Tenglar

Reynir Bergsveinsson minningarorð

Reynir Bergsveinsson. mynd Hrafnhildur Reynisdóttir
Reynir Bergsveinsson. mynd Hrafnhildur Reynisdóttir

Reynir var fæddur 30. nóv. 1938 og lést 6. apríl 2018.

Útför hans fór fram frá Gufudalskirkju 21. apríl 2018.

 

Reynir var sonur hjónanna í Gufudal, Bergsveins Finnssonar og Kristínar Sveinsdóttur. Hann hóf búskap í Fremri Gufudal árið 1958 og bjó þar til 1981.

 

Börn hans og Guðlaugar Guðbergsdóttur eru 7, Þröstur Guðberg, Svandís Berglind, Erla Þórdís, Hrafnhildur Erna, Bergsveinn Grétar, Sævar Ingi og Herdís Rósa.

 

Reynir var mikið náttúrubarn og hafði mikla þekkingu og skilning á samspili hinna mörgu þátta í náttúrunni, svo sem veðurfari, gróðri, en ekki síst dýralífi. Hann var slyngur veiðimaður og bar virðingu fyrir bráðinni, líka þegar hann var á refaveiðum, þá var gjarna leikin eins konar „refskák“ sem lauk yfirleitt þannig að refurinn tapaði.

 

Seinni árin fékkst Reynir við minkaveiðar vítt og breitt um landið og náði feikilega góðum árangri í að fækka í stofninum, sem byggðist á afburða þekkingu hans á háttalagi og eðli minksins.

 

Við skulum nú gefa Þresti syni Reynis orðið:

 

-Eftirfarandi var skráð fyrir nokkrum árum svo það ekki gleymdist. Gamli maðurinn í sögunni fékk tækifæri til að lesa það yfir síðastliðið sumar og var bara nokkuð sáttur. Engum datt þá í hug að hann væri að lesa eigin minningargrein. Þarna koma samt fram þeir eðlisþættir hans sem lengst verða í minnum hafðir og ekki að ástæðulausu, en það var takmarkalaus virðing fyrir náttúrunni og öllu lífi, og ekki síður sú mikla þekking á samspili náttúrunnar sem hann viðaði að sér á langri ævi.- 

 

Unnið greni.

Það er Jónsmessa. Ungi maðurinn kembir hlíðina ofan við Flókalund. Þar hefur tófa sést óvenju oft í sumar og líklegt að greni sé í grenndinni. Grenið ofan við Kýrholtið reyndist tómt. Það svosem útilokar ekkert. Hann er í sumar búinn að finna nokkur greni á nýjum stöðum. Líklega afleiðing af gisnari búsetu. Eða menn minna að þvælast fótgangandi eftir að hætt var að reka fé til beitar á veturna. Eða fjölgun tófu. Kannski sitt lítið af hverju. Allavega best að kemba alla kletta og urðir. Hafa öll skilningarvit galopin fyrir minnstu vísbendingum.

 

Hvernig var ekki með Gvendarsteinagrenið í Vattarfirðinum ´79? Þar sást enginn umgangur. Bara greinileg lykt úr gjótu. Og grenið innan við túnið á Hreggstöðum um daginn. Þar náðust 10 yrðlingar og eitthvað hafði þurft að bera í þann hóp. Eini sjáanlegi umgangur var nýlega étið egg tugi metra frá greninu og aflagaður einn Maríustakkur í breiðu framan við gjótu. Gamli maðurinn taldi það nægar vísbendingar til að leggjast á grenið og árangurinn lét ekki á sér standa. Reyndar kom meira í ljós þegar næturdöggin lagðist yfir. Það mátti greina götur upp úr tveimur framræsluskurðum spöl neðar. Þær mynduðu stórt V, þar sem mjói endin benti beint á grenið.

 

Jæja. Ekkert ofan við Flókalund og dagurinn líður. Komin stíf innlögn í sólskininu. Þá er að fara á bílnum inn að Eiðisá. Þarf að leita Helluhlíðina innanfrá, móti golunni. Ekkert tekið með nema byssan, vatnsflaska og samloka í vasann. Eftir smá umhugsun er lopapeysan bundin um mittið þótt hitinn sé hátt í 20 stig. Sólin sest snemma á Helluhlíðinni. Ef eitthvað finnst kemur gamli maðurinn með meiri búnað. Það verða ekki nema mest 300 metrar niður á veg, Hann gengur varlega á gúmmístígvélunum kindagötuna upp með Eiðisánni. Aldrei að vera með óþarfa gauragang á veiðum. Það er ekki langt upp á hjallann þar sem gamli maðurinn hafði vísað honum á grenið undir reynihríslunni. Hann hafði svosem ekki þurft að nota mikið af leiðsagnarhæfileikunum í þetta skiptið: „Fylgja gilinu upp á hjallann, svo út hjallann að urðinni. Þar er gamalt reynitré í urðarkantinum þín megin og grenið er undir trénu“. Það er eins og venjulega. Hefði eins getað verið með ljósmynd af staðnum.

