Tenglar

fimmtudagur 7. apríl 2011 |

Kannski glórulaus ofdirfska

Játvarður Jökull Júlíusson á Miðjanesi og kona hans Rósa Hjörleifsdóttir.
Játvarður Jökull Júlíusson á Miðjanesi og kona hans Rósa Hjörleifsdóttir.
1 af 4

- segir Játvarður Jökull sem er að skrifa sögu Ólafsdalsskóla og nemendatal skólans með tréstauti á tölvu

 

(Morgunblaðið 14. júlí 1985).
 
Játvarður Jökull Júlíusson á Miðjanesi í Reykhólasveit er búinn að fá sér tölvu - og er að skrifa á hana. Þætti ekki tíðindum sæta við venjulegar aðstæður, en Játvarður Jökull situr í hjólastól, lamaður upp að hnjám og öxlum og hefur hvorki not af höndum né fótum. Í staðinn notar hann tréstaut með gúmmíi á endanum og stjórnar honum með munninum einum. Stórkostlegt að horfa á hann, ekki aðeins skrifa á tölvuna heldur líka við að fletta með þessum hætti blöðum og jafnvel taka þau úr og setja þau götuð í bréfamöppu. Hann var nýkominn heim að Miðjanesi í Reykhólasveit frá Reykjalundi, þar sem hann hafði m.a. verið að fá þessa rittölvu og þjálfast í að nota hana, þegar blaðamaður Mbl. var þar á ferð.

 

Játvarður kvaðst hafa fengið tölvu í viku í fyrra, rétt til að kynnast henni. Fyrir jólin fékk hann svo sína eigin greidda af Trygggingarráði. Hún beið hans á Reykjalundi. Til að hann gæti notað hana þurfti að festa 4 táknlykla, því með stautinum sínum getur hann ekki ýtt á fleiri takka en einn í einu. Átti að vera hægt að lagfæra það og það reyndist rétt. Játvarður sagði að tölvan væri hljóðlátari og höggin ekki eins snögg eins og á rafmagnsritvélina. Talað er um að fullfrískt fólk finni til einhverrar hræðslu andspænis því viðfangsefni að fara að vinna á tölvur. En ekki þessi lamaði bóndi. Hann gengur að því eins og hverju öðru verkefni.

 

Bóndinn tók að lamast

 

Játvarður Jökull var bóndi á Miðjanesi og hafði búið sig undir það lífsstarf í Hvanneyrarskóla. Hafði aldrei dottið í hug að gera neitt annað. Var búinn að búa í nær 20 ár þegar hann fór að kenna lömunar í útlimum um 1957 og limir héldu áfram að visna, svo að hann var orðinn öryrki frá 1958. Er þar á ferð einhvers konar taugalömun. Og þessi hraustlegi bóndi hætti að geta unnið útivið. En hann settist ekki í aðgerðaleysi. Hann fór að skrifa. „Gat ekki gert neitt annað,“ segir hann. „Mig hafði stundum langað að skrifa í blöð um ýmis málefni og gerði það bara,“ segir Játvarður einfaldlega þegar blaðamaður fer að spyrja hann um þessi viðbrögð manns sem kippt er á þennan hátt út úr lífsstarfi sínu. Síðan hefur Játvarður skrifað greinar í safnrit, tímarit og dagblöð, og heilar bækur. En meðan hann var bóndi hafði hann haft afskipti af félagsmálum, verið í ýmsum nefndum, m.a. hreppsnefnd, og var oddviti um skeið.

 

„Sem betur fer kom þetta ekki allt í einu, svo maður hefur bara reynt að aðlagast því jafnóðum,“ segir Játvarður. Fyrst handskrifaði hann en 1971 var svo komið að hann gat ekki lengur haldið á penna og fékk þá rafmagnsritvél.

