Ólína Andrjesdóttir
Grein þessi er eftir sr. Jón Auðuns og birtist í Morgunblaðinu 26. júlí 1935. Stafsetningu höfundar - stafsetningu þess tíma - er haldið. Augljósar prentvillur hafa verið leiðréttar umyrðalaust.
Sá deyr ei, sem heimi gaf lífrænt ljóð,
sá ljetst, er reis þögull frá dísanna borði -
segir Einar Benediktsson, og á þenna kvarða mæld mun Ólína Andrjesdóttir lifa vor á meðal, þó að rödd hennar sje nú hljóðnuð, þulurnar þagnaðar á vörum hennar og sögunum hennar lokið.
Hún gaf þjóð sinni ekki aðeins eitt, heldur mörg „lífræn ljóð“, því að hún kunni þá list, hvort sem í bundnu eða óbundnu máli var, að „koma fyrir sitt hjarta orði“. Hún var fædd af hinni merku breiðfirsku skáldaætt, sem sjera Matthías gerði frægasta, og ljóðgáfu ættar sinnar erfði hún í ríkum mæli. Æskuljóð hennar eru að langmestu glötuð. Það var fyrst á efri árum hennar, í Reykjavík, að vinir hennar komust að raun um, hvílíkt skáld hún var, og þegar þeir fóru að grenslast eftir ljóðagerð hennar, kom það upp úr kafinu, að hún átti varla til eftir sig skrifaða vísu og var nærri feimin við að hafa yfir fyrir öðrum það, sem hún mundi. Margt var glatað. Þess vegna eru því nær öll ljóð hennar, sem prentuð eru í bókum þeirra systra, frú Herdísar og hennar, frá efri árum. Þulur hennar og ljóð urðu landfleyg á skömmum tíma og sem dæmi vinsældanna má geta þess, að við brot úr hinum fagra ljóðaflokki hennar: „Til næturinnar“, hafa þegar þrjú tónskáld samið lög.
Ólína gerði lítið að því að yrkja undir nýjum bragarháttum, gömlu háttunum unni hún og kunni á þeim meistaratök; ferskeytluna elskaði hún, í hennar óbrotna, fagra formi fann hún margar fegurstu og dýpstu hugsanir íslenskrar alþýðu bundnar og við þann dýrmæta fjársjóð jók hún drjúgum. Hún orti mest - beinlínis og óbeinlínis - út frá sinni miklu lífsreynslu og átti svo fastmótaða lífsskoðun, að hennar gætir svo að segja í hverju ljóði, sem hún kvað. Ekki skemdi það list hennar, það sýna best hin ólíku og sjerkennilegu kvæði um hennar einkennilegu vini: Hannes Dalaskáld, Einar Jochumsson og Hjálmar Lárusson, hinn sjerstæða dótturson Bólu-Hjálmars. Hrygð þjóðarinnar út af fráfalli sjera Matthíasar, frænda hennar, lýsti hún átakanlegar í fjórum ljóðlínum en nokkurt annað þálifandi skáld gerði í heilu kvæði. Um Ólínu og ljóðagerð hennar hefir nokkuð verið skrifað, en þó ítarlegast af próf. Sig. Nordal í ritgerð, þegar bók þeirra systra kom út í fyrra sinn.
Þá voru hæfileikar hennar á sviði frásagnarlistarinnar ekki minni. Svo margfróð og minnug var hún, að undrum sætti; og svo var frásagnargáfan rík, að svo var, sem breytti hún orðalagi, rómi og fasi við hverja nýja sögu, sem hún sagði; frá þeim stundum, er hún sat og sagði frá, eiga fjölmargir ógleymanlegar minningar, enda sótti fólk svo eftir að hafa hana í húsum sínum, að æfinlega urðu margir út undan. Ekki var hin aldraða kona síður ungum ljúfur gestur, en gömlum, því að í heimi sagna og ljóða var hún svo auðug, að hún átti æfinlega eitthvað handa öllum. Aldrei vissi jeg til þess, að hún risi þögul frá borði lista- og fræðadísanna, aldrei að hún segði svo margt, að hún ætti ekki ógrynni eftir.
Hún var merkileg kona.
Auk þessara sjergáfna var Ólína Andrjesdóttir óvenjulega mikilhæf kona á öðrum sviðum.
Alvörukona var hún mikil og hafði gildar ástæður til þess, en þótt hún slægi djúpan alvörustreng á gígju sinni, var æfinlega við hlið hans annar strengur, sem hló. Eðli hennar var svo fjölþætt, að hún gat aldrei orðið leiðinleg. Persóna hennar var svo kjarnmikil, að hún var aldrei hálf-volg, heldur æfinlega heit, bæði í gleði og sorg, og þung, hvort sem hún var með eða móti. Á trúmálum og stjórnmálum hafði hún traustar skoðanir, þau mál var hún fús að ræða og ljet oft um þau falla heit orð, því að þau voru henni heilög alvörumál. Jeg held að yndisþokkinn, sem prýddi eðli hennar, hafi einkum stafað frá hennar heitu og björtu trú, sem sálmarnir hennar sýna best. Þegar jeg kom inn í stofurnar hennar, eftir að hún var látin, lá þar á borði blað, sem geymdi síðasta erindið, sem hún kvað, sárþjáð og nær dauða komin, í maí s.l.:
Þó missi jeg heyrn og mál og róm
og máttinn jeg þverra finni,
þá sofn' eg við hinstan dauðadóm,
ó, Drottinn, gef sálu minni,
að vakna við söngsins helga hljóm
í himneskri kirkju þinni.
Hennar mesta lán var tvímælalaust það, að um hana mátti segja það sama, sem hún kvað svo fagurlega um konuna við Jakobsbrunn:
Hún skildi með hjartan' og fann þann frið,
sem fylkir mót efanum liði,
og þessvegna varð hún sterk, þessvegna stóðst hún lífsraun sína með svo mikilli sæmd.
Ólína var fædd í Flatey á Breiðafirði þ. 13. júní 1858. Af systkinum hennar lifa enn: frú Herdís, skáldkona í Reykjavík, María, við Breiðafjörð, Guðrún og Andrjesa á Patreksfirði, allar gáfaðar konur og merkar. Hún andaðist á heimili sínu og Ástríðar dóttur sinnar, í Rvík, 18.*) þ.m. um hádegi, eftir langvinnan sjúkdóm.
Fjöldamargir sakna hennar. Þeim finst dapurlegt að eiga ekki von á henni aftur, dapurlegt að fá ekki að heyra hana segja fleiri sögur. Lík hennar verður til moldar borið í dag.
*) Mun vera misritun eða prentvilla fyrir 19.