Tenglar

Reynir Halldórsson minningarorð

Reynir Halldórsson
Reynir Halldórsson

Reynir Halldórsson

f.10.01.1926-d.26.12.2017

 

Minningarorð;

 

Reynir Halldórsson var fæddur í Vestmannaeyjum 10. Janúar 1926.

 

Foreldrar hans voru Ingibjörg María Björnsdóttir, frá Hólum í Reykhólasveit og Halldór Loftsson frá Gríshóli í Helgafellssveit. Þau Ingibjörg María og Halldór eignuðust þrú börn sem nú eru öll látin: elstur var Garðar, þá kom Reynir og yngst þeirra systkina var Magnea Guðrún. Garðar, bróðir Reynis, lést 20. október s.l.  Hann var bóndi á Hríshóli  og stofnaði nýbýlið Hríshól II og varð síðar skrifstofumaður á Akranesi. Magnea Guðrún lést 18. Júní 2011. Hún var húsmóðir og bóndi á Skorrastað í Norðfirði.

 

Foreldrar Reynis skildu þegar Reynir var á öðru ári, en þá flutti móðir hans með þá bræður frá Vestmannaeyjum að Hríshóli. Á Hríshóli gerðist Ingibjörg María  ráðskona hjá Birni Ágústi bróður sínum. Þar fæddist Magnea Guðrún, yngsta barn hennar. Þau systkinin, Garðar, Reynir og Magnea Guðrún, ólust upp á Hríshóli, utan einn vetur þegar þau dvöldu með móður sinni á Eyri við Mjóafjörð. þar bjó annar bróðir Ingibjargar Maríu, Finnbogi.

Á Hríshóli ól Reynir manninn alla tíð þar til hann fluttist í Búðardal árið 2001.

 

Sumarið 1959 kom Gísela Halldórsdóttir sem kaupakona að Hríshóli I. Gísela var ættuð frá Þýskalandi, en foreldrar hennar voru Reinhard og Wanda Framme. Þau Reynir og Gísela felldu hugi saman og fjórum árum síðar gengu þau í hjónaband , þann10. mars 1963. Þau eignuðust tvö börn, þau Reinhard og Ingibjörgu;

 

Reinhard er fæddur 6. maí 1960. Eiginkona hans er María Kristjánsdóttir og eiga þau saman tvö börn, Reynir Inga, unnusta hans er Sirilin Keskla, og Hafþór, unnusta Chanee Thianthong. Fóstursonur Reinhards og sonur Maríu er Haraldur. Eiginkona hans er Berglind Júlíusdóttir og eiga þau þrjú börn.

 

Ingibjörg er fædd 8. maí 1963. Hún var gift Þorsteini Einarssyni, þau skildu, en þau eiga saman tvö börn, þau Einar og Guðrúnu Maríu.

 

Reynir vann að búi móðurbróður sins allt þar til þau hjónin keyptu jörðina Hríshól I, árið 1962.  Eftir að bróðir hans hætti búskap á Hríshóli II, árið 1968,  keyptu þau hjónin einnig þá jörð og sameinuðu báðar í eina að nýju.

Stöðugt var unnið að því að auka ræktun og búa þannig í haginn fyrir stækkun búsins. Með sameiningu jarðanna sköpuðust ný tækifæri og 1977 voru byggð upp 500 kinda fjárhús ásamt votheysflatgryfju. Jafnframt því var kúabúskapur lagður af. Árið 1990 seldu þau Reynir og Gísela jörðina til Þráins Hjálmarssonar og Málfríðar Vilbergsdóttur en bjuggu áfram í íbuðarhúsinu. Vann Reynir við búrekstur hjá nýjum eigendum allt þar til hann og Gísela fluttu í Búðardal árið 2001. Með búskapnum sinnti Reynir íhlaupavinnu utan bús, s.s. við sauðfjárslátrun hjá Kaupfélagi Króksfjarðar. Þá sá hann um viðhald hluta mæðiveikisgirðingar sem lág úr Berufirði í Steingrímsfjörð um nokkurra ára skeið. Krafta sína helgaði hann þó fyrst og fremst uppbyggingu og umsjón búsins á Hríshóli og skilaði þar góðu verki til þeirra sem tóku við keflinu. Í Búðardal átti hann hæglát efri ár en hugurin var þó altaf tengdur Hríshóli sem hann hafði helgað krafta sína svo lengi.