 

Þreifaði sig áfram

 

„Ég byrjaði á Reykjalundi að þreifa fyrir mér, en til þess að geta skrifað á ritvélina varð ég að geta snert hana. Fann þá upp á því að hafa þetta prik í munninum,“ segir Játvarður Jökull. „Þetta átti að vera létt, en prikið rann alltaf til svo tekið var upp á því að hafa á endanum stamt gúmmí. Og með þessu get ég gatað blöð og gengið frá þeim í möppur. Sjáðu svona!“ Og Játvarður beygir sig niður og opnar læsinguna á einni möppunni á borðinu með munninum, tekur upp í sig tréstautinn, snýr götuðu blaði fimlega við og kemur því upp á pinnana áður en hann festir læsinguna aftur. „Þetta er engin kúnst," segir hann við orðlausan áhorfandann, sem stynur upp: „Þú hlýtur að hafa óendanlega þolinmæði.“

 

„Ég hefi alltaf verið þolinmóður. Það þýðir ekki að vera með nein læti. Svo venst maður á að bíða eftir öðrum, taka tillit til annarra. En þótt ég verði ekki beint óþolinmóður þá er mér ekki sama ef einhver tefur mig frá verki. Ég hefi lengst af haft þann sið að halda mig að verki. En er þetta nú ekki orðið alltof mikið sjálfshól?“ bætir hann við og tekur pennann sinn í munninn, beygir sig fram og skrifar nafnið sitt með fallegum öruggum stöfum á blað. Lætur fyrst á sig gleraugun sem liggja á borðinu með því að beygja sig niður að þeim.

 

„Þetta er ofur einfalt. Þetta hefur allt komið af sjálfu sér þegar þörfin hefur kallað. Kemur ekki allt í einu. Eins og að matast. Fyrst var búið til áhald til að festa í mataráhöldin. En það er svo mikið mas að fá einhvern til að festa það á að ég fór að taka matinn milliliðalaust af diskunum. Það eina sem ég ekki get borðað á þann hátt er þykkur grautur.

 

En þunnan vökva get ég sopið. Þá hefi ég bara þægilegan bolla sem ég get drukkið úr. Til dæmis á ég hentugan bolla geymdan í skáp í samkomuhúsinu. Það er skemmtilegra að drekka úr bolla en gegnum rör. Því hefi ég aldrei getað vanist.“

 

Játvarður segir mér að í fyrstu hafi hann getað gengið um landareignina. Hendurnar fóru fyrst, svo hann hætti að geta klætt sig. „En ég get enn staðið upp,“ segir hann og vegur sig andartak upp úr hjólastólnum.

 

Ég spyr hann hvort hann sé ósáttur við skapara sinn vegna þessa. En hann neitar því alveg: „Hann veit sjálfsagt hvað hann er að gera. Trúaður? Veit ekki hvað segja skal. Trúaður á minn hátt. En ég er ekki í takt við þetta strangtrúarfólk.“

 

Það er heldur fátítt á Íslandi um þessar mundir að vera svona sáttur við tilveruna, ekki satt?

 

„Já, einhver er svartsýnni en ég. Það er eitthvert ógurlegt óráð á flestu. Ef maður fer svo að skoða einstaklingana, einn og einn, þá er fjöldinn allur úrvalsfólk. En það nægir ekki. Það er svo víða pottur brotinn í stjórnarfarinu. Engin glóra í þessari skuldasöfnun. Við erum alltaf að sökkva dýpra og dýpra í skuldafenið. Og hvergi er slakað á neinni kröfu. Það erum ekki við, sem minna megum okkar, sem erum að setja allt á hausinn.“

 

Talið berst að Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum og Játvarður Jökull kveðst aldrei hafa ljáð öðru eyra en að hún eigi rétt á sér þótt hún hafi lent í sömu erlendu skuldasúpunni og önnur fyrirtæki á Íslandi vegna vaxtakjara og gengisfellingar. Og við ræðum um annað áhugamál Játvarðar Jökuls, selafrumvarpið, sem hann er ákaflega ósáttur við og hefur skrifað ótal aðilum harðorð bréf út af - ráðherrum, þingflokki Alþýðubandalagsins, þingmönnum, sýslunefndum o.fl. Svo að Játvarður Jökull kom mjög inn í umræðurnar um þetta mál á Alþingi: „Ætli það sé ekki nokkuð óalgengt að svona maður eins og ég, langt uppi í sveit, komi inn í átökin á þingi eins og þegar þeir fóru að munnhöggvast út af mér alþingismennirnir Garðar Sigurðsson og Hjörleifur Guttormsson,“ segir Játvarður Jökull þegar hann sýnir mér afritin af bréfunum sem hann sendi um þetta mál. Og það er orð að sönnu. Það er áreiðanlega einsdæmi að svo fatlaður maður í afskekktri sveit fylgist svo vel með og fylgi áhugamálum sínum svo vel eftir með bréfaskriftum á æðstu staði að rödd hans berist inn á þing landsins.

