Tenglar

8. mars 2009 |

Viljum við byggð í landinu?

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Undanfarna tvo áratugi hefur hallað mjög á hlut norðvestursvæðisins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og þungt fyrir fæti í svo mörgum skilningi. Við sem búum hér á þessu svæði þekkjum vel þann mun sem orðið hefur á yfirbragði sjávarbyggðanna á þessum tíma. Okkur rennur til rifja sá aðstöðumunur sem er á milli þeirra sem búa á suðvesturhorninu og hinna sem búa úti á landi.


Ráðherraræðið í okkar litla landi hefur ekki aðeins grafið undan sjálfstæði Alþingis. Völd og miðstýring ráðuneyta hafa líka grafið undan sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Það er því ekki nóg með að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar - gjáin er líka djúp milli höfuðborgar og landsbyggðar.


Meðal þess sem hefur hamlað vexti og viðgangi byggðanna á Vestfjörðum eru samgöngurnar. Þar þarf að gera stórátak. Þá er ég ekki bara að tala um vegina, sem eru fjarri því að vera viðunandi. Ég er líka að tala um flugvelli og hafnaraðstöðu sem atvinnulífið þarf svo mjög á að halda vegna aðfanga og vöruflutninga.


Háhraðatengingar og önnur fjarskipti þarf líka að stórbæta svo íbúar svæðisins geti vandræðalaust nýtt sér tækni og fjölbreytta menntunarkosti. Að ég tali nú ekki um raforkuflutninga sem vitanlega eru grunnforsenda allrar þjónustu.


Þetta sem nú er nefnt eru sjálfsagðir hlutir í nánast öllum byggðum landsins - nokkuð sem ekkert samfélag getur verið án.


Eins og málum er háttað njóta íbúar norðvestursvæðisins ekki jafnréttis á við íbúa annarra landshluta. Það sem íslensk stjórnvöld verða að gera upp við sig er einfaldlega þetta: Vilja þau byggð í landinu austan Elliðaáa?


Fari svo að Samfylkingin verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn mun það verða hlutskipti flokksins  að koma að endurreisn samfélagsins á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Gleymum því ekki að jafnrétti snýst ekki bara um aðstöðumun einstaklinga heldur líka landshluta og svæða.

 

- Ólína Þorvarðardóttir
gefur kost á sér í 1.-2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi sem fram fer nú um helgina.
 

Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31