Tenglar

Signý Magnfríður Jónsdóttir minningarorð

Signý M. Jónsdóttir
Signý M. Jónsdóttir

Signý Magnfríður Jónsdóttir - Magga eins og hún var alltaf kölluð - var fædd 19. júlí 1962 og lést 10.nóvember 2017.

 

Hún var dóttir hjónanna Þuríðar Sumarliðadóttur sem lést 12.október s.l. og Jóns Odds Friðrikssonar. Magga átti tvo bræður, þá Friðrik Daníel, maki er Hugrún Einarsdóttir og Bjarki Stefán, maki er Bára Borg Smáradóttir.

 

Maki Möggu var Bergsveinn Reynisson og börn þeirra eru Jón Ingiberg fæddur 28.maí 1988 og Guðlaug Guðmunda Ingibjörg fædd 22.septerber 1991.

 

Barnabörn þeirra Möggu og Begga eru tvö, þau Leo Ingiberg fjögra ára og Móðeiður Erna tveggja ára.

 

Magga var fædd og uppalin á Gróustöðum og bjó þar allt sitt líf.

 

Hún var ábyrgðarfullt, næmt, jarðbundið og skapandi barn og passaði það vel að enginn fór upp fyrir eða niður fyrir girðingu nema með leyfi. Álfar og huldufólk og umhyggja fyrir náttúrunni voru hluti af lífinu og þurfti til dæmis að kenna Sumarliða frænda, sem var hennar besti leikfélagi öll sumur, að hætta að hafa svona mikin hávaða í kringum stóra steina og klappir, en hann vissi hreinlega ekki að hann væri að trufla þá sem þar bjuggu.

 

Magga var mjög ung þegar hún lærði að lesa en bókum og lestri var haldið að öllum börnum á Gróustöðum. Þau Sumarliði sátu gjarnan uppi á hálofti á sumrin og þurfti nánast að henda þeim út þegar sól var, því lesturinn var svo spennandi. Þau spændu upp allt sem þau komust í...allar bækur og tímarit eins og Vikuna, Húsfreyjuna og auðvitað var Basil fursti í miklu uppáhaldi.

 

Sumarliði minnist æskuára þeirra Möggu sem endalausra gæða, að þannig sé Gróustöðum og Gróustaðafólki rétt lýst.

 

Þetta örvandi uppeldi varð til þess að Magga fór snemma sínar eigin leiðir og byrjaði ung að spreyta sig á eigin sköpun og skrifaði dagbækur frá unglingsaldri. Í grunnskóla var hún strax farin að klæðast fötum sem hún hafði saumað eða prjónað sjálf og var ekkert að láta aðra segja sér hvernig hún ætti að vera klædd.

 

Magga var mikil handavinnukona og byrjaði það mjög snemma. Hún átti minningar af sér mjög ungri sitjandi hjá afa sínum að tálga og að vinna með áhöld sem börnum í dag væri ekki treyst fyrir. Kennarinn, Sumarliði afi hennar, var ekki af lakara taginu og leyfði henni óhindrað að prófa sig áfram með ýmiss konar efniðvið og hvatti hana til að láta ímyndunaraflið koma fram í verkum hennar. Og þar var margt að finna enda þekkti Magga öll blóm, stjörnur og stjörnumerki, steina og fugla, en uppáhalds fuglinn hennar var Krían.

 

Magga kláraði grunnskóla, fyrst í Vogalandi og svo á Reykhólum, og lét það duga, þrátt fyrir að eiga mjög auðvelt með að læra en handverkið var það sem heillaði, og bústörfin.

 

Þetta þótti Möggu dásamlegt allt sitt líf. Hún hafði fengið meira af verksviti í vöggugjöf en flestir. Og að sjálfsögðu prjónaði hún allt sem hægt var að prjóna þegar hennar eigin fjölskylda varð til og hennar mesti fjársjóður, þau Jón og Gulla. Og þegar óþekktarormarnir hennar stækkuðu og frítíminn fór að verða meiri jukust afköstin í handavinnunni til mikilla muna og vinir og vandamenn fengu að njóta afrakstursins.

 

Í hennar augum voru jólagjafir ekki eitthvað sem var keypt út í búð. Það skipti ekki máli hvort hún væri að mála, vinna í leður, sauma, prjóna eða í skartgripasmíði, hún var jafnflink í þessu öllu saman.

