja framgang, reyna með því að hafa áhrif á mál sem heimamenn eru fullfærir um að leysa. Þann 8. mars á s.l. ári var málið svo gott sem í höfn en vindurinn snérist eftir kosningarnar því miður. Það er því ekki nema von að mjög þungur hugur sé í fjölmörgum þar vestratil landeigenda og öfgastofnanna sem þá styðja. Vestfirðingar þurfa sjálfir að hafa forræði um náttúruvernd,umhverfismál og nýtingu auðlinda þar með eru Vestfjarðamið. það er til nóg af velmenntuðu fólki á Vestfjörðum til að fjalla um þessi mál. Nóg er að horfa til höfuðborgarsvæðissins til að sjá hvað varast þarf.
Vestfirðingar eru seinþreittir til vandræða en ekki yði ég hissa þó væri farið að dusta rykið af gamalli kunnáttu sem Arnfirðingar og Hornstrendingar voru hvað mest orðaðir við og komu nokkrum á bálið í den.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31