Tenglar

8. apríl 2009 |

Verður að lofa – má ekki svíkja!

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir skrifar:

 

Nýafstaðinn kosningafundur RÚV á Ísafirði var um margt sérkennilegur. Eiginlega var hann hálfgerð ráðgáta - sér í lagi fyrir þá sem vildu fá skýr svör vinstri flokkanna, ríkisstjórnarflokkanna, í Evrópusambandsmálum. Á Guðbjarti Hannessyni, oddvita Samfylkingarinnar, mátti skilja að aðildarviðræður við Evrópusambandið yrðu grundvallarskilyrði í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar. Ekki yrði gengið í eina sæng með stjórnmálaafli sem ekki féllist á slík skilyrði. Á hinn bóginn var Jón Bjarnason, oddviti Vinstri grænna, fastur fyrir og sagði aðildarviðræður ekki samræmast „pólitískri" stefnu flokksins. Hér upphefst ráðgátan.

 

Eru þessir flokkar ekki örugglega búnir að lýsa því yfir að þeir vilji helst vinna saman eftir kosningar? Hvað verður þá um Evrópumálin? Ekki verður annað séð en að Samfylkingin sé að lofa kjósendum því að setja Evrópusambandið á oddinn. Ekki er heldur annað að heyra en að Vinstri grænir lofi kjósendum því að halda þjóðinni víðsfjarri Evrópusambandinu. Hvor þessara flokka ætlar eiginlega að standa við stóru kosningaloforðin?

 

Það er alveg ljóst að hyggi þessir flokkar á áframhaldandi stjórnarsamstarf eftir kosningar þá mun annar flokkurinn þurfa að svíkja kjósendur sína svo um munar. Þessi tvö gjörólíku sjónarmið í þessu mikla hagsmunamáli eru algjörlega ósamrýmanleg. Stjórnarflokkarnir skulda kjósendum svör við því hvernig þeir ætla að afgreiða þessi mál ef til stjórnarmyndunar milli þeirra kemur. Aðildarviðræður við Evrópusambandið varða hagsmuni Íslands um alla framtíð - þar verður ekki tjaldað til einnar nætur.

 

Til að taka af allan vafa um afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum þá liggur hún fyrir í landsfundarályktun. Sem fyrr sjáum við hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess, en ef til þess kemur að aðildarviðræður verða á dagskrá þá á þjóðin að ráða för í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum.

 

Sjálfstæðismenn ætla ekki að narra kjósendur til liðs við sig með innantómum kosningaloforðum um Evrópumál líkt og virðist ætla að verða raunin með annan hvorn stjórnarflokkinn. Það mun hinsvegar ekki koma í ljós fyrr en eftir kosningar hvor flokkurinn ætlar að svíkja kjósendur sína, verði hann í aðstöðu til.

 

- Birna Lárusdóttir, skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi.

 

Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30