 

Síðasta handverk hennar var gert seinni partinn í sumar, þegar hún var síðast heima. Það voru auðvitað jólagjafir fyrir barnabörnin, þau Leo og Móu. Þau geta klæðst hlýjum og fallegum ullarsokkum í vetur, síðustu kveðjunni frá ömmu Möggu.

 

Þann 5.september 1981 fór Magga á ball með Upplyftingu í Sævangi. Hún fór með Hugrúnu og Sigurvin á Gilsfjarðarbrekku á Landrover yfir Steinadalsheiði. Það snjóaði talsvert þetta kvöld, svo það var talsverð hálka á heimleiðinni og þau voru lengi yfir. En á þetta sama ball fór líka ungur maður vestan úr Gufudal, á gömlum Bronco, með Einar frænda sinn sem bílstjóra. Þau urðu ekki samferða heim eftir þetta ball, en eftir þetta var ekki aftur snúið og þetta ævintýri varð að 36 ára hjónabandi Möggu og Begga. En á sjálfan brúðkaupsdaginn 26. Desember árið 1988, var sama vonskuveðrið og hefur geysað hér í vikunni og sat presturinn pikkfastur hér í veghliðinu og komst hvorki lönd né strönd.

 

Magga byrjaði að vinna í sláturhúsinu í Króksfjarðarnesi á haustin frá 16 ára aldri og afrekaði það meðal annars að kenna manni sínum að þvo lambskrokka haustið sem þau byrjuðu saman. Var þar aftur verksvitið og það hversu auðvelt hún átti með að kenna öðrum sem heillaði við hana. Hvort sem það var þetta eða burðarhjálp í sauðburði, en hún var mjög lagin við hana, - nutu nágrannar góðs af því - eða það að kenna sjálfboðaliðum að prjóna og sauma. Hún meira að segja gat kennt Begga að prjóna og þá var víst mikið sagt.

 

Seinni árin vann Magga á skrifstofunni hjá Kaupfélaginu þangað til það hætti rekstri árið 2007 en hún hafði svo sem unnið þar með hléum frá unglingsaldri. Þegar kaupfélagið hætti starfsemi lenti það talsvert á hennar herðum að pakka því sem þvi tilheyrði saman og því má með sanni segja að hún hafi verið síðasti starfandi kaupfélagsstjóri Kaupfélags Króksfjarðar.

 

Hjartað sló þó sem sauðfjárbóndi og í listsköpun. Árið 1997 hófs forystufjárrækt og Magga varði heilmiklum tíma með forystufénu, að persónuleikagreina það og koma því vel á legg. Það hefur nú dreifst frá Borgarfirði eystri til Bolungarvíkur og frá Heklurótum til Hornstranda og alltaf kunni Magga allar ættartölur. Að mörgu leyti var hún frumkvöðull með Örninn sinn, kræklinginn og handverkið. Hún byrjaði útflutning á skeljum á undan Begga, þegar hún fór að mála inn í þær og selja í handverkinu.

 

Hún hugsaði í lausnum. Sum eyðublöð sem sauðfjárbændur fylla út í Gæðastýringu í dag eru komin frá Möggu á Gróustöðum, sem hún gerði fyrir búið sitt þegar hún var ekki nógu ánægð með eyðublöðin frá MAST. Þeir fengu svo leyfi frá henni til að gera að sínum.

 

Ein af uppáhalds bókaseríunum hennar á seinni árum voru Discworld bækurnar eftir Terry Pratchett. Úr þeim var ein uppáhalds tilvitnunin hennar:

 

“Hver sá guð sem ekki gerir sér grein fyrir að sauðburður gengur fyrir öllu öðru, er ekki guð sem er þess virði að tilbiðja”

 

Magga var mikill vinur vina sinna. Hún vissi fátt skemmtilegra en að fara á sveitaböll með góðri danshljómsveit og ekki óalgengt að Beggi og Magga væru ein eftir á dansgólfinu ásamt unglingunum. Margir drukknir og ódrukknir unglingar áttu við hana trúnaðarsamtöl á þessum tímum og gaf hún þeim góð ráð sem hjálpuðu til að feta sig áfram á lífsins braut.

