Tenglar

10. janúar 2009 |

Vestfirðir- land tækifæranna i fiskeldi og skelrækt

Kræklingur í fjöru.
Kræklingur í fjöru.

Jón Örn Pálsson,
verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða:


Í meginatriðum eru aðeins þrjár aðferðir við að skapa atvinnu og verðmæti. Það er í fyrsta lagi með því að nýta náttúruauðlindir eingöngu, í öðru lagi með því að nýta þekkingu eina og sér og í þriðja lagi má skapa störf með því að blanda þessum tveimur þáttum saman. Nýting náttúruauðlinda leiðir til þekkingar á verklagi og skapar reynslu sem er miðlað milli kynslóða án þess að skólabókarlærdómur komi þar nærri. Vestfirðingar hafa lært að lifa af í sínu umhverfi gegnum aldirnar og hefur nýting náttúruauðlinda svæðisins byggst á reynslu á tilteknu verklagi. En þetta dugir ekki lengur.

 

Nú er svo komið að forsendu byggðar er ógnað vegna þess að hefðbundin nýting auðlinda er takmörkuð veulega. Er hugsanlegt að hægt sé að skapa ný störf fyrir þau sem glatast með því að horfa á nýtingu á okkar auðlindum frá nýju og breyttu sjónarhorni? Ef við horfum til okkar helstu auðlindar, þekkingar í sjávarútvegi og tengdum atvinnugreinum, þá hljótum við að spyrja: Hvernig má það vera að nágrannaþjóðum austan hafs og vestan hefur tekist að byggja upp fleiri þúsund störf í fiskeldi og skelrækt í fjörðum og víkum meðan saga fiskeldis hér á landi er raunasaga margra einstaklinga og fyrirtækja? Getur verið að sú þekking sem við höfum aflað okkur í gegnum undirstöðugreinina sjávarútveg dugi nú ekki til? Getur verið að okkur skorti nýja þekkingu? Hvaða upplýsingar höfum við t.d. í dag til að meta aðstæður til fiskeldis á Vestfjörðum? Harla litla.

 

Af hverju er það svo? Getur verið að skilningur stjórnvalda fyrir nauðsynlegum stuðningi við rannsóknir og frumkvöðlastarf í fiskeldi og skelrækt hafi ekki verið fyrir hendi? Fiskeldi er atvinnugrein sem krefst víðtækrar þekkingar á mörgum sviðum s.s. umhverfisskilyrðum, líffræði, tækni-/verkfræði og markaðsfræði svo nokkuð sé nefnt. Vegna skorts á rannsóknum hérlendis hefur reynsla erlendis verið flutt inn gagnrýnislaust og forsendur fjárfestinga því oft rangar, sem skýrir dapra sögu fiskeldis hérlendis. Þetta er þó að breytast.

 

Á allra síðustu árum hafa íslensk stjórnvöld smám saman vaknað og dæmi um það er stofnun AVS rannsóknasjóðsins árið 2002. Tækifæri í skelrækt hefur þó ekki fengið nokkurn skilning framan af og það er ekki fyrr en á síðasta ári, 2007, sem skelrækt fékk alvöru athygli stjórnvalda. Nú liggur fyrir skýrsla starfshóps um nauðsynlega aðkomu ríkisins ef takast á að skapa störf í skelrækt og ennþá er beðið eftir niðurstöðu sérstaks starfshóps um nauðsynlega aðkomu stjórnvalda til eflingar þorskeldi í landinu.

 

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur átt frumkvæði að því að hefja umfangsmiklar rannsóknir í vestfiskum fjörðum til að meta aðstæður fyrir fiskeldi og skelrækt. Afar lítil gögn liggja fyrir um blöndun sjávar, hafstrauma í vestfirskum fjörðum, hvað þá er varðar burðarþol, frumframleiðni og súrefnisstöðu. Þessar upplýsingar eru afar nauðsynlegar fyrir margra hluta sakir. Meðal annars til að vinna stefnumótun og framtíðaruppbyggingu fyrir greinina, til að vinna raunhæfar framleiðslu- og fjárfestingaráætlanir og til að vekja þannig áhuga fjárfesta á greininni. Þess utan er mikilvægt að þekkja burðarþol umhverfisins fyrir lífrænu niðurbroti. Sjálfbært eldi er töfraorðið til framtíðar, ekki bara í öryggi í daglegum rekstri, heldur og ekki síður í markaðs- og sölumálum eldisafurða.

