Tenglar

Þuríður Sumarliðadóttir minningarorð.

Þuríður Sumarliðadóttir
Þuríður Sumarliðadóttir

Þuríður Sumarliðadóttir var fædd.11.nóvember.1935 og lést þann 12.október. 2017. Hún var jarðsungin frá Garpsdalskirkju 23. október.

 

Foreldrar Þuríðar voru þau hjónin Sumarliði Guðmundsson og Signý Björnsdóttir á Gróustöðum, og átti hún einn bróður, Ásgeir Sumarliðason, sem er látinn.

 

Maki Þuríðar var Jón Oddur Friðriksson og eignuðust þau þrjú börn, þau Friðrik Daníel, maki Hugrún Einarsdóttir, Signýju Magnfríði, maki Bergsveinn Grétar Reynisson og Bjarka Stefán, maki Bára Borg Smáradóttir.

 

Barnabörnin eru orðin 7; Þuríður Signý Friðriksdóttir, Jón Ingiberg Bergsveinsson, Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir,  Sumarliði Gilsfjörð Bjarkason, Smári Gilsfjörð Bjarkason, Svanur Gilsfjörð Bjarkason og Gróa Borg Gilsfjörð Bjarkadóttir og langömmubörnin 5; Friðrik Heiðar Vignisson, Jón Haukur Vignisson, Elínborg Birna Vignisdóttir, Leo Ingiberg Jónsson og Móeiður Erna Jónsdóttir.

 

Þuríður var fædd og uppalin á Gróustöðum og bjó þar allt sitt líf og þar lágu hennar rætur. Móðurhlutverkið og svo seinna ömmuhlutverkið var það allra dýrmætasta í lífi Þuríðar. Börn voru henni afar kær og atvikaðist svo að tvö börn hennar og makar hafa ávallt búið með þeim hjónum hér og svo frumburðurinn sem er alltaf með annan fótinn heima.

 

Foreldrar hennar voru lánsöm eins og hún, að geta verið heima til síðustu stundar. Hún  hugsaði ætíð vel um þau og sérstaklega um móður sína eftir að faðir hennar dó.

 

Þar sem Þuríður var fædd og uppalin í sveitinni þurfti hún líkt og önnur börn á þessum tíma að aðstoða við sveitarstörfin og skepnurnar, lífið einkenndist af mikilli vinnu og var hún alla tíð einstaklega dugleg kona.

 

Hún greindist árið 1955 með lömunarveikina, einungis tvítug að aldri og náði sér aldrei almennilega en gaf þó ekkert eftir og vann mun meira en hún gat í rauninni og var oft undir miklu álagi á árum áður.

 

 

Ljósið sem gaf vonina í þessum veikindum var ungur maður, Jón Oddur, sem kom inn í líf hennar á þessum tíma sem eiginmannsefni. Þrátt fyrir að hún þekkti hann vel frá Garpsdal var það var ekki fyrr en hann bókstaflega festist á hlaðinu á Gróustöðum í skúrasmíði sem ástin kviknaði í alvöru og giftust þau tveimur árum seinna, þann 29. júní árið 1957, í sömu athöfn var frumburður þeirra, Friðrik, skírður.

 

 

Hún var einstök amma, amma sem átti alltaf til tíma, amma sem kenndi barnabörnunum að meta íslenska náttúru og öll þau undur sem henni fylgja og þá sérstaklega fuglana. Það var sko lúxus að hafa ömmu í næsta húsi og eiga dýrmætt athvarf í faðmi hennar. Þuríður var auka-mamma og amma fyrir nágrannabörnin og öllum leið vel nálægt henni. Góðir nágrannar voru gulls ígildi í þessari sveit og fékk hún oft nágrannabörnin í fangið með nær engum fyrirvara en þau voru ávallt velkomin og alltaf tilbúin að koma, enda oftar en ekki heimsins bestu lummur í boði eins og barnabörnin hennar Þuríðar orða það.

