Verkefni ríkisstjórnarinnar önnur en ESB
Kristinn H. Gunnarsson skrifar:
Úrslit Alþingiskosninganna eru skýr og ótvíræð. Ríkisstjórnin er kosin til þess að starfa áfram. Hún lagði af stað í vetur sem minnihlutaríkisstjórn og var eini skýri valkosturinn sem kjósendum stóð til boða. Meirihluti kjósenda ákvað að veita henni umboð og gera hana að meirihlutaríkisstjórn. Úrslitin voru ekki tilviljun heldur meðvituð ákvörðun þeirra sem kusu.
Ýmsar ástæður liggja eflaust fyrir þessu vali, en án nokkurs vafa er ríkasta ástæðan sú að kjósendur vildu ekki þá flokka sem voru í ríkisstjórn undanfarinn áratug, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, og kusu flokkana sem eru pólitíska mótvægið við þá. Þetta er í fyrsta skiptið sem gömlu ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki með meirihluta þingmanna á Alþingi. Það er stærsta breytingin sem varð í kosningunum. Annar flokkurinn fær verstu útreið sína og hinn þá næst verstu frá upphafi vega.
Nokkuð hefur borið á þeirri túlkun að kosningarnar sýni fyrst og fremst eindreginn vilja þjóðarinnar til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er mikil oftúlkun. Það eru fleiri áherslur sem verið er að koma til skila í kosningunum en afstaða til ESB, Þótt ekki sé úr því dregið að margir þeirra sem kusu Samfylkinguna hafi það mál mjög á oddinum.
En Vinstri grænir bættu mun meira fylgi við sig en Samfylkingin og eru samt nokkuð eindregnir andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu og tregir til þess að standa að umsókn. Þess vegna eru augljóslega önnur mál sem kjósendur eru ekki síður að leggja áherslu á með því að kjósa ríkisstjórnarflokkana.
Hver eru þau? Í fyrsta lagi heiðarleiki og traust. Um það hefur stjórnmálaumræðan snúist í vetur síðan bankarnir hrundu og formenn beggja stjórnarflokkanna hafa orð á sér fyrir hvort tveggja, heiðarleika og traust. Í öðru lagi vilja kjósendur skynsamar aðgerðir sem verja fjárhag heimilanna . Það þarf í þriðja lagi að lagfæra kvótakerfið í sjávarútvegi og endurreisa landsbyggðina.
Í fjórða lagi er flokkunum treyst til þess að auka réttlæti í þjóðfélaginu. Það þarf að leiðrétta misskiptinguna í tekjum og eignum sem hefur orðið á siðustu árum. Það þarf að samræma skattlagningu á launatekjum og fjármagnstekjum. Það þarf að hætta að hlífa ríkum við því að leggja sitt af mörkum til þess að standa undir velferðarkerfinu. Það er almennt sagt rík krafa um jöfnuð í þjóðfélaginu. Kjósendur vilja jafnaðarstefnuna aftur til öndvegis í íslenskum stjórnmálum.
Verkefnin sem kjósendur hafa falið ríkisstjórninni að sinna eru ærin, önnur en Evrópumálin. Það væru mikil mistök að líta framhjá ríkum vilja kjósenda til grundvallarbreytinga á þjóðfélaginu og einblína á aðild að Evrópusambandinu. Það mál er vissulega mikilvægt og verður átakamál á komandi árum en fólkið var að kjósa ríkisstjórnina en ekki ESB.
- Kristinn H. Gunnarsson.