 

Hér á Vestfjörðum er að finna talsvert heitt vatn og volgrur á landi og firðir eru víða skjólgóðir. Sárlega vantar heildarúttekt á þessum auðlindum, með áætlunum um nýtingarmöguleika í fiskeldi og skelrækt. Vestfirðingar þurfa að leggja fram þá kröfu að stjórnvöld leggi fjármuni í slíkar rannsóknir sem nýtast til að vinna heildstæða stefnumótun til næstu 10 ára um uppbyggingu í fiskeldi og skelrækt. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur lýst sig tilbúið til að leiða þessa vinnu. Atvest hefur þegar kynnt þessar hugmyndir fyrir stjórnvöldum, en ekki fengið skýr svör ennþá.

 

Nú þegar hafa t.d. fjögur fyrirtæki sett út tilraunalínur í kræklingarækt og náið samstarf er meðal þessara fyrirtækja í Bláskeljaklasa Vestfjarða. Samstarfsnetið er stutt fjárhagslega af Byggðastofnun og Vaxtarsamningi Vestfjarða. Tilgangur þessa samstarfs er m.a. að miðla verkþekkingu og styrkja rekstrarumhverfi með skipulegu rannsóknarstarfi. Þróunarstarf síðustu tvö ár sýnir að rækta má markaðshæfa skel á 27-32 mánuðum. Vonir standa til að fjárfestar sýnir greininni aukinn áhuga eftir því sem reynsla og þróunarkostnaður skilar sér í aukinni framleiðslu.

 

Þorskeldi er sú grein fiskeldis sem miklar vonir eru bundnar við. Reynslan er að áframeldi á veiddum villtum þorski er orðin veruleg. Nú er 80% af öllum úthlutuðum áframeldiskvóta landsins veiddur af fimm fyrirtækjum á Vestfjörðum, sem staðfestir góð skilyrði til kvíaeldis í vestfirskum fjörðum. Þessi árangur er góður grundvöllur fyrir vöxt í greininni, sem mun byggja á kynbættum þorskseiðum, eins og Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. hefur sýnt fram á. Með nýtingu á jarðvarma til framleiðslu á stórum þorskseiðum mun samkeppnishæfni ekki verða lakari en annarra þjóða sem hafa hlýrri sjó. Afar mikilvægt er að stjórnvöld styrki enn frekar þróunarstarf í greininni, sérstaklega hvað varðar kynbætur og heilbrigði þorskseiða. Stofnað hefur verið samstarfsnet meðal þorskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum, sem nefnist Þorskeldisklasi Vestfjarða. Markmið með því starfi er að gera Vestfirði að leiðandi afli á landsvísu í þróun og framleiðslu á eldisþorski.

 

Löng reynsla er af eldi laxfiska hérlendis og eru skilyrði til bleikjueldis í ferskvatni á landi víða mjög góð á Vestfjörðum. Mikil framleiðsluaukning undanfarin ár hefur þó leitt til þrenginga í sölu á bleikju. Bleikja er seld á 30-40% hærra verði en lax, sem sennilega mun ekki halda ef framleiðslan vex enn frekar. Framtíð bleikjueldis mun því byggja á öflugu markaðstarfi og er of snemmt að segja til um hvernig eftirspurn muni þróast. Ljóst er þó að alltaf er pláss fyrir minni fyrirtæki sem sérhæfa sig í framleiðslu og fullvinnslu fyrir einstaka markaði, eins og dæmi er um hjá Tungusilungi ehf. á Tálknafirði. Með nýtingu á jarðhita og köldu ferskvatni liggja víða tækifæri til að reka ódýrar rekstrareiningar til framleiðslu á bleikju, regnbogasilungi eða laxaseiðum. Útflutningur á laxaseiðum er hafinn frá Íslandi til Noregs að nýju. Velþekkt er að Íslendingar geta framleitt laxaseiði ódýrar en bæði Norðmenn og Færeyingar. Þarna liggja tækifæri sem þarf að skoða nánar. Hækkandi sjávarhiti og þróun á öflugum eldiskvíum hefur einnig breytt forsendum til eldis á laxi og regnboga í sjó.