 

Magnað hvernig gamli man alla staðhætti þótt hann hafi ekki komið á grenið í 19 ár. Víða erfiðari staðhættir en þarna og alltaf skal hann geta talið upp smáatriði í landslagi til að vísa veginn. Ungi maðurinn læðist að trénu og nokkrir munnar koma strax í ljós. Þar er ekkert nýlegt að sjá. Skorpnaður skinnræfill af unglambi. Nokkur bein af óvissum uppruna. Allt hálf sokkið í jörð og greinilega búið að vera þarna a.m.k. síðan í fyrra. Kannski lengur. Svona drasl getur haldið sér ótrúlega lengi í þurrum og dimmum gjótum. Hann læðist upp á urðina. Gott að vera með gúmmísóla núna. Það er vísast að fleiri munnar séu ófundnir. Urðin er líka víðáttumikil og lágfóta gæti hafa komið sér fyrir á nýjum stað.

Hann fikrar sig inn á urðina og skoðar undir hvern stein, alltaf erfiðara að leita ókunn greni. Hvergi neitt að sjá og hann bölvar í huganum. Það er stutt í kvöldið og ekkert fundið enn. Framundan virðist að fínkemba alla Helluhlíðina með óvissum árangri. Kannski verður ekkert greni til að liggja á í nótt.

 

Vindinn leggur af honum í átt að reynitrénu en það á ekki að gera neitt til. Hann er búinn að leita þar. Eða hvað ? Upp úr grjótinu heyrist ofurveikt: „HúúÚ“ Hann flýtir sér niður af urðinni, sömu leið og hann kom, án þess að vera með læti. Yrðlingamamma er að gefa hættumerki. Þegar hann fer yfir grenið heyrist það aftur og greinilega. Hann gengur þessa 200 metra inn undir gilið áður en hann dregur upp talstöðina. Ekki gera óþarfa hljóð nálægt greninu. Hann nær sambandi við gamla manninn og tjáir honum stöðu mála. Hann mun koma von bráðar með nýja riffilinn og meiri búnað. Fer svo til baka og finnur stað í löngu haglabyssufæri við grenið. Stór steinn til að styðja við bakið og annar fyrir framan svo hann verði ekki eins áberandi. Verst að hvergi er hægt að hafa yfirsýn um allt nágrennið nema fara út fyrir haglabyssufærið.

 

Svo hefst biðin. Hún verður örugglega löng. Klukkan er 3 síðdegis. Að öllu eðlilegu kæmi læðan út eftir 3, frekar þó 6 tíma. Spurning hve mikið bætist við fyrst hún varð vör við hann. Kannski kemur steggurinn heim áður. Litlar líkur til að það hafi verið hann sem var heima. Það sæist meiri umgangur ef yrðlingarnir væru byrjaðir að stálpast, svo uppeldið er enn læðunnar. Það er bara að fylgjast með umhverfinu. Hvað sem gerist næst verður það varla heima á greninu. Það er svosem ekki amalegt að sitja hér þótt sólin sé sest á Helluhlíð.

 

Til vinstri sést inn á Vatnsdalsvatnið og Lambagilseyrar þar sem er fallegasta birki á Vestfjörðum. Framundan er gamli vegurinn upp í Þingmannaheiðina. Gott að hann er ekki í notkun lengur. 28 km. langur og að stórum hluta á reginfjöllum. 50 metrar milli varða á kafla. Það segir sitt um veðráttuna. Utar er Hörgsnesið með klettum sem eru götóttir eins og ostur. Líklega för eftir stór tré sem brunnu inni í hálfstorknuðu hrauninu. Pláss fyrir nokkur tófugreni þar.

