Tenglar

sunnudagur 3. apríl 2011 |

Grettir og fóstbræður - veturvist á Reykhólum

Grettir kom á Reykjahóla nær veturnóttum og beiddi Þorgils veturvistar.

 

Þorgils sagði að honum væri til reiðu matur sem öðrum frjálsum mönnum „en ekki er hér vönd vistargerð“.

 

Grettir kvaðst ekki um það vanda.

 

„Er hér enn annar hlutur til vandhæfa,“ segir Þorgils. „Þeir menn ætla hér til vistar er mikið þykja vanstilltir, sem eru þeir fóstbræður Þorgeir og Þormóður. Veit eg eigi hversu yður hentar saman að vera en þeirra vist skal hér jafnan vera er þeir vilja. Nú máttu vera hér ef þú vilt en öngum yður skal duga að eiga illt við annan.“

 

Grettir sagði að hann mundi á öngvan mann leita fyrri og einkanlega ef bóndi vildi svo.

 

Litlu síðar komu þeir fóstbræður heim. Ekki féll blítt á með þeim Þorgeiri og Gretti en Þormóður lét sér vel fara. Þorgils bóndi sagði þeim fóstbræðrum allt slíkt sem hann sagði Gretti en þeir gerðu svo mikil metorð hans að hvorigir lögðu öðrum öfugt orð en þó fóru ekki þykkjur þeirra saman. Leið nú svo öndverður veturinn af.

 

Það segja menn að Þorgils bóndi átti eyjar þær sem Ólafseyjar heita. Þær liggja út á firðinum, hálfa aðra viku undan Reykjanesi. Þar átti Þorgils bóndi uxa góðan og hafði eigi sóttur orðið um haustið. Talaði Þorgils um jafnan að hann vildi ná honum fyrir jólin.

 

Það var einn dag er þeir fóstbræður bjuggust til að sækja uxann ef þeim fengist hinn þriðji maðurinn til liðs. Grettir bauð að fara með þeim en þeir létu vel yfir því, fara síðan þrír á teinæringi. Veður var kalt og lék á norðan. Skipið stóð í Hvalshaushólmi. Sigldu þeir út og græddist heldur vindurinn, komu við eyjarnar og tóku uxann.

 

Þá spurði Grettir hvort þeir vildu heldur leggja út uxann eða halda skipinu því að brim nokkuð var við eyna. Þeir báðu hann halda skipinu. Hann stóð við mitt skipið á það borð er frá landi horfði, tók honum sjórinn undir herðablöðin, og hélt svo að hvergi sveif. Þorgeir tók upp uxann aftan en Þormóður framan og hófu svo út í skipið, settust síðan til róðrar. Reri Þormóður í hálsi en Þorgeir í fyrirrúmi en Grettir í skut og héldu inn á flóann. Og er þeir komu inn fyrir Hafraklett styrmdi þá að þeim.

 

Þá mælti Þorgeir: „Frýr nú skuturinn skriðar.“

 

Grettir mælti: „Eigi skal skuturinn eftir liggja ef allvel er róið í fram.“

 

Þorgeir féll þá svo fast á árar að af gengu báðir háirnir.

 

Þá mælti hann: „Legg þú til Grettir meðan að eg bæti að háunum.“

 

Grettir dró þá fast árarnar meðan Þorgeir bætti að háunum. En er Þorgeir tók að róa höfðu svo lúist árarnar að Grettir hristi þær í sundur á borðinu. Þormóður kvað betra að róa minna og brjóta ekki. Grettir þreif erði tvö er lágu í skipinu og rak borur stórar á borðstokkunum og reri svo sterklega að brakaði í hverju tré. En með því að skip var gott en heldur menn í röskvara lagi þá náðu þeir Hvalshaushólm.

 

Grettir spyr hvort þeir vildu heldur fara heim með uxann eða setja upp skipið. Þeir kjöru heldur að setja upp skipið og settu þeir upp með öllum sjónum þeim sem í var og jöklinum en það var mjög sýlt. En Grettir leiddi uxann og var hann mjög stirður í böndunum en allfeitur. Varð honum mjög mætt. En þá er hann kom neðan hjá Tittlingsstöðum þraut uxann gönguna.

 

Þeir fóstbræður gengu til húss því að hvorigir vildu veita öðrum að sínu hlutverki. Þorgils spyr að Gretti en þeir sögðu hvar þeir höfðu skilið. Hann sendi þá menn á móti honum og er þeir komu ofan undir Hellishóla sáu þeir hvar maður fór í móti þeim og hafði naut á baki og var þar kominn Grettir og bar þá uxann. Undruðust þá allir hversu mikið hann gat orkað. Lék Þorgeiri næsta öfund á um afl Grettis.

 

Það var einn dag nokkuð eftir jól að Grettir fór í laug einn saman.

 

Þorgeir vissi það og mælti við Þormóð: „Förum við til og vitum hversu Gretti bregður við ef eg ræð á hann, þá er hann fer frá lauginni.“

 

„Ekki er mér um það,“ sagði Þormóður, „og muntu ekki gott fá af honum.“

 

„Fara vil eg þó,“ sagði Þorgeir.

 

Snýr hann nú ofan á brekkuna og bar hátt öxina.

 

Grettir gekk þá neðan frá lauginni og er þeir fundust mælti Þorgeir: „Er það satt Grettir,“ sagði hann, „að þú hefir það mælt að þú skyldir aldrei renna fyrir einum?“

 

„Eigi veit eg það svo víst,“ sagði Grettir, „en skammt hefi eg fyrir þér runnið,“ kvað Grettir.

 

Þorgeir reiddi þá upp öxina. Í því hljóp Grettir undir Þorgeir og færði hann niður allmikið fall.

 

Þorgeir mælti þá til Þormóðar: „Skaltu standa hjá er fjandi sjá drepur mig undir sér?“

 

Þormóður þreif þá í fætur Gretti og ætlaði að draga hann ofan af Þorgeiri og fékk ekki að gert. Hann var gyrður saxi og ætlaði að bregða. Þá kom Þorgils bóndi að og bað þá vera spaka og fást ekki við Gretti. Þeir gerðu svo og sneru þessu í gaman. Ekki áttust þeir fleira við svo að getið sé. Þótti mönnum Þorgils mikla gæfu til hafa borið að stilla slíka ofstopamenn. En er vora tók fóru þeir á burt allir.

 

Grettir fór inn til Þorskafjarðar. Var hann spurður að hversu honum hefði líkað vistargerðin eða veturvistin á Reykjahólum.

 

Hann svarar: „Þar hefi eg svo verið að eg hefi jafnan mínum mat orðið fegnastur þá er eg náði honum.“

 

Fór hann síðan vestur yfir heiðar.

 

- Grettis saga.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31