 

Framan af öldum voru vestfirsku firðirnir nýttir til fiskveiða en nú á tímum líta flestir á þá sem ekkert annað en farartálma. Það er hins vegar margt sem bendir til þess að hérlendis séu skilyrði til fiskeldis hvað best í vestfirsku fjörðunum. Til að nýta þau tækifæri sem þar liggja þurfa stjórnvöld að vinna að heildstæðri stefnumótun í fiskeldi og skelrækt. Slík stefnumótun er afar mikilvæg fyrir rannsóknastofnanir og stuðningskerfi atvinnulífsins, sem geta fylgt eftir slíkri stefnumörkun með öflugu þróunarstarfi og ráðgjöf. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur hafið gagnasöfnun og ýtt af stað þróunarverkefnum sem eru forsenda fyrir raunsæja framþróun í fiskeldi og skelrækt og sækist mjög eftir aðkomu stjórnvalda og styrkingu rannsóknastofnana (Hafró, Matís o.fl.) til að koma að því starfi.

 

Hér er gerð tilraun til að meta hugsanleg atvinnutækifæri í greininni, sem byggir m.a. á því að u.þ.b. 15% af framleiðsluverðmæti sé launakostnaður. Framleiðsluaukning í einstaka tegundum er áætluð að verði ekki frábrugðin því sem gerst hefur hjá nokkrum nágrannaþjóðunum okkar. Miðað við varlegt raunsætt mat má búast við því að um 250 störf skapist við framleiðslu og vinnslu eldisafurða á næstu 10 árum. Gangi þessi varlega áætlun eftir má áætla að útflutningsverðmæti verði um 70 milljón evrur eftir 10 ár eða um 6-9 milljarðar íslenskra króna. Með öflugu þróunarstarfi, stuðningi stjórnvalda og aðkomu sterkra fjárfesta gæti þessi tala hæglega tvöfaldast á sama tíma. Margfeldisáhrifin koma síðan fram í þjónustugreinum og opinberum störfum.

 

Framleiðsluspár fyrir Vestfirði árið 2018 (tonn)

 

Eldistegund

Svartsýn

Raunsæ

Bjartsýn

Bláskel

2.000

4.000

8.000

Þorskur

5.000

12.000

30.000

Bleikja

500

1.000

3.000

Regnbogi/Lax

1.000

3.000

6.000

Fjöldi starfa

 

 

 

Framleiðsla

65

135

250

Fullvinnsla

45

115

260

Samtals störf

110

250

510

Afleidd störf

275

625

1.275

 

Miðað við reynslu annarra þjóða með svipuð umhverfisskilyrði og Vestfirðingar, svo sem við austurströnd Kanada og í Norður-Noregi, má vænta verulegs ávinnings í eldi og ræktun sjávardýra. Kanadamönnum hefur tekist með skipulegu leiðbeiningastarfi og stefnumörkun stjórnvalda að skapa 3000 störf á 15 árum í ræktun á bláskel. Þetta hefur tekist þrátt fyrir að ræktunarsvæðin séu ísilögð yfir vetrartímann og stöku borgarísjaka reki inn á svæðin. Þar var einfaldlega tekin pólitísk ákvörðun um uppbyggingu og byggðist sú ákvörðun á augljósri sérstöðu þessara svæða. Það sama blasir við á Vestfjörðum. Nú þegar er langstærsti hluti þorskeldiskvóta landsins á Vestfjörðum og ekkert svæði á landinu býður upp á betri skilyrði til fiskeldis en Vestfirðir. Pólitísk ákvörðun stjórnvalda á Íslandi ætti því ekki að vera erfið ákvörðun.

 

- Jón Örn Pálsson, verkefnisstjóri Atvest.

 

Greinin birtist á vef Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða (Atvest).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31