Tenglar

29. nóvember 2011 |

Verðmiðinn á Teigsskóg 1 til 5 milljarðar

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar Kristinn Guðfinnsson alþm. skrifar

 

Í raun og sanni má nú segja, að með óbeinum hætti hafi verið settur eins konar verðmiði á þann umdeilda Teigsskóg í Þorskafirði. Um vegagerð á þessum slóðum hafa staðið miklar deilur og þær eru ekki til lykta leiddar. Í svari við fyrirspurn Kristjáns L. Möller á Alþingi í gær, mánudag, birti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra upplýsingar sem varpa ljósi á þann viðbótarkostnað sem hlýst af því að fara ekki þá láglendisleið sem um var rætt og kölluð hefur verið B-leiðin. Sú leið er gjarnan kennd við Teigsskóg í almennri umræðu. Hún liggur yfir Þorskafjörð, út með firðinum með þverunum yst við Gufufjörð og Djúpafjörð.

 

Viðbótarkostnaðurinn af því að koma í veg fyrir B-leiðina liggur á bilinu 1 til 5 milljarðar króna. Það er sá fórnarkostnaður sem ríkissjóði (skattgreiðendum) er ætlað að taka á sig með því að hafna B-leiðinni.

 

Þessar tölur eru athyglisverðar og ástæða til þess að rekja þær hér til upplýsingar fyrir umræðuna sem mun verða á næstu mánuðum og misserum.

 

Til upprifjunar

 

Rifjum aðeins upp. B-leiðin var sú leið sem búið var að undirbúa og tryggja fjármagn til. Ef ekki hefði komið til málaferlanna sem við þekkjum er ljóst að vegagerðinni á þessum slóðum væri lokið, enda hefðu framkvæmdir getað hafist að óbreyttu á árinu 2007.

 

Nú er staðan hins vegar svona: Innanríkisráðherra hefur hafnað því að valinn verði heppilegasti kosturinn, B-leiðin. Heimamenn hafa haldið stíft við þá kröfu sem alltaf hefur verið höfð uppi um að fara ekki með veginn um hálsana, Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Sú leið er því úti af borðinu. Það hefur innanríkisráðherra staðfest. Krafan er þess vegna sem fyrr alveg ófrávíkjanleg. Krafan er um láglendisveg og undan þeirri kröfu geta stjórnvöld ekki vikið sér.

 

Hverjir eru þá kostirnir?

 

Skoðum þá kostina sem innanríkisráðherra nefndi í svari sínu. Kosti sem gætu verið uppi á borðinu, að því gefnu, að hugmyndin um vegi yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls sé úr sögunni og ráðherrann haldi sig við þann leista sinn að skoða ekki frekar B-leiðina. Þá standa eftir eftirfarandi kostir sem nú koma til skoðunar.

 

A-leiðin: Þetta er vegur um núverandi Reykhólasveitarveg, út að Stað og Árbæ og yfir mynni Þorskafjarðar og að Skálnesi. Þessi leið er talin kosta um 11 milljarða. Þá er ótalin óhjákvæmileg uppbygging vegarins frá vegamótum Vestfjarðavegar 60, m.a. um Barmahlíð og út að Stað og Árbæ. Þessi leið er talsvert lengri í kílómetrum en aðrir valkostir en myndi vitaskuld hafa jákvæð áhrif fyrir þéttbýlið á Reykhólum og aðliggjandi bæi.

 

D-leiðin: Þetta er vegagerð sem felur í sér þverun Þorskafjarðar, undir Hjallaháls í jarðgöngum , yfir Ódrjúgsháls og yfir innanverðan Gufufjörð. Kostnaður 9,2 milljarðar.

 

H-leiðin: Svipuð og leiðin hér að ofan. Kostnaður 9,6 milljarðar.

 

I-leiðin: Vegur út Þorskafjörð austanverðan, yfir Þorskafjörð nálægt Laugalandi, þar sem land er tekið skammt innan við Hallsteinsnes, nokkru utan við hinn fræga Teigsskóg og síðan með þverun yfir Gufufjörð og Djúpafjörð utanverða. Kostnaður 7,1 milljarðar króna.

 

Verðmiðinn er 1 til 5 milljarðar

 

Þarna blasir sem sé verðmiðinn á Teigsskógi við, því allar þessar vangaveltur ganga út á það hjá yfirvöldum að forðast það að fara svo kallaða B-leið, sem liggur m.a. um skóginn. Verði dýrasta leiðin farin er kostnaðarmunurinn 5 milljarðar amk. Innanríkisráðherra hefur langhelst talað um þann kost sem hér er nefndur D-leið, sbr. hér að ofan. Kostnaðarmunurinn er þá 3,1 til 3,5 milljarðar króna. En sé sú leið skoðuð sem hér að ofan er nefnd I-leið verður verðmunur um 1 milljarður.

 

Þetta eru þá kostirnir sem við stöndum væntanlega frammi fyrir. Og þetta er þá verðmiðinn sem búið er að setja á þennan skóg. Og rifjast þá upp orðin fleygu Þorgils Oddssonar að dýr myndi Hafliði allur.

 

- Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30