Tenglar

1. nóvember 2011 |

Vegalagning í Reykhólahreppi

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir í Mýrartungu II skrifar:

 

Nýlega kom ráðherra samgöngumála og upplýsti okkur Reykhólabúa um hvar best væri að leggja nýjan veg í Gufudalssveitinni, nú ætti að fara hálsana. Þegar ég flutti í Reykhólasveitina fyrir 15 árum var mikið fjallað um framtíðarvegalagningu sem leysa skyldi af gamla og bratta vegi um Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Vegagerðin lagði til ýmsa valkosti sem fjallað var um á mörgum fundum.

 

Fyrsti valkostur okkar sem þá vorum í sveitarstjórn var leið A, eða vegur út Reykjanesið og yfir mynni Þorskafjarðar í Skálanes. Með því kæmu Reykhólar í þjóðbraut, en á þessari leið frá Búðardal til Patreksfjarðar er enginn þéttbýlisstaður annar. Og við fundum norska tillögu í byggðaáætlun fyrir Vestfirði frá árunum kringum 1960 þar sem gert var ráð fyrir brú á þessum stað, ekki ósvipaða og nú er á Mjóafirði í Djúpi.

 

Eftir marga fundi var sæst á að fara leið B eða með brú yfir Þorskafjörð, síðan gegnum Teigsskóg, fyrir Hallsteinsnes með þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar að Skálanesi. Nú vita menn hvernig sú tillaga fór, henni var hafnað í Hæstarétti, vegna þess að botndýralíf í fjörum Djúpafjarðar og Gufufjarðar væri ekki nægilega rannsakað.

 

Að ætla sér að fara að leggja nýjan veg um Hjallaháls finnst mér fráleit hugmynd, sá háls er nokkru hærri en Víkurskarð, sem talinn er slíkur farartálmi að jarðgöng þurfi undir Vaðlaheiði. Ég hef margoft ekið Hjallaháls að vetri til og veðurfar þar er það sama og á Þorskafjarðar- og Steingrímsfjarðarheiði, enda Hjallaháls jarðfræðilega framhald af þeim heiðum þó að lægri sé en þær. Á Hjallahálsi hef ég upplifað að vetri til snarvitlaust veður, skafrenning og snjókomu þó að sæmilegt sé annars staðar.

 

Nú var okkur sagt að það yrði að laga þann veg sem fyrir er eða leggja nýjan um hálsana, vegna þess að nýtt umhverfismat fyrir B-leið mundi fara á sama veg og áður. En þarf ekki umhverfismat fyrir Hjallaháls og Ódrjúgsháls? Á Hjallahálsi er búið að gera margar veglínur allt frá upphafi vegalagningar. A.m.k. má sjá þar ótal vegaspotta sem skera hlíðarnar, svo að stingur í augun. Er það ekki umhverfismál að fara að rífa og tæta þessar hlíðar einu sinni enn? Hefur nokkuð verið rannsakaður gróður og jurtalíf þar? Getur það ekki verið jafn merkilegt og Teigsskógur? Hvað um birkið í Ódrjúgshálsi? Og hvað er Teigsskógur? Jú, ljómandi fallegt birkikjarr, svipað og er í öllum þessum hlíðum sem snúa móti suðri í Barðastrandarsýslum. En hvers vegna má ekki leggja veg þar?

 

Þegar nýr vegur var lagður um Barmahlíð að Reykhólum árið 2001 var farið gegnum sjálfsprottinn birkiskóg og skógrækt þar sem gróðursett voru bæði grenitré og lerki. Þar hefur m.a. mælst hæsta tré á Vestfjörðum. En þau tré sem voru í veglínunni voru gróðursett annars staðar, eða nýtt sem jólatré. Öllu efni var keyrt að í veginn, engu rótað upp. Ég sé ekki annað en að þarna hafi vel tekist til, vegurinn í gegnum skóginn er til fyrirmyndar.

 

Svipað er hægt að gera í Teigsskógi, það þarf ekki að vera eyðilegging þó að lagður sé vegur þar í gegn. Var ekki lagður vegur í gegnum Hallormsstaðarskóg? Og hverjir eru það sem leggjast gegn því að leggja þarna veg? Samkvæmt upplýsingum á ofangreindum fundi í Bjarkalundi eru það tveir sumarbústaðaeigendur sem eiga hlut í Gröf og Hallsteinsnesi. Eigandi jarðarinnar Teigsskógar hefur lýst því yfir að hann sé ekki mótfallinn vegalagningu um Teigsskóg.

 

Ég er skógræktarbóndi og er búin að láta gróðursetja 80.000 trjáplöntur. Mér þykir vænt um náttúruna og vil hlúa að henni eftir föngum. En ég ætla mér að setja vegi og stíga um skógræktina svo niðjar mínir og aðrir geti notið hennar þegar tímar líða. Teigsskógur var beitarskógur áður fyrr, meðan sauðfjárrækt var meiri í Þorskafirði. Nú er hann ógengur mönnum og skepnum. Með góðum vegi í gegnum skóginn getum við notið hans um leið og við fáum láglendisveg í stað illfærra fjallvega.

 

– Höfundur er fyrrverandi alþingismaður og sveitarstjóri.

 

Grein þessi birtist einnig í Morgunblaðinu í dag.

 

Athugasemdir

Vestfirðingur, laugardagur 16 jn kl: 09:48

Nú geta landsmenn séð hvað gerist ef þingmenn eru samtaka.
Verðandi Vaðlaheiðargöng eru gott dæmi um þetta.

Það er löngu tímabært að þingmenn okkar Vestfirðinga fari að vakna, og gera annað en að hirða launin sín.
Það verður því miður að segja eins og er, þeir hafa aðeins stutt samgöngubætur á sunnanverðum Vestfjörðum í orði en ekki á borði. Því er ástandið eins og það er.
Væru þessir menn í venjulegri vinnu eða til sjós, væri fyrir löngu búið að reka þá alla.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30