Tenglar

14. mars 2010 |

Vegur um Arnkötludal

Karl Kristjánsson.
Karl Kristjánsson.
Karl Kristjánsson á Kambi í Reykhólasveit skrifar:

 

Þegar hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti á fundi 8. mars 2007 að mæla með því að nafnið „Arnkötludalur“ yrði notað á nýjan veg sem liggja ætti um Arnkötludal og Gautsdal, þá var nafnið „Tröllatunguvegur“ vinsælt hjá Vegagerðinni. Síðan hefur bæst við allnokkur hópur nafna - misgóðra, Tunguheiði, Djúpvegur um Þröskulda, Djúpvegur um Arnkötludal og á Reykhólavefnum sá ég nýlega nafnið „Þröskuldaleið“.

 

Í ágætri grein á vefnum strandir.is 25. janúar síðastliðinn rifjar Matthías í Húsavík upp nöfn þeirra leiða sem tengt hafa Strandir og Reykhólasveit um aldir. Þar segir réttilega að leiðaheitin taki mið af örnefnum öðru hvoru megin fjalls - Steinadalsheiði, Tröllatunguheiði, Bæjardalsheiði, Laxárdalsheiði o.s.frv. og að nálægð bæja við heiðina eða lengd dala og fjarða ráði nafninu.

 

Í Laxdælasögu segir frá því þegar Kjartan Ólafsson fór í sína hinstu för. Þórhalla málga spyr Kjartan hvert hann ætlaði að fara. Hann kvaðst fara skyldu vestur til Saurbæjar. Hún spyr: Hverja leið skaltu ríða? Kjartan svarar: Ég mun ríða vestur Sælingsdal en vestan Svínadal. Seinna segir frá því þegar lagt er af stað: „Ríða þeir vestur um Sælingsdalsheiði og koma um kveldið í Hól.“

 

Leiðaheitin eru skýr þó farið sé um aðra dali líka og mörg örnefni komi við sögu á leiðinni, nafnahefðin er sú sama og á heiðunum milli Stranda og Reykhólahrepps.

 

Kjartan fór ekki „Vestfjarðaveg um Mjósund“ eða „Mjósundaleið“ og þaðan af síður „Bessatunguveg“, hann reið vestan Svínadal.

 

Þegar við í Reykhólasveitinni förum í Búðardal, þá förum við Svínadal, og þegar við förum til Hólmavíkur, þá förum við Arnkötludal.

 

Það heita Þröskuldar (Þrepskyldir í landamerkjabréfum), hryggurinn sem skilur að Arnkötludal og Gautsdal, ávöl bunga þar sem vötnum hallar, landamerki jarða og sýslumerki, ágætt örnefni sem slíkt, en með eindæmum ljótt sem vegheiti eða leiðarheiti og stílbrot á þeim hefðum og málvenjum, sem hér hafa gilt um aldir. Ef þörf er talin á því að nafnið minni á fjallveg, sem er að mínum dómi ástæðulaust, er heiði eða háls í öllum tilfellum notað hér um slóðir, samanber Sælingsdalsheiði sem varð í daglegu máli, strax á söguöld „að fara Sælingsdal“.

 

Það er bæði eðlilegt og rétt að vegurinn taki nafn af Arnkötludal, sem er mun lengri dalur en bæði Gautsdalur og Geiradalur, og meirihluti leiðarinnar liggur um Arnkötludalinn. Það má á hinn bóginn sjálfsagt færa rök fyrir því að nefna leiðina „Arnkötludalsheiði“ en það nafn er langt og óþjált í daglegri notkun og myndi vafalaust styttast fljótlega í „Arnkötludal“.

 

Ég vil hvetja Vegagerðina og alla aðra til að nota Arnkötludalsnafnið á þennan nýja veg sem tengir saman Strandir og Reykhólasveit og virða með því þær nafnahefðir sem hér hafa mótast um aldir og okkur íbúunum ber að varðveita og hafa í heiðri.

 
- Karl Kristjánsson.
 

Athugasemdir

Svavar Gestsson, laugardagur 03 jl kl: 23:45

Þetta var þarfur texti sem ég sé fyrst núna.
Leyfi mér að birta á heimasíðu minni.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30