Tenglar

sunnudagur 3. apríl 2011 |

Landnámsfólk í héraðinu

Gils skeiðarnef nam Gilsfjörð milli Óláfsdals og Króksfjarðarmúla; hann bjó á Kleifum. Hans son var Heðinn, faðir Halldórs Garpsdalsgoða, föður Þorvalds í Garpsdal, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur.

 

Þórarinn krókur nam Króksfjörð til Hafrafells frá Króksfjarðarnesi. Hann deildi um Steinólfsdal við Steinólf hinn lága og röri eftir honum með tíunda mann, er hann fór úr seli með sjöunda mann. Þeir börðust við Fagradalsárós á eyrinni; þá komu menn til frá húsi að hjálpa Steinólfi. Þar féll Þórarinn krókur og þeir fjórir, en sjö menn af Steinólfi; þar eru kuml þeirra.

 

Ketill ilbreiður nam Berufjörð, son Þorbjarnar tálkna. Hans dóttir var Þórarna, er átti Hergils hnapprass son Þrándar mjóbeins; Ingjaldur hét son þeirra; hann var faðir Þórarins, er átti Þorgerði dóttur Glúms Geirasonar; þeirra son var Helgu-Steinar. Þrándur mjóbeinn átti dóttur Gils skeiðarnefs; þeirra dóttir var Þórarna, er átti Hrólfur son Helga hins magra. Þorbjörg knarrarbringa var önnur dóttir Gils skeiðarnefs. Herfiður hét son hans, er bjó í Króksfirði.

 

Úlfur hinn skjálgi (rangeygi) son Högna hins hvíta nam Reykjanes allt milli Þorskafjarðar og Hafrafells (og bjó á Miðjanesi); hann átti Björgu dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra. Þeirra son var Atli (hinn) rauði, er átti Þorbjörgu systur Steinólfs (hins) lága. Þeirra son var Már á Hólum (Reykhólum); hann átti Þorkötlu dóttur Hergils hnapprass; þeirra son var Ari.

 

Hann varð sæhafi til Hvítramannalands; það kalla sumir Írland hið mikla; það liggur vestur í haf nær Vínlandi hinu góða; það er kallað sex dægra sigling vestur frá Írlandi. Þaðan náði Ari eigi á brutt að fara og var þar skírður. Þessa sögu sagði fyrst Hrafn Hlymreksfari, er lengi hafði verið í Hlymreki á Írlandi.

 

Svo kvað Þorkell Gellisson segja íslenska menn, þá er heyrt höfðu frá segja Þorfinn (jarl) í Orkneyjum, að Ari hefði kenndur verið á Hvítramannalandi og náði eigi brutt að fara, en var þar vel virður.

 

Ari átti Þorgerði dóttur Álfs úr Dölum; þeirra son var Þorgils og Guðleifur og Illugi; það er Reyknesingaætt.

 

Jörundur hét son Úlfs hins skjálga; hann átti Þorbjörgu knarrarbringu. Þeirra dóttir var Þjóðhildur, er átti Eiríkur rauði, þeirra son Leifur hinn heppni á Grænlandi. Jörundur hét son Atla hins rauða; hann átti Þórdísi dóttur Þorgeirs suðu; þeirra dóttir var Otkatla, er átti Þorgils Kollsson. Jörundur var og faðir Snorra.

 

Hallsteinn son Þórólfs Mostrarskeggs nam Þorskafjörð og bjó á Hallsteinsnesi; hann blótaði þar til þess, að Þór sendi honum öndvegissúlur. Eftir það kom tré á land hans, það er var sextigi og þriggja álna og tveggja faðma digurt; það var haft til öndvegissúlna, og eru þar af görvar öndvegissúlur nær á hverjum bæ um þverfjörðuna. Þar heitir nú Grenitrésnes, er tréið kom á land.

 

Hallsteinn hafði herjað á Skotland og tók þar þræla þá, er hann hafði út; þá sendi hann til saltgörðar í Svefneyjar; þar höfðu þeir Hallsteins þræla hag fram.

 

Hallsteinn átti Ósku dóttur Þorsteins (rauðs). Þeirra son var Þorsteinn (surtur), er fann sumarauka. Þorsteinn surtur átti ... Þeirra son var Þórarinn, en dóttir Þórdís, er átti Þorkell trefill, og Ósk, er átti Steinn mjögsiglandi; Þorsteinn hvíti hét son þeirra. Sámur hét son Þorsteins surts óskilgetinn; hann deildi um arf Þorsteins við Trefil, því að hann vildi halda í hendur börnum Þórarins.

