Tenglar

21. apríl 2009 |

Við höfum haft rétt fyrir okkur

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson skrifar:

 

Frjálslyndi flokkurinn hefur verið stefnufastur flokkur. Það er víst að þjóðinni hefði farnast mun betur ef stefna Frjálslynda flokksins hefði orðið ofan á síðasta áratuginn.

 

Þar ber margt til en fyrst verður fyrir að Frjálslyndi flokkurinn hefur haft opið bókhald frá upphafi og haft þá stefnu að aðrir flokkar gerðu slíkt hið sama. Í uppljóstrun um styrki Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sér þjóðin að Frjálslyndi flokkurinn hafði rétt fyrir sér.

 

Frjálslyndi flokkurinn hefur beitt sér fyrir réttlátri og árangursríkri fiskveiðistjórn í sjávarútvegi í átt við þá sem Færeyingar hafa notað um áratugaskeið. Núna sér þjóðin fram á að Frjálslyndi flokkurinn hafði rétt fyrir sér hvað það varðar að skuldasöfnun útgerðarinnar var upphaf að matadorhagkerfinu og að stöðugur samdráttur á veiðum er ekki ávísun á meiri afla síðar eins og lofað hefur verið um áratugaskeið.

 

Frjálslyndi flokkurinn hefur beitt sér fyrir dreifðri eignaraðild banka og að sala á eigum og fyrirtækjum hins opinbera færi fram á gagnsæjan máta þar sem jafnræði ríkti.

 

Frjálslyndi flokkurinn hefur beitt sér fyrir ráðdeild og varað við skuldasöfnun þjóðarbúsins eins og hefur mátt lesa um árabil í málefnahandbók flokksins á bls. 10.

 

Frjálslyndi flokkurinn hefur sömuleiðis varað við landbúnaðarkerfinu þar sem framleiðslutengdir styrkir hins opinbera hafa gengið kaupum og sölum. Bændur, og jú þjóðin, hafa séð að Frjálslyndi flokkurinn hefur haft rétt fyrir sér þar sem kerfið hefur hvatt til skuldasöfnunar landbúnaðarins.

 

Frjálslyndi flokkurinn hefur um árabil beitt sér fyrir afnámi verðtryggingar. Ljóst var að lántakendur lentu í verulegum erfiðleikum ef laun hækkuðu ekki samhliða öðrum verðbreytingum. Aukinheldur slævði verðtryggingin ábyrgð bankanna og annarra lánveitenda. Þjóðin hefur núna séð að Frjálslyndi flokkurinn hefur haft lög að mæla.

 

Nú ætti flestum að vera orðið ljóst að Frjálslyndi flokkurinn hefur verið framsýnn og að öll meginstefnumál flokksins hafa byggt á traustum grunni.

 

Því væri þjóðráð fyrir kjósendur að hlýða á þá sem hafa haft rétt fyrir sér um hvaða leiðir væri ráðlegt að fara út úr kreppunni.

 

Kjósendur eru búnir að brenna sig á upphlaupsstjórnmálamönnunum sem hafa látið heilu fréttatímana snúast um björgun ísbjarna í Skagafirði, innihaldslausa Evrópuumræðu í aðdraganda landsfundar, lúxuslán fyrir allt og alla og marklausa landsfundi sem gleyma að marka sér stefnu í t.d. atvinnu- og efnahagsmálum.

 

Frjálslyndi flokkurinn býður raunhæfar lausnir sem krefjast vinnu og auðmýktar gagnvart risavöxnu verkefni sem bíður úrlausnar nýrrar ríkisstjórnar. Verkefnið snýr að því að skaffa 17 þúsund atvinnulausum vinnu og stoppa í risastórt fjárlagagat. Gatið er svo stórt að þótt allir tekjuskattar á fyrirtæki og einstaklinga yrðu tvöfaldaðir næst ekki að fylla í gatið og ef það á að fara niðurskurðarleiðina þarf að skera niður starfsemi sem nemur rekstri fjögurra Landspítala - háskólasjúkrahúsa. Það er því ekki raunsætt að ætla að komast út úr kreppunni með því að skera niður ríkisútgjöld og hækka skatta.

 

Eina færa leiðin er sú að gera sér grein fyrir vandanum og viðurkenna að hann sé þess eðlis að íslensk stjórnvöld þurfi að semja við lánardrottna um afskriftir skulda. Það verður ekki gert með einhverjum gorgeir eða skeytasendingum til útlendinga. Fyrir Íslendinga sem byggja afkomu sína að miklu leyti á miklum útflutningi - og innflutningi - er brýnt að fara leið sem lokar ekki mörkuðum. Það er miklu nær að semja um viðráðanlega greiðslu og leita leiða til þess að auka tekjur samfélagsins. Í fjárlagagatið verður ekki stoppað með því að hér bætist hundrað manns við alltof langa atvinnuleysisskrá á dag. Þessu verður ekki breytt nema með almennum aðgerðum, stöðugleika í gjaldmiðlinum og miklu miklu lægri vöxtum.