 

Reynir var mikið snyrtimenni og mikill nákvæmnismaður. Vandað var til allra verka og girðingar voru honum sérstakt áhugamál. Það var ekki nóg að þær væru góðar og skepnuheldar, heldur þurftu þær líka að líta vel úr. Já þær þurftu að  vera þráðbeinar og teinréttar eins og eftir reglustiku.

Eftir að þau Reynir og Gísela hættu búskap ferðuðust þau hjónin um landið, þá helst um afdali, þar sem Reynir tók út allar girðingar sem ekið var framhjá. Gísela átti það hins vegar til að banka upp á á bæjum þar sem henni fannst ekki nógu snyrtilegt og benda ábúendum á það.

 

En þau hjónin ferðuðust einnig til útlanda. Þau fóru m.a. til Þýskalands, heimaslóðir Gíselu. Einnig fóru þau til Póllands, en þar hafði fjölskylda hennar átt sumarhús.  En Reynir talaði ekki þýsku og því upplifði hann stundum að hann stæði eilítið fyrir utan allt. Átti til að segja þegar heim var komið: Það er ekkert að sjá þarna, bara tré !

 

Reynir var alla tíð tengdastur sínu nærumhverfi og var lítið að velta fyrir sér því sem var þar fyrir utan. Hann fylgdist vel með öllu því sem var að gerast í sveitinni og greip í kíkinn til að geta fylgst með: Kalli á kambi er byrjaður að slá! Börnin ólust upp við það að kíkirinn stóð alltaf í eldhúsglugganum. Hann hafði stóru hlutverki að gegna.

 

Reynir var stoltur af börnunum sínum en ráðskaðist aldrei með þau eða sagði þeim fyrir verkum. Ef eitthvað tókst vel til var hann spar á hólið. Ein setning lifir þó í minningu lítils drengs þegar pabbi sagði við hann “Sprondi minn”, sem þýddi spræki litli bóndi. Þá var Reynir verulega stoltur af syni sínum og taldi hann efnilegan til verka.

Reynir hafði það ekki í sér að vera verkstjóri en hafði mikinn metnað fyrir öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og þannig lærðu börnin af honum. Þannig var hann þeim dýrmæt fyrirmynd.

 

Það er margs að minnast frá æskuárum úr sveitinni heima. Það verður lengi í minnum haft þegar Reynir ákvað að kaupa sér nýja dráttarvél. Hún var ekki af lakara taginu, Massey Ferguson, og fannst  einhverjum nágrannanum vel í splæst og spurði Reyni af hverju hann hefði ekki frekar keypt Zetor dráttarvél.  “Þú hefðir getað fengið tvær fyrir þessa einu”. Svarið sem hann fékk var stutt og laggott : En ég þurfti bara eina!

 

Það var alltaf allt í röð og reglu á Hríshóli, aldrei rusl eða drasl neins staðar. Út í fjárhúsi var svo snyrtilegt að þar mátti leggja niður ungabarn ef því var að skipta. Úr loftinu í hlöðunni héngu baggaböndin í röðum niður úr bitunum, hver röð með sínum lit, öll jafn löng. Þetta var inngróin snyrtimennska.

 

 

Fjölskyldan eignaðist ekki bíl fyrr en eftir 1980, fram að þeim tíma var ferðast um á dráttarvélinni. Á haustin var farið fram í fjall í ber með nesti og teppi og börnin sátu  þá á kerru sem tengd var aftan í dráttarvélina. Það eru góðar minningar. Og úr sveitinni á elsta barnabarnið, Haddi, einnig góðar minningar frá því að girða með afa á Hríshóli. Já afi talaði alltaf við mig eins og fullorðinn!