 

Til hafsins sjást óteljandi eyjar á Breiðafirði, þótt margar séu í hvarfi. Kvöldsólin glampar á húsin í Flatey. Kirkjan efst og mest áberandi. Í landinu til hægri gnæfir Arnórsstaðahyrnan yfir bæinn á Brjánslæk. Fallegt bæjarstæði þar. Um veginn fyrir fjörðinn er töluverð umferð í báðar áttir. Landinn er að fara í sumarfrí. Hvergi ref að sjá og friður á fuglunum. Þegar líður að kvöldi heyrist yrðlingavæl úr greninu. Þagnar strax aftur. Mamma hætti við að fara út.

 

Loks birtist á veginum ljósleit Lada með lítið hjólhýsi. Gamli er mættur. Tekur sér góðan tíma til að ferðbúast. Pakkar öllu í stórt ullarteppi sem hann hnýtir saman á hornunum. Það er hvergi hægt að fá bakpoka sem ekki skrjáfar í. Eða vefja utan um sig í næturkuldanum. Ungi maðurinn gengur spöl á móti honum. Það er ekki óhætt að tala saman í haglabyssufæri við grenið í svona kyrru veðri. Þeir ákveða að gamli verði með riffilinn þar sem betur sést yfir. Þó þannig að þeir geti haft nauðsynleg samskipti fljótt og hljóðlega.

 

Sólin hverfur af norðurströnd Breiðafjarðar. Seinast af Brjánslæk um ellefuleitið. Löngu síðar af eyjunum. Styttsta nótt ársins hellist yfir. Fuglarnir sofna og ekkert raskar ró þeirra. Öðru hverju væla yrðlingarnir, en alltaf stutt í einu. Alltaf guggnar læðan á að koma út. Úti í næturkyrrðinni gerist ekkert. Og þó. Um tvöleitið ber krumma við himin á klettabrúninni fyrir ofan og innan grenið. Hann er glettilega líkur tófu sem stendur með framfætur upp á steini og teygir upp hausinn meðan hún horfir yfir Vatnsfjörðinn. Mennirnir bregða upp sjónaukum. Þetta er örugglega krummi. Hann hverfur fljótlega. Svo gerist ekkert í tvo tíma. Erfitt að halda sér vakandi. Sólskinið er tekið að fikra sig niður úr fjallatoppunum.

 

Um þrjúleitið skin sólin aftur á Brjánslæk. Merkilega langur sólargangur svona sunnanundir fjöllum. Örugglega skörð á réttum stöðum í hálendinu. Ekki furða að þar yrði stórbýli. Ef vinnufólkinu var haldið að verki frá sólarupprás til sólarlags, þá náðust 20 tímar. Kannski svigrúm til að sýna góðvild og gefa eftir 2 tvo tíma í hvorn enda. Húsbændur sem sýna slíka eftirgjöf hafa örugglega getað valið úr fólki.

 

Allt í einu er krummi kominn aftur á sama stað. Frekar ólíklegt. Ungi maðurinn vaktar hann lengi í kíkinum. Hvort eð er ekkert annað að horfa á. Krummi hverfur stundum og kemur svo fram á næstu snös. Mikið finnst honum gaman að horfa á þá. Af hverju kemur hann ekki fljúgandi? Allt í einu sést það sem búist var við. Krummi er með skott. Ungi maðurinn læðist til þess gamla og segir honum tíðindin. Nú þarf að sýna hvað riffillinn getur. Verst hvað færið er langt, a.m.k. 300 metrar. Það er vandlega miðað. Alveg logn og fari kúlan í réttri hæð mun hún örugglega fella það sem fyrir verður.

 

Skotið bergmálar um allan fjörð og ekkert er lengur að sjá á brúninni. Gamli maðurinn arkar af stað að kanna árangurinn. Þarf að fara fyrst í hina áttina til að finna skarð í klettana. Svo drjúgan spöl inn brúnina. Mjaðmarliðirnir ónýtir og ekki farið hratt yfir. Eftir klukkutíma er hann kominn til baka með snyrtilega skotinn ref. Sýnir unga manninum hræið en ánægjan er blendin: „Mikið svakaleg verkfæri eru þetta orðin. Kvikindisgreyin eiga bara engan séns lengur“.

 

Jæja. Refurinn fallinn, en það er líka búið að liggja í 14 tíma á greninu. Klukkan er orðin 5. Um níuleitið er öruggt að læðan kemur ekki út þennan daginn. Gamli maðurinn röltir til hvílu í hjólhýsið niður á vegi. Ungi maðurinn sefur í lynginu þar sem hann hafði setið síðustu 18 tímana. Skammt frá honum suða flugurnar á hræinu af refnum. Hann treystir á að vakna við yrðlingana ef svo ólíklega vilji til að læðan fari á stjá. Allavega ætti hún að orga hraustlega komist hún það langt að finna lyktina af rebba sínum og manninum hlið við hlið. Enginn sefur af sér organdi tófu í haglabyssufæri.

