Tenglar

laugardagur 2. apríl 2011 |

Minnismerki Jóns Thoroddsens afhjúpað á Reykhólum

Minnismerki Jóns Thoroddsens. Reykhólakirkja í baksýn.
Minnismerki Jóns Thoroddsens. Reykhólakirkja í baksýn.
1 af 6

Minnismerki Jóns Thoroddsens var afhjúpað á Reykhólum að viðstöddu fjölmenni 23. júlí 2006. Síðan var skemmtileg og fjölþætt hátíðarstund í Reykhólakirkju þar rétt hjá. Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu 24. júlí 2006.

Minnismerki um Jón Thoroddsen skáld, sýslumann og ættföður Thoroddsen-ættarinnar, var í gær afhjúpað í blíðskaparveðri á fæðingarstað hans, Reykhólum við Breiðafjörð, að viðstöddum fjölda gesta. Meðal þeirra voru ráðherrarnir Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson og Siv Friðleifsdóttir og þingmennirnir Kristinn H. Gunnarsson og Jón Bjarnason. Minnismerkið afhjúpuðu Einar Örn Thorlacius, sveitarstjóri Reykhólahrepps, og Björn Samúelsson, fyrrverandi formaður Reykhóladeildar Lionsklúbbs Búðardals, en ávarp flutti Halldór Ó. Sigurðsson, núverandi formaður deildarinnar.

 

Minnismerkið er norðan í bæjarhólnum gamla á Reykhólum, í hallanum á milli Reykhólakirkju og Dvalarheimilisins Barmahlíðar. Reykhóladeild Lionsklúbbs Búðardals gekkst fyrir gerð þess og naut fjárstuðnings m.a. frá Listskreytingasjóði ríkisins, Barðstrendingafélaginu, Thoroddsen-ættinni, heilbrigðisráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu. Finnur Arnar Arnarson myndlistarmaður hannaði verkið en fyrirtækið Sviðsmyndir ehf. annaðist smíði þess. Efniviðurinn er sérlega veðurþolinn harðviður en verkið sjálft er í mynd bóka. Á kili bera þær nöfnin á skáldsögum Jóns Thoroddsens en á síðunum eru skildir með mynd af skáldinu og kvæðinu Barmahlíð. Fótstallinn að minnisvarðanum hlóð hleðslumaðurinn kunni Ari Jóhannesson.

 

Að lokinni athöfninni við minnismerkið var gengið í Reykhólakirkju þar sem Magnús Thoroddsen hrl. flutti ávarp fyrir hönd ættarinnar og minntist langafa síns og Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður flutti ávarp fyrir hönd Rithöfundasambands Íslands. Einnig fluttu ávörp Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra og Margrét Thoroddsen, sonardóttir Jóns. Tríó Björns Thoroddsens (Björn Thoroddsen, Andrea Gylfadóttir og Jón Rafnsson) flutti nokkur lög en eftir það voru kaffiveitingar í Reykhólaskóla í boði Lionsmanna.

 

Minnismerkið er á útivistarsvæðinu við Dvalarheimilið Barmahlíð á Reykhólum. Sú ákvörðun Jóns Kristjánssonar, þáverandi heilbrigðisráðherra, að ráðuneytið skyldi styrkja gerð minnismerkisins, er í samræmi við þá stefnu að búa öldruðu fólki ekki aðeins íverustað heldur einnig viðfelldinn vettvang til útivistar, eins og Siv Friðleifsdóttir vék að í ávarpi sínu. Dvalarheimilið ber nafn hlíðarinnar fríðu rétt innan við Reykhóla, en um hana orti Jón Thoroddsen einmitt eitt af sínum þekktustu kvæðum. Í ávarpi sínu sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, að ráðuneyti hans myndi leggja fé til þess að gera bílastæði við minnismerkið.

 

Jón Thoroddsen fæddist á Reykhólum árið 1818, sonur hjónanna Þórðar Þóroddssonar beykis og Þóreyjar Gunnlaugsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla og síðar lagaprófi frá Hafnarháskóla. Um tíma gegndi hann herþjónustu í Danaher. Jón var um árabil sýslumaður í Barðastrandarsýslu og bjó lengst af þeim tíma í Haga á Barðaströnd en frá 1861 og til dauðadags var hann sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu og bjó að Leirá í Leirársveit. Hann andaðist tæplega fimmtugur að aldri árið 1868.

 

Flestir Íslendingar kunna eða þekkja ýmis af kvæðum Jóns Thoroddsens, svo sem Barmahlíð (Hlíðin mín fríða), Vorvísu (Vorið er komið og grundirnar gróa) og Ísland (Ó, fögur er vor fósturjörð). Heiðurssess í íslenskri bókmenntasögu skipar Jón Thoroddsen þó vegna skáldsagna sinna, en á því sviði var hann brautryðjandi hérlendis. Skáldsagan Piltur og stúlka sem út kom árið 1850 telst fyrsta nútímaskáldsagan á íslensku en Jóni entist ekki aldur til að ljúka við skáldsöguna Mann og konu, sem kom út nokkru eftir andlát hans. Sögupersónurnar Gróa á Leiti og séra Sigvaldi lifa enn góðu lífi í vitund íslensku þjóðarinnar - og sálareinkenni þeirra búa víst enn í dag í mörgu fólki.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30