 

Gegnum tíðina hefur talsvert af unglingum dvalið hjá þeim hjónum. Magga mat þau mjög mikils og þótti vænt um þau öll og það var gagnkvæmt því mörgum þótti hún vera þeim sem önnur móðir. Árið 2014 bættist svo enn meir í vinafjölskylduna því fyrstu sjálfboðaliðarnir sem þau hjónin fengu til sín komu um haustið, tveir franskir strákar sem voru hjá þeim samfleytt í hálft ár. Þetta var upphafið að miklum ævintýrum, þar sem fólk hvaðanæva að úr heiminum kom til þess að hjálpa til við bústörfin og kræklinginn. Það var ómetanlegt fyrir þau að hitta fyrir konu eins og Möggu, sem veitti þeim nýja sýn á lífið og tilveruna.

 

Hún kenndi þeim nýtni og virðingu fyrir umhverfinu, til dæmis að það væri nóg að setja einn fjórða af uppgefnum sápuskammti í uppþvottavélina, diskarnir yrðu samt hreinir. Hún kenndi þeim að henda engu heldur finna önnur not fyrir það, þótt það væri ekki nema að gefa hundinum að éta. Hún kenndi langflestum að prjóna, burtséð frá kyni eða aldri. Sumir lærðu að sauma sér víkingakyrtla og fóru með henni á víkingahátíð, aðrir lærðu hluti sem kannski koma ekki að miklu gagni úti í hinum stóra heimi, eins og sauðburðarhjálp og að gera rabbabarasultu. Þau elskuðu fiskisúpuna og brúnuðu kartöflurnar hennar.

 

Hún er í dag syrgð í öllum heimsálfum, enda á annað hundrað manns sem hafa lagt leið sína til þeirra hjóna og var Magga þeim yndislegur vinur og fyrirmynd í svo mörgu og svo ótrúlega næm á líðan fólks og ávallt tilbúin til að aðstoða.

 

Víkingar og víkingatímabilið voru henni líka kært áhugamál. En árið 2000 fór Magga á sína fyrstu víkingahátíð. Þar kynnist hún víkingunum og fann útrás fyrir sköpun í handverki, og gat farið sínar eigin leiðir í því. Þá kviknaði fyrir alvöru áhuginn á því að vinna í leður. Hún aflaði sér mikillar þekkingar á klæðnaði og klæðagerð þess tíma. Hún saumaði allan víkingaklæðnað á sig og Gullu, ásamt því að hjálpa sjálfboðaliðunum að gera sína eigin víkingakyrtla,

 

Fjórða desember árið 2013 gerðust undur og stórmerki. Nýtt hlutverk og nýjir titlar voru að verða til fyrir þau Möggu og Begga, en þennan dag kom fyrsta barnabarnið þeirra í heiminn.

 

Magga var frábær amma og þótti barnabörnunum, þeim Leo og Móu, fátt skemmtilegra en að rölta með henni út í fjárhús til að tala við vinina þar, hnoða þá og kjassa. Þar var Leó í essinu sínu að fá útrás fyrir orkuna sína við að gefa vinum sínum að borða. Hún var næm á persónuleika þeirra og átti auðvelt með að láta litlu orkuboltunum líða vel, sama hvort það var úti eða inni.

 

Magga elskaði fólkið sitt og hafði áttað sig á því að það var það sem skipti mestu máli. En bæði eiginmaður hennar og sonur höfðu lent í alvarlegum bílslysum og vissi vel hversu brothætt lífið var og að við værum ekki eilíf.

 

Hún tók því eigin veikindum með miklu æðruleysi, kvartaði aldrei og var sterk fram að síðustu stundu, ávallt með hugann heima á Gróustöðum. Ákveðnin og viljinn vakti aðdáun allra og ekki síst húmorinn sem hún hélt sem lengst í.

 

Henni þótti virkilega erfitt að geta ekki kvatt móður sína með okkur fyrir örfáum vikum en hún vissi þá og nánasta fjölskylda í hvað stefndi og að hún færi brátt í sama ferðalag. Að brátt myndi hún ganga í fjall, fjallið sitt heima.

 

Í Gestaþætti Hávamála var ein uppáhalds vísa Möggu og ætla ég að enda minningarorðin um þessa yndislegu og góðu konu á þeim:


Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

 


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31