Vinnandi mann á þing!
Halldór Leifsson skrifar:
Sjaldan eða aldrei hefur íslenska þjóðin staðið fyrir jafn viðamiklu verkefni og nú. Endurreisa þarf efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar sem og sjálfstraust hennar og baráttuþrek. Jafnframt er nauðsynlegt að hlúa að grunngildum samfélagsins og atvinnuvegunum svo tryggja megi hag heimila landsins. Við þurfum að byggja upp nýtt samfélag þar sem þessi grunngildi eru í hávegum höfð og hlúð er að þeim sem minna mega sín. Til þessara erfiðu verka þurfum við að kalla fólk sem kann til verka, hefur reynslu, býr yfir þekkingu og hæfni til að takast á við næstum óyfirstíganleg verkefni sem okkar bíða.
Sjálfstæðismönnum í Norðvesturkjördæmi gefst tækifæri til að velja í prófkjörinu, sem fram fer nk. laugardag, nýjan oddvita listans. Við valið þarf að leitast við að finna einstakling sem kann til verka og hefur þrek til að takast á við þessi erfiðu verkefni sem bíða, ekki síst í því stóra og margbreytilega kjördæmi sem Norðvesturkjördæmi er. Ásbjörn Óttarsson, skipstjóri og útgerðarmaður frá Rifi, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og sveitarstjórnarmálum. Ásbjörn er maður sem hefur alla ævi unnið við það að búa til verðmæti og staðið fyrir samfélagseflingu. Ásbjörn er öflugur vinnuhestur sem hefur það að markmiði að bæta og efla. Við þurfum á slíkum mönnum að halda því hér er verk að vinna.
Ef við ætlum að byggja upp nýtt þjóðfélag á þeim gamla og góða grunni sem er til staðar, þar sem sem sjávarútvegur og landbúnaður leika lykilhlutverk, þá þurfum við menn sem hafa verksvit og það hefur Ásbjörn Óttarsson.
Tryggjum Ásbirni oddvitasætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna á laugardag.
- Halldór Leifsson.