Tenglar

mánudagur 28. mars 2011 |

„Þar sitja systur“

Systurnar Herdís, María Magdalena og Ólína Andrésdætur.
Systurnar Herdís, María Magdalena og Ólína Andrésdætur.

Grein þessi er eftir Ármann Jakobsson bókmenntafræðing og birtist í Lesbók Morgunblaðsins 17. ág. 1996.

 

Herdís og Ólína Andrésdætur fæddust í Flatey á Breiðafirði 13. júní 1858 og létust með fárra ára millibili í Reykjavík um áttrætt, Ólína lést 19. júlí 1935, Herdís 21. apríl 1939. Þær gáfu út Ljóðmæli saman, fyrst árið 1924 en aftur 1930 og heildarsafn ljóða þeirra kom út í litlu upplagi árið 1976, endurútgefið 1980 og 1982. Sjaldan er rætt um þær nema sem tvíeyki, Herdísi og Ólínu. Þannig er mynd af þeim saman (ásamt Maríu systur þeirra) í upphafi bókar og saman áttu þær í hrekkjóttu stríði við Þórberg Þórðarson sem sagt er frá í Eddu hans. Þá sjaldan að þær koma fyrir í yfirlitsritum um íslenskar bókmenntir eru þær og jafnan saman og virðast illaðgreinanlegar eins og títt er um tvíbura.

 

Ekkert er fyllilega sem sýnist. Vissulega voru þær samrýndar en áttu þó ekki samleið nema í bernsku og á efri árum í Reykjavík. Yrkisefni þeirra eru einnig um margt svo lík að furðu sætir, en á skáldskap þeirra eigi að síður munur, enda þótt hluti hans sé í samlögum þeirra, t.d. gamankvæði þar sem hvor botnar hjá annarri og kvæði úr hversdagslífinu, s.s. ljóðbréf til Theodoru frænku þeirra. Þannig er allmikill munur á afköstum þeirra, kveðskapur Herdísar er minni að vöxtum, Ólína afkastameiri auk þess sem kvæði hennar eru fjölbreyttari og ekki leynir sér að hún var meðvitaðri um skáldskapinn, leit fremur á sig sem fagmann. Þannig liggur ekki nema ein þula eftir Herdísi en þær yrkir Ólína.

 

Þulur Ólínu Andrésdóttur eru nátengdar þulum frænku hennar, Theodoru Thoroddsen. Þulan er ein merkasta bragnýjung íslenskrar ljóðagerðar frá dögum Jónasar fram að atómskáldskap og ekki síður fyrir að vera kvennabylting, en vera má að það skýri fálætið sem þulum hefur verið sýnt í bókmenntasögunni. Skáldkonan Hulda er brautryðjandinn þó að yngst sé þeirra sem höfðu þennan forna þjóðkvæðahátt til skáldlegrar notkunar í nútímaljóðlist en Ólöf frá Hlöðum kemur síðan og þá þær frænkur, Theodora og Ólína, en raunar er ókleift að segja til um hver orti hvað hvenær því að þær hinar eldri skáldkonur birtu ekki kvæði sín fyrr en á gamals aldri en vel gætu þau verið ort fyrr. Ólöf fer eigin leiðir, notar eingöngu formið en spinnur ekki úr þjóðkvæðum eins og hinar. Það gera aftur á móti Hulda og Theodora, Hulda gefur tóninn en Theodora slípar formið og fullkomnar og er hún meistari þess.

 

Hjá öllum er hinn forni bragur notaður á nýstárlegan hátt og hugmyndaleg nýbreytni þulanna meiri en menn hafa viljað vera láta. Hjá öllum eru skýr nýrómantísk einkenni og hjá Huldu og Theodoru gætir talsverðrar uppreisnargirni þannig að telja má kvæði þeirra andspyrnubókmenntir. Þar er Hulda opinskárri en Theodora notar annan heim sem meðal til uppreisnar eins og fjölmörg erlend skáld þess tíma. Ólína er á sömu nótum og Theodora og ef til vill engin goðgá að ætla að þær hafi þróað háttinn í sameiningu. Þó hefur Ólína ekki fágað nema 2-3 af sínum þulum nógu vel til að þær standist samjöfnuð við þær sem Theodora setti á prent, en finna má hjá henni nýjungar, til að mynda í minningarþulu hennar um Þórð Pálsson lækni frá Borgarnesi, sem er heimspekileg þula í þeim anda sem unnendur Theodoru þekkja.

 

Einkenni þula Ólínu og Theodoru eru þessi: þær eiga sér stað í náttúruheimi sem ýmist er settur fram andstæður mannheimi eða sem sjálfstæð heild, oft er ferðalag í náttúruheim kjarni þulunnar. Náttúruheimurinn er viðsjárverður þeim sem eru utan hans en þó æðri okkar heimi. Í þulum Theodoru er útlegðarminnið ríkjandi, þá er mælt fyrir munn veru sem er föst utan þess heims sem hún tilheyrir. Einnig einkennast þær af frelsisþrá og uppreisn gegn viðjum samfélagsins, ekki síst kvenhlutverkinu. Konur í þulum Theodoru eru gerendur, hafa eigin þrár og langanir en eru ekki aðeins viðföng karla. Sama sést hjá Ólínu sem í þulunni „Margt er það í steininum“ lýsir ástum kvenljóðmælanda og dökkhærðs sveins. Eins og Theodora fjallar Ólína í þulum sínum um öfgar tilveru þar sem á skiptast grátur og söngur: „öðru megin gleði og öðru megin sorg“. Einnig eiga þær sameiginlegt að nota þulurnar til ádeilu, reifa örlög þeirra sem illa verða úti í óréttlátum heimi og er athyglinni þá beint að smælingjunum eins og þessar línur Ólínu sýna:

 

          Ekki girnast allir það, sem þeir hljóta.