 

 

Þá fylgdist Þuríður ávallt vel með öllu sínu fólki fram á síðasta dag og athugaði reglulega um alla. Umhyggju sína sýndi hún alltaf án nöldurs heldur bar kurteisislega fram áhyggjur af því hvort allir fengju að borða og hvort þau væri ekki örugglega búin að þrífa aðeins.  Kisa gamla var einn af bestu vinunum þar til hún fór og fékk sinn skammt af umhyggju og blíðu Þuríðar.

 

 

Á Íslandi eigum við til hvunndagshetjur, fólk sem leggur sig stöðugt fram við að hugsa um aðra, láta hlutina ganga með kærleika og umhyggju en þiggja varla hið minnsta hrós. Þuríður var þannig hvunndagshetja. Hún var alltaf að hugsa um aðra og taka tillit til annarra.

 

 

Allir höfðu mikla matarást á henni og ein birtingarmynd ástar hennar á fjölskyldu og vinum var að elda og baka handa öllum. Allir voru velkomnir og til hennar var svo sannarlega gott að koma og öllum var tekið opnum örmum. Hún var einstaklega gestrisin og varð ómöguleg ef einhver vildi ekki kaffi og orðatiltækið „7 sortir en ekkert til með kaffinu“ hljómaði reglulega í eldhúsinu hennar.

 

 

Og reyndar var það ekki það eina sem hljómaði reglulega í þessu eldhúsi því íslensk dægurlög áttu sinn sess í lífi Þuríðar og uppáhalds tónlistarmennirnir voru Haukur Morthens, Ellý Vilhjálms og Helena Eyjólfs. Tónlistin gaf henni ætíð mikið og hún spilaði sjálf og því varð það mikill missir þegar hún hætti að heyra jafn vel og njóta tónlistarinnar.

 

 Þuríður var húsmóðir fram í fingurgóma og mjög nýtin, saumaði mikið og var flink í höndunum. Hún hafði líka einstakt lag á að láta hluti endast, í hennar búi voru í hversdagsbrúki ýmis áhöld sem Sumarliði faðir hennar smíðaði. Í áranna rás hélt hún til haga alls kyns hlutum sem sumum fundust nú ekkert ýkja merkilegir og frekar hversdagslegir, en eru í dag algjörlega ófáanlegir og orðnir hluti af sögu og minningum sem henni þótti vænt um að geta deilt með öðrum.

 

 Hún var framkvæmdasöm og vildi láta hlutina ganga. Fannst gaman að breyta til og hafa fallegt í kringum sig og elskaði blóm og liti. Og auðvitað varð allt að vera á sínum stað og ekki kom til greina að hlutirnir væru í svörtum eða dökkum litum því þá þoldi hún ekki.

 

Þegar Þuríður og Jón Oddur tóku að reskjast hættu þau búskap og börn þeirra tóku við. Þá gafst meiri tími til að sinna áhugamálum. Þuríði hafði alltaf langað til að ferðast en því miður hafði lítill tími gefist til þess þar sem alltaf var verið að gera við. Hún fór ekki að heiman ef hún vissi að einhver gæti þarfnast hennar heima við né ef bollarnir stóðu enn óhreinir í vaskinum.Hún fór þó í dásamlega ferð sem gaf henni mikið, í Borgarfjörðinn með Ingibjörgu vinkonu sinni að kaupa blóm og svo norður í Djúpuvík að skoða gamlar minjar. Einnig ákváðu þau hjónin að búa sér til ferðabíl og fóru saman tvær ferðir á Snæfellsnes, þar sem hún naut sín vel og dáðist að ólíku landslagi og náttúru og mannlífinu almennt.

 

 Hún lifði í núinu og kunni að njóta þess minnsta sem hins stærsta og fannst lífið ganga helst til hratt í nútímanum og hafði áhyggjur af því, því öllu og öllum vildi hún vel. Hún vildi að fólk staldraði við og nyti þess sem lífið hafði uppá að bjóða og þá sérstaklega náttúrunnar, fallegrar tónlistar, litanna og samverunnar við hvert annað.

 


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31