 

Ekkert ber til tíðinda yfir daginn, en sterkt sólskin og fiskiflugukórinn trufla svefninn. Um kvöldmatarleitið kemur gamli maðurinn aftur. Útsofinn og með nýtt aðgerðaplan: „Þessi læða er þannig skapi farin að hún kemur ekki út meðan við erum svona nálægt. Það verður bara að hafa það þótt hún komist óséð í skóginn. Við verðum bara að vera vissir um að missa hana ekki inn aftur. Þú ferð út á hlíðina alveg uppundir klettana. Ég fer inn á hlíðina og fram á hjallabrúnina. Þá sérð þú yfir hjallann og ég skóginn undir honum“. 

 

Þeir taka sér nýja stöðu um áttaleitið. Enn hefst tíðindalaus bið hjá unga manninum, en hjá þeim gamla bar sitthvað til tíðinda, enda kunni hann betur að túlka það sem fyrir augun bar. Um eittleitið stendur hann upp og bendir unga manninum að koma. Þegar þeir hittast hvíslar hann: „Jæja; Hún er farin út. Hún fór út klukkan tíu, en ég var ekki alveg viss fyrr en núna. Klukkan tíu var skógarþrösturinn með pirring þar sem urðin opnast niður í skóginn. Þá var hún að læðast út. Stuttu síðar var hann með pirring utan í klettinum sem ég sat á. Það gat verið út af mér, en var af því tófan læddist með klettinum. Stundu seinna flaug hrossagaukur með látum upp úr skóginum fyrir neðan. Þá var hún á leiðinni niður í fjöru. Svo núna rétt áðan var tvílemban þarna í rjóðrinu niðri við veginn að horfa út í runnana og stappaði niður löppinni. Svo kallaði hún á lömbin með ægilegt stress í röddinni. Hún var að horfast í augu við tófuna okkar og ekkert annað. Nú skulum við fara og setjast ofan á grenið og snúa bökum saman svo hún sleppi ekki óséð inn“. Ungi maðurinn mótmælir þessu plani kurteislega. Bendir á þá staðreynd að ef ályktanir þess gamla séu rangar, þá sé umrædd læða þannig skapi farin að hún muni ekki koma út næstu vikuna. Sá gamli er alveg öruggur: „Dýrin í skóginum segja aldrei ósatt“.


 Hann talar víst af reynslu þar. Bara nokkrir dagar síðan þeir voru við bílana á vegarenda undir Eitraðahnúk hjá Haga. Þá heyrðist í stelk í fjarska. Gamli var ekki lengi að heyra hvað sá hafði að segja og niðurstaðan var afdráttalaus: „Drífum okkur! Það er tófa í fitinni fyrir innan Tungumúla!“. Ekki vafðist fyrir honum að skilja stelkinn þótt vegalengdin væri yfir 1,5 km. Tófan í fitinni var fallin hálftíma síðar. Ungi maðurinn veit af reynslu að best er að leyfa gamla að ráða og planið er framkvæmt.

 

Þegar þeir hafa setið tvo tíma ofan á greninu kemur læðan heim með mat. Það verður hennar hinsta för. Stuttu seinna er búið að nota kallhljóð foreldranna til að lokka alla yrðlingana út úr greninu og setja þá í poka. Þeir munu ekki þurfa að deyja úr hungri. Þrátt fyrir allt tók ekki nema 1 ½ sólarhring að vinna grenið. Að því loknu kanna mennirnir allar aðstæður og leggja sér á minni til seinni tíma. Í ljós koma „leyningöng“ úr greninu niður í skóginn 50 metrum neðar. Ungi maðurinn bendir á að þar þurfi bara lítið að hreyfa við steinum til að eyðileggja göngin svo tófan þurfi að koma upp á yfirborðið. Þá verði léttara að liggja á þessu greni, ef munnarnir dreifist ekki á 50 metra svæði. Afstaða gamla mannnsins er afdráttalaus: „Kemur ekki til mála, það verður að gefa þeim einhver tækifæri þegar við erum komnir með svona ógurlegar græjur“.

 

Þetta var 1998. Grenið undir reynihríslunni er óskemmt enn.

 

 

 

Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31