 

Bók í haust og saga Ólafsdalsskóla í smíðum

 

En slíkar bréfaskriftir eru þó ekki aðalviðfangsefni Játvarðar Jökuls, þegar hann sest við ritvélina sína og nú tölvuna. Á árinu 1979 gaf hann út bókina Umleikinn ölduföldum, ágrip af sögu Hergilseyinga, og ófáar æviskrár og annála hefur hann skrifað í Árbók Barðastrandarsýslu, þar sem hann hefur átt sæti í ritnefnd frá 1978.

 

Og nú er von á bók eftir hann í haust, um Sigríði stórráðu, sem var lærð mjólkuriðnaðarkona á sinni tíð, starfaði í Möðrudal á árunum 1861-74. „Sigríður var ömmusystir mín, svo mér rennur blóðið til skyldunnar,“ segir Játvarður Jökull. Hann kveðst hafa verið að skrifa þessa bók þegar Ásgeir Bjarnason í Ásgarði kom og fékk hann til að skrifa sögu skólans í Ólafsdal.

 

Játvarður hafði tekið saman útvarpserindi um Ólafsdalsskóla á aldarafmæli hans 1980 og er nú að vinna að bók um skólann. „Þá tók ég upp hjá sjálfum mér að vinna nemendatal Ólafsdalsskóla frá 1880 til 1907 og hefi verið að því með öðru sl. þrjú ár,“ segir Játvarður. „Ekkert er jafn mikið komið undir velvilja fólks eins og að hafa upp á myndum frá svona löngu liðnum tíma. Til dæmis vantar myndir af 10 vesturförum frá Ólafsdal. Það þarf kjark til, líklega bæði kjark og ýtni, að kalla eftir myndum af 19du aldar mönnum frá Ameríku.

 

Það er kannski glórulaus ofdirfska af mér við þessar aðstæður að ætla mér að skrifa sögu Torfa í Ólafsdal,“ segir Játvarður Jökull eins og afsakandi. „En þeir hættu á þetta í Búnaðarfélaginu. Ég var að skila sögu Torfa Bjarnasonar og Ólafsdalsskóla, en á eftir að ljúka nemendatalinu. Mig er að dreyma um að skrifa það inn í tölvuna.

 

Ég á líka eftir að vinna þar nafnaskrá úr Torfasögu,“ bætir hann við. Játvarður lætur sig áreiðanlega ekki muna um það verk. Nú þegar er hann búinn að setja inn á tölvuna nafnaskrá fyrir bókina um Sigríði stórráðu, 704 nöfn eða 24.536 tákn á skerminum.

 

Hefur þér aldrei dottið í hug að gefast upp, Játvarður, eftir að hafa staðið í þessari baráttu í 28 ár?

 

„Nei, það hefur aldrei staðið til, ekki meðan lömunin segir ekki stopp. Ég hefi bara tekið þessu eins og það er. Aldurinn er nú raunar farinn að færast yfir, ég er kominn yfir sjötugt. En mér finnst ekkert þrekvirki að láta aðra hafa fyrir sér. Ég er árlegur gestur á Reykjalundi, hefi t.d. vöðvabólgu í hálsinum sem hann Birgir náði þó ekki úr mér á 10 vikum, en ég hefi gott af dvölinni þar, bæði andlega og líkamlega.“

 

Þótt Játvarður Jökull Júlíusson sé nýkominn úr erfiðri ferð að sunnan, er ekki annað að heyra en að óþol sé í honum að komast að verki - við að skrifa með tréstauti á tölvu efni í bók. Og ekki situr á blaðamanni í gangfæru standi með tíu nothæfa fingur til að skrifa með að tefja fyrir.

 

- Morgunblaðið 14. júlí 1985.

Texti og myndir: Elín Pálmadóttir.

Birt hér á vef Reykhólahrepps með leyfi Morgunblaðsins.

 
Smellið á myndirnar til að stækka þær.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31