 

Þetta vita allir og viðurkenna, en síðasta vaxtalækkun sýnir svo ekki verður um villst að stjórnvöld gera sér hvorki grein fyrir vanda heimila né fyrirtækja í landinu. Nær allar aðrar þjóðir eru komnar með stýrivexti niður í 0-2% en við erum enn með 15,5% stýrivexti!

 

Ekki er raunhæft að skapa störf til langframa úr styrktarsjóðum, bótasjóðum og hálfsdagssjóðum og klára tónlistar- og ráðstefnuhús á vegum Austurhafnar. Óþarft er að gera lítið úr þessum störfum en það er augljóst að mörg þeirra munu byggja alfarið á þeim sjóðum sem styrkja þau, þeim lýkur um leið og viðkomandi sjóðir tæmast.

 

Stefna Frjálslynda flokksins er ekki frumleg en hún er raunhæf. Þjóð sem stendur illa hefur ekki efni á að ýta út af borðinu raunhæfum lausnum. Stefnan gengur út á að þorskveiðar séu auknar um 100.000 tonn, það er talsverð aukning sem mun gefa þjóðarbúinu 40 milljarða í beinum gjaldeyri, gefa nokkur þúsund störf í frumframleiðslu, enn fleiri afleidd störf vítt og breitt um landið og verða alvöruinnspýting í efnahagslífið, svo sem í viðgerðum og þjónustu.

 

Til að búa til þessa fjármuni þarf ekki að stofna til neinna nýrra fjárfestinga, skipin eru fyrir hendi, fiskvinnsluhúsin eru til, hafnirnar eru til staðar það verður bara betri nýting á þeim atvinnutækifærum sem þjóðin lumar á.

 

Frjálslyndi flokkurinn vill sömuleiðis að garðyrkjubændur njóti hagstæðs raforkuverðs á við álverin þannig að hægt sé að framleiða meira á Íslandi og flytja minna inn af t.d. grænmeti.

 

Aukið innstreymi gjaldeyris mun rétta af gengi íslensku krónunnar og rétta hag þeirra sem greiða af erlendum skuldum. Þetta er augljósasta og öruggasta leiðin til að ná vítamínsprautu strax inn í íslenskt efnahagslíf. Einhver kann að segja að þetta sé óvarlegt vegna ástands fiskistofnanna, að of nærri þeim sé gengið, en á það ber að líta að heildarveiðin yrð einungis svipur hjá sjón miðað við það sem hún var áður en hin sérkennilega ráðgjöf íslenskra stjórnvalda hófst sem fólst í að veiða minna núna til að veiða meira seinna. En því miður er fiskurinn ekki skráður og geymdur í skúffum sem við getum dregið út þegar okkur hentar - seinna.

 

Frjálslyndi flokkurinn hefur sömuleiðis lagt áherslu á aukna ferðaþjónustu með aukinni sókn í markaðsstarf.

 

Frjálslyndi flokkurinn vill standa vörð um starfandi iðnfyrirtæki og láta engra tækifæra ófreistað til að framleiða vörur og veita þjónustu sem sparar gjaldeyri og eykur helst gjaldeyri. Það þarf að sýna margvíslegri iðn- og verkþekkingu virðingu. Það þarf að skapa skilyrði og andrúmsloft hvatningar til stofnunar fyrirtækja um frjóar hugmyndir á sem víðtækustu sviði, svo sem myndlistar, tónlistar og annarrar menningar. Það má nefna kvikmyndagerð sem hefur undanfarið jafnt seilst inn á reykvíska pöbba sem reykneskar stríðsslóðir.

 

Hvatinn kemur ekki með aukinni skattlagningu og fleiri hálftómum sjóðum sem þarf að sækja um fé í með því að fylla út flókin eyðublöð þar sem hugmyndir þurfa að fá opinberan miðstýrðan ríkisstimpil. Það þarf að virkja þann kraft og þær hugmyndir sem búa í fólki, gefa því frelsi til athafna.

 

Frjálslyndi flokkurinn er jarðbundinn flokkur, flokkur sem hefur staðið fast á stefnumiðum sínum sem eru sígild og laus við upphlaupskennd stjórnmál sem hafa þótt vænleg til fylgisaukningar og árangurs í fjölmiðlum. Kjósendur vita að hverju þeir ganga þegar þeir exa við F-ið og kjósa Guðjón Arnar Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson til forystu í íslensku samfélagi.

 

- Sigurjón Þórðarson.

 

Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30