 

Sumarið 2008, sjö árum eftir að þau Gísela og Reynir fluttu í Búðardal, veiktist Gísela. þann 16. september var hún flutt á sjúkrahúsið á Akranesi, þar sem hún lést daginn eftir. Áður hafði hún verið búin að laga fullan pott af kjötsúpu og hafði mestar áhyggjur af því að nú myndi Reyni takast að klúðra súpunni: segðu nú pabba þínum að gera ekki kjötið ónýtt!  Með þau skilaboð hringdi Inga heim í pabba sinn. Svarið sem hún fékk var: Auðvitað geri ég ekki kjötið ónýtt!

Þau Gísela og Reynir virkuðu mjög vel sem heild og voru samstíga í því að allt ætti að vera í röð og reglu. Gísella var verkstjórinn og sú sem tók ákvarðanirnar.

En eftir fráfall Gíselu tileinkaði Reynir sér einveruna vel. Hann sá um sig sjálfur, þvoði þvott og þreif allt í kringum sig. Hann hafði þurft að gera það eftir að móðir hans dó, þann tíma sem hann var einn áður en Gisela kom inn í líf hans.

 

Reynir var hógvær maður og hans einkunnarorð voru þau að vera ekki með vesen. Síðasta vor var sótt um hvíldarinnlögn fyrir hann á Silfurtúni, en honum bauðst hún ekki fyrr en liðið var á sumar og hann mun hressari. Engu að síður þáði hann innlögninga með þeim orðum: ég ætla ekki að gera neitt vesen.  Hann fór því heim í íbúð og lagði sig þar á daginn og þvoði þvotta. Á silfurtúni borðaði hann og drakk kaffi og tók þátt í félagslífi og glaður var hann þegar hvíldarinnlögninni lauk. 

  

 Í október greindist Reynir með æxli í lungum og maga sem lagði hann að velli á styttri tíma en gert var ráð fyrir. Hann vissi í hvað stefndi og tók á móti örlögum sínum af mikilli auðmýkt og hógværð. Reynir lést á annan dag jóla, 26 desember s.l. á Dvalarheimilinu Silfurtúni. Hann hefði orðið 92 ára í næstu viku, þann 10 janúar. Fram að því hafði hann átt gott líf, var alltaf hraustur og sjálfbjarga.

 

Fjölskyldan vill koma á framfæri þakklæti til starfssfólks og vistamanna Silfurtúns fyrir vináttu, alúð og góða umönnun þann tíma sem Reynir dvaldi þar. Einnig vill fjölskyldan koma á framfæri þakklæti til Þórðar læknis og Þórunnar fyrir allan þann stuðning sem þau veittu honum undir það síðasta.

 

Reynir var alla tíð stálminnugur, allt fram undir það síðasta. Hann mundi öll bílnúmer og fylgdist jafnvel með því úr eldhúsglugganum sínum hverjir voru á vakt á Silfurtúni. Hann þekkti bílnúmerin. Sömuleiðis var hann minnugur á nöfn og það pirraði hann að  finna að minnið var farið að svíkja hann undir það síðasta.

 

Árin mín í Dölunum hef ég notið þess að horfa á Reyni út um eldhúsgluggann minn þar sem hann var alltaf eitthvað að bardúsa, þrífa bílinn sinn, sópa stéttina, þvo gluggana, moka snjó, bæta og fegra umhverfið með einhverjum hætti. Og ekki taldi hann það eftir sér að fara yfir til nágrannans ef það var eitthvað sem hann gat aðstoðað hann með. Hjálpsemi Reynis var öllum kunn og hann hafði lag á því að gera allt fallegra og betra í kringum sig.

 

Það eru margir sem minnast Reynis með hlýju í hjarta nú þegar við horfum á eftir honum í gegnum sjóndeildarhringinn þar sem hann leggur upp í ferð sína inn í lendur fegurðar og fullkomleika.

 

 

Útför Reynis fór fram í Reykhólakirkju 5. janúar 2018.

 

     Sr. Anna Eiríksdóttir sóknarprestur Búðardal

Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30