          Hver vill skifta á kotungs jóði

          og konungbornu mentafljóði,

          þurru brauði og þungum sjóði

          - það gerir ekki heimurinn -

          hann hugsar meira um haginn sinn.

 

Þannig er óhætt að fullyrða að það eru þulurnar sem einkum munu halda nafni Ólínu Andrésdóttur á lofti, þær eru innihaldsríkur kveðskapur og alvöruþrunginn en ekki léttvægt bull eins og stundum heyrist haldið fram.

 

Obbinn af kvæðum Ólínu er þó ortur í annríki hversdagsins, tækifæriskvæði, minningarkvæði, ljóðabréf, sjálfsprottin kvæði sem eiga rætur í daglegu amstri. Hið sama gildir um Herdísi. Mörg kvæði yrkja þær í tilefni af hátíð, jólum og afmælum eða í gestabækur og til vinkvenna og hafa þá ýmist verið beðnar um að yrkja eða þær koma skilaboðum þannig á framfæri. Þau kvæði eru misjöfn að gerð en eru skýr vitnisburður um ljóðið sem hluta lífsins, tjáningu jafnt hversdags og við hátíðleg tækifæri. Og hagyrðingar voru þær systur góðir.

 

Þær ortu einnig um veraldleg efni í fortíð og nútíð, þar eru kunnust kvæði Ólínu „Breiðfirðinga-vísur“ og „Útnesjamenn“, hið síðarnefnda um Maríukirkju í Vogi og Geirfuglasker, en nokkrar vísur úr því eru oftar en talið verði sungnar við lag Sigvalda Kaldalóns, þær sem eru almenns eðlis. Lagið er fjörlegt og gáskafullt en ljóðið tregablandnara þó að litað sé bjartsýnni þjóðrækni aldamótakynslóðarinnar:

 

          Nú eru þau sokkin í sæ, þessi sker;

          enginn geirfugl heldur

          til í heiminum er.

          En sjómönnunum sunnlensku með siglandi fley

          reist hafa þau bautastein,

          sem brothætt mun ei.

 

          Þjóðin geymir söguna öld eftir öld;

          minning hennar lýsir

          eins og kyndill um kvöld.

 

Hið sama gildir um hin tilvistarlegu kvæði skáldkvennanna. Efni þeirra eru flest á eina lund, áherslan á erfiðleika og þrautir lífsins en á móti kemur trúin, Herdís og Ólína eru heittrúaðar og niðurstaða vangaveltna þeirra um lífið sú að trúin á hjálpræðið sé ljós í myrkri erfiðrar tilveru, eins og í þessu kvæði Ólínu:

 

          Hvað er lífið? Kaldur straumur,

          sem kastar oss í reynsluhaf.

          Hvað er lífið? Glys og glaumur,

          sem gremur þann, er nýtur af.

          Hvað er lífið? Geigvæn gata,

          sem grúfir niðrí dauðans skaut.

          Hvað er lífið? Leið að rata

          á ljósa himindýrðar braut.

 

          Hvað er dauðinn? Deiling stranda

          dýrðar lands og tímans straums,

          fylling vona, vor míns anda,

          vaka og ráðning lífsins draums.

 

Þjáningin er óaðskiljanlegur hluti lífsins, leiðin í himininn er þakin þyrnum. Herdís yrkir:

 

          En þeim, sem aldrei þurfa að gráta

          og þrautir engar beygja,

          verður ljúft að lifa, en sárt að deyja.

 

Þær ala þessa von í brjósti, eftir dauðann hefst öld réttlætisins þar sem böl jarðvistarinnar er bætt. Herdísi og Ólínu er einnig ofarlega í huga eigin ófullkomleiki og tilvistarvandinn. Þannig yrkja þær báðar um „Meðalhófið“ sem þær sjálfar eiga í mestu vandræðum með að finna og raunar eru fleiri dæmi um samnefnd eða því sem næst samnefnd kvæði hjá þeim systrum.

 

Herdís og Ólína Andrésdætur lifðu bókmenntalegu lífi. Þær mynduðu skáldahóp með Theodoru Thoroddsen og þrátt fyrir að dagsins önn leyfði ekki mikil afköst eru þær þannig þátttakendur í formbyltingu þulunnar. Í kvæðum þeirra eru skýr áhrif nýrómantíkur en Ólína hæðist þó að hinum myrku og bölsýnu þáttum hennar í kvæðinu „Jeg heyrði sama daginn tvö skáld lesa upp ljóð sín“. Það er sérstök og glettin bókmenntarýni og sýnir hversu mjög líf þeirra snerist um skáldskap. Einnig yrkir Ólína eftir Matthías Jochumsson og Herdís yrkir tvö kvæði til Davíðs Stefánssonar, í öðru þeirra gagnrýnir hún Svartar fjaðrir fyrir sömu þætti og Ólína finnur að nýrómantík, of mikla áherslu á skuggahliðar tilverunnar.

 

Herdís og Ólína eru dæmi um að merk skáld Íslandssögunnar geta fallið milli stafs og hurðar bókmenntaumræðunnar. Þó að þær nytu virðingar meðal bókmenntamanna, þ. á m. Sigurðar Nordals og Guðmundar Finnbogasonar, í lifanda lífi hafa þær litla umfjöllun hlotið hin síðari ár, undirritaður kannast aðeins við eina stutta grein í afmælisriti og BA-ritgerð. Vonandi mun þó koma að því að bætt verði úr.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30