Tenglar

12. maí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Veglínu breytt og rafmagn í þágu landeigenda?

Birt hér að beiðni Kristins Bergsveinssonar frá Gufudal

 

Kristján Kristjánsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar, hefur sent Kristni Bergsveinssyni á Reykhólum (Kristni frá Gufudal) kort þar sem inn er færð hugsanleg veglína yfir Þorskafjörð skammt frá Kinnarstöðum og síðan út með firðinum að norðanverðu. Sú veglína er frábrugðin fyrri hugmyndum um veg út með firðinum að því leyti, að í þessu tilviki færi vegurinn ekki um Teigsskóg heldur lægi hann alla leið fyrir neðan sjávarbakkana.

 

Í tilskrifi sem fylgir vísar Kristján til erindis Kristins til Vegagerðarinnar þar sem hann hafði rissað sína hugmynd að veglínu með sjónum. Þar hefði Kristinn farið þess á leit við Vegagerðina, að sú lína yrði sett á kort eins og Vegagerðin hefði sett fram sínar línur. Síðan segir Kristján Kristjánsson:

 

„Vegagerðin hefur hugað að línu, sem fer sjávarmegin Teigsskógar, í svipuðum anda og Kristinn talar um, en þó þannig, að hún fer hvergi upp á sjávarbakkana, enda leiða slíkir sneiðingar jafnan til alvarlegra snjóavandamála ef snjóa skyldi á þessum slóðum. Þessi veglína Vegagerðarinnar er í viðhengi. Aðallínan á blaðinu er skipulagslínan. Nýja línan er bláa strikið meðfram ströndinni, ýmist í sjó eða gegnum nes.“

 

Loks tekur Kristján fram, að Kristni séu frjáls afnot af þessari hugmynd.

 

Kortið sem Kristján sendi má sjá á myndinni sem hér fylgir. Þar hefur verið bætt inn rauðgulum örvum sem benda á hina nýju veglínu yfir fjörðinn og neðan sjávarbakkanna allt út á Hallsteinsnes. Með því að smella á tengilinn hér allra neðst má sækja kortið miklu stærra á pdf-formi.

 

Í framhaldi af þessu leggur Kristinn Bergsveinsson til, að jafnframt vegi verði rafstrengur lagður í jörð þessa leið. Þar með myndu landeigendur á þessum slóðum m.a. fá rafmagn í sumarhús sín, núverandi og væntanleg. Jafnframt leggur Kristinn til, að rafstrengur verði lagður í jörð frá Skálanesi að Eyri í Kollafirði.

 

Kristinn hefur beðið vefinn að birta þessar tillögur sínar ásamt röksemdum og fara þær hér á eftir.

 

 

Tillögur að lagningu rafstrengs

 

I.

Orkubúið, Vegagerðin og Síminn kosti sameiginlega lagningu rafmagns í jörð frá Búlká um Hallsteinsnes, yfir Djúpafjörð, um Grónes og yfir Gufufjörð í raflínu á Hofstaðahlíð. Rökin eru: Landeigendur fengju rafmagn í sín sumarhús, núverandi og væntanleg. Vegagerðin fengi rafmagn í vinnubúðir á Hallsteinsnesi og Grónesi. Notendur á Gufudalsbæjum og í Djúpadal fá tryggara rafmagn. Ef Hjallaháls fer út verður áfram rafmagn um jarðstrenginn.

 

Ítarlegri röksemdir, ekki síst varðandi Teigsskóg við norðanverðan Þorskafjörð:

 

Með rafvæðingu og vegi skapast möguleiki á sumarhúsabyggð og ferðaþjónustu, jafnvel fastri búsetu og iðnaði, ef út í það færi. Varðandi þetta síðasttalda langar mig að rifja upp söguna: Á kreppuárunum upp úr 1930 settust Jón Guðmundsson og fjölskylda hans að í Teigsskógi og bjuggu þar í allmörg ár. Jón virkjaði Grímkelsstaðaána og stundaði málmsteypu og fleira. Bústofninn var geitur. Þarna ólst barnahópurinn upp. Barnaskólagangan var hálfan vetur á ári til fjórtán ára aldurs. Jón Guðmar Hauksson er afabarn Jóns í Skóginum, eins og við Gufsarar kölluðum Jón Guðmundsson. Jón Guðmar er fulltrúi landeigenda í Teigsskógi, sem eru sjö talsins.

 

II.

Orkubúið og Síminn leggi rafmagn í jörð frá Skálanesi að Eyri í Kollafirði. Rökin eru: Síðasta vetur varð rafmagnslaust og símalaust í Kollafirði og á Klettshálsi í ca. 10 daga vegna bilunar á Gufudalshálsi. Oft eru þar aðstæður þannig, að ekki verður komist til viðgerða nema í þokkalegu veðri. Jafnframt eru aðstæðurnar þannig, að menn þurfa að setja sig og tæki í hættu við ruðning á snjó af línuveginum í flugbrattri hlíðinni, oftast í mikilli hálku.

 

Forgangsmál er að sími haldist í lagi á Klettshálsi og í eyðibyggðum meðfram vegum á þjóðvegi 60, rétt eins og annars staðar á landinu.

 

Verkin verði boðin út en Orkubúið sjái um tengingar.

 

- Kristinn frá Gufudal.

 

 

Kortið frá Vegagerðinni á pdf-formi (hér má stækka það nánast í það óendanlega).

 

 

Árétting:

Á liðnum árum hefur margt birst hér á vef Reykhólahrepps um vegamálin í héraðinu og fram hafa komið ýmis ólík og andstæð sjónarmið. Áréttað skal, að með birtingu einstakra sjónarmiða er af hálfu vefjarins eða umsjónarmanns hans vissulega engin afstaða tekin til þeirra. Vefurinn er einungis umræðuvettvangur þar sem einmitt verður að telja gott að ólík sjónarmið varðandi málefni héraðsins fái að koma fram.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30