 

Þorbjörn loki hét maður, son Böðmóðs úr skut; hann fór til Íslands og nam Djúpafjörð og Grónes til Gufufjarðar. Hans son var Þorgils á Þorgilsstöðum í Djúpafirði, faðir Kolls, er átti Þuríði Þórisdóttur, Hallaðarsonar jarls, Rögnvaldssonar Mærajarls. Þorgils var son þeirra; hann átti Otkötlu, dóttur Jörundar Atlasonar hins rauða; þeirra son var Jörundur; hann átti Hallveigu dóttur Odda Yrarsonar og Ketils gufu. Snorri var Jörundarson; hann átti Ásnýju, dóttur Víga-Sturlu. Þeirra son var Gils, er átti Þórdísi Guðlaugsdóttur og dóttur Þorkötlu Halldórsdóttur, Snorrasonar goða, en son Gils var Þórður; hann átti Vigdísi Svertingsdóttur. Þeirra son var Sturla í Hvammi.

 

Ketill gufa hét maður Örlygsson, Böðvarssonar, Vígsterkssonar; Örlygur átti Signýju Óblauðsdóttur, systur Högna hins hvíta.

 

Ketill son þeirra kom út síð landnámatíðar; hann hafði verið í vesturvíking og haft (úr) vesturvíking þræla írska; hét einn Þormóður, annar Flóki, þriðji Kóri, fjórði Svartur og Skorrar tveir.

 

Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann hinn fyrsta vetur að Gufuskálum, en um vorið fór hann inn á Nes og sat á Gufunesi annan vetur.

 

Þá hljópu þeir Skorri hinn eldri og Flóki frá honum með konur tvær og fé mikið; þeir voru á laun í Skorraholti, en þeir voru drepnir í Flókadal og Skorradal.

 

Ketill fékk öngvan bústað á Nesjum, og fór hann inn í Borgarfjörð og sat hinn þriðja vetur að Gufuskálum við Gufá. Snemma um vorið fór hann vestur í Breiðafjörð að leita sér landa; þar var hann á Geirmundarstöðum og bað Ýrar dóttur Geirmundar og gat; vísaði hann þá Katli til landa fyrir vestan fjörð.

 

En meðan Ketill var vestur, þá hljópu þrælar hans á braut og komu fram um nótt á Lambastöðum; þar bjó þá Þórður son Þorgeirs lamba og Þórdísar Yngvarsdóttur, (móður)systur Egils Skalla-Grímssonar. Þrælarnir báru eld að húsum og brenndu Þórð inni og hjón hans öll; þeir brutu þar upp görvibúr og tóku vöru mikla og lausafé; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu; þeir snöru á leið til Álftaness. Lambi hinn (sterki) son Þórðar kom af þingi um morgininn, þá er þeir voru farnir á braut; hann fór eftir þeim, og drífa þá menn til af bæjum. En er þrælarnir sá það, hljóp sinn veg hver þeirra. Þeir tóku Kóra í Kóranesi, en sumir gengu á sund; Svart tóku þeir í Svartsskeri, en Skorra í Skorrey fyrir Mýrum, en Þormóð út í Þormóðsskeri; það er vika undan landi.

 

En er Ketill gufa kom aftur, þá fór hann vestur fyrir Mýrar og var hinn fjórða vetur á Snæfellsnesi að Gufuskálum; hann nam síðan Gufufjörð og Skálanes til Kollafjarðar. Þau Ketill og Ýr áttu tvo sonu; var Þórhallur annar, faðir Hallvarar, er átti Börkur son Þormóðar Þjóstarssonar; annar var Oddi, er átti Þorlaugu Hrólfsdóttur frá Ballará og Þuríðar dóttur Valþjófs Örlygssonar frá Esjubergi.

 

Kolli Hróaldsson nam Kollafjörð og Kvígandanes og Kvígandafjörð; hann seldi ýmsum mönnum landnám sitt.

 

Knjúkur hét son Þórólfs sparrar, er út kom með Örlygi; hann var kallaður Nesja-Knjúkur. Hann nam nes öll til Barðastrandar frá Kvígandafirði og bjó ... Annar son Knjúks var Einar, faðir Steinólfs, föður Salgerðar, móður Bárðar svarta. Þóra hét dóttir Knjúks, er átti Þorvaldur son Þórðar Víkingssonar. Þeirra son var Mýra-Knjúkur, faðir Þorgauts, föður Steinólfs, föður Höllu, móður Steinunnar, móður Hrafns á Eyri.

 

Knjúkur átti Eyju dóttur Ingjalds Helgasonar magra; þeirra son var Eyjólfur faðir Þorgríms Kötlusonar. Glúmur átti fyrr Kötlu, og var þeirra dóttir Þorbjörg kolbrún, er Þormóður orti um. Steingrímur hét son Þorgríms, faðir Yngvildar, er átti Úlfheðinn á Víðimýri.

 

- Landnámabók (Sturlubók).

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31