Tenglar

sunnudagur 24. febrúar 2019 | Sveinn Ragnarsson

Útgerðarsaga feðga - framhald

Bryndís SH 271
Bryndís SH 271

Kafli 8

Ömurleg útreið


Við bræður komum um síðdegis hin 29. ágúst í Hólminn. Ekkert bólaði á Önnu SH 49 og ekkert heyrðist í stöðinni, hvorki svar við kalli eða kall. Ég var með lykil að Skólastígnum og þangað fórum við og affermdum bílinn. Síðan var heilsað uppá mömmu á no 21 og þaðan fórum við með lítinn kíkir út á Bókhlöðuhöfða að svipast um. Skelbátarnir voru að tínast inn, flestir líklega komnir. Hálfráðalaus skimaði ég út hjá Elliðaey eftir litlum bát á stórum haffletinum.

 

Bjarki bróðir var inní P 675 við stöðina og skyndilega verð ég var við að yfir honum lifnar og hann vinkar í ákafa milli þess sem hann er að munda míkrafóninn á Lafayettestöðinni. Hann hafði náð sambandi við Önnuna. Ég tók við og fékk að heyra sólarsöguna í stórum dráttum, en það sem gerst hafði var að eftir að hann fyllti á smurolíu út af Svínanesi sigldi gamli í klukkustund og rúmlega það og var á móts við Látra þegar mikill hvellur kom og vélin steindrap á sér og var föst.

Honum tókst að ná sambandi við Jón yngri í Látrum sem kom fram á lítilli trillu. Við snögga skoðun virtist vélin hafa brætt úr eða brotið sig niður á öðrum cyl. Jón í Látrum bauðst til að draga Önnu inn á kunnuglegar slóðir í Flatey, sem gamli þáði.

 

Þegar þangað kom tók hann til við að opna vélina, en sem betur fer voru sæmileg verkfæri um borð og mig minnir að Hafsteinn í Flatey hafi lánað honum ef vantaði. Við mæltum okkur aftur tíma um kvöldið og þá náði ég að heiman í CB stöðini í P 675. Þá var staðan sú að hann var búinn að opna vélina og fjarlægja allt sem var brotið og skemmt og farinn að setja hana saman, þannig að möguleiki væri að keyra hana á öðrum cyl. Bragð sem hann hafði leikið á Bryndísi SH 136 rúmum 20 árum áður þegar stimpill brotnaði í einum af fjórum cyl í Lister. Og viti menn, þetta tókst um morguninn 30. ágúst lék veðrið enn við og hann lagði af stað úr Flatey eftir stuttan svefn áleiðis suður í Hólm.

 

Eftir rúmlega 4 tíma siglingu var Anna SH 49 í heimahöfn í Stykkishómi eins og laskaður þýskur kafbátur. Auk þessa hafði spennujafnari farið í alternatornum og hann ofhlóð geymana svo sauð á þeim, til að stemma stigu við því höfðum við sett rofa á milli sem gat rofið hleðsluna. 10 mín eftir að gamli var kominn inn úr dyrunum að Skólastíg 16 birtist brosandi yfirkennarinn Gunnar Svanlaugsson og tilkynnti honum mætingu í skólan morguninn eftir, svo það var ekki seinna vænna að komast í Hólminn.

 

En hver var svo útkoman? Jú við öfluðum 370 tonna af þangi að andvirði 130.000 króna sem dugði varla fyrir víxlunum af Önnu SH 49. Ofaná þetta var vélin sennilega ónýt og við höfðum þegar eytt amk 20.000 krónum í nýja talstöð, kompás ofl. Okkur var mikil vandi á höndum.

 

Okkur tókst að greiða upp víxlana uppá 150.000 krónur, en um skuldabréfið í Búðardal varð að semja uppá nýtt. Sem betur fer mættum við fullum skilning hjá Skildi útbússtjóra þó hann yrði fyrir vonbrigðum með að við gætum ekki greitt upp bréfið eins og við ætluðum. Kannski höfðum við misreiknað okkur herfilega. Við hefðum þurft amk 600 tonn til að vera á æskilegum stað.

 

Um veturinn tók við vinna hjá okkur báðum, ég fór í hreppinn fram á vorið 1985. Um veturinn pöntuðum við þá varahluti sem vantaði en þeir kostuðu ef ég man rétt yfir 30.000 krónur. Auk þessa tottuðum við inná bréfið hjá Skildi en það gekk nú ekki vel að mig minnir.

 

Við skoðun kom í ljós að sveifarásinn í Volvo var mjög slitinn og ekki miklar líkur á að gengi að nota þá varahluti sem við höfðum fengið. Um vorið vorum við búnir að setja saman og láta gera við alternatorinn en það kostaði um 6.000 krónur að auki. Um haustið hafði Palli frá Látrum híft okkur á land og uppá Skólastíg, það sama gerði hann um vorið þegar við settum niður og hófum að prufa vélina, en það kom fljótt í ljós að þetta var ekki alveg að ganga og eftir stuttar prufur brotnaði vélin en frekar niður og var þar með ónýt.

 

Nú var hafist handa við að finna aðra vél. Kalli bekkjarbróðir benti okkur á að faðir frænda míns Harðar Karlssonar væri að skipta um vél í samskonar bát útí Ólafsvík, svo við komum okkur í samband og þar kynntumst við þeim mikla heiðursmanni Karli Magnússyni útvegsbónda í Tröð í Fróðárhreppi. Úr varð að hann seldi okkur vélina sem var samskonar Volvo Penta á 25.000 krónur og við máttum leggja upp hjá honum fisk uppí ef við vildum.

 

Hugurinn stefndi á skak sem örugglega hefði verið betri kostur árið áður. Við rendum með kerru útí Fróðárhrepp og sóttum vélina. Síðan tók við 2-3 daga vinna að skipta um vél en það rétt kláraðist fyrir Sjómannadag 1985 og í prufu á Sjómannadaginn fór eitthvað í gírnum sem var við nýju vélina en það svo sem skipti ekki máli, það var góður gír við þá gömlu og það var kostur að eiga hana í varahluti. Loksins var Anna SH 49 klár á handfæri en við auðvitað gátum ekki fjárfest í miklu svo við keyptum litlar Færeyskar stangveiðirúllur og nú var haldið útá Nes að vísu höfðum við hvergi upplegg nema hjá Kalla. Það var komið framyfir miðjan júní og veiði farin að dragast saman útfrá. Þetta gekk því ekki vel og við rétt náðum að fiska fyrir vélinni og en stóð eftir af bréfinu í Búðardal. Þetta var ekki gott.

 

Meðal afreka hjá okkur annars var að skipta um hedd út af Ólafsvík. Vélin tók uppá því að brjóta ventilgorm og ventilinn datt niður á stimpilinn. Við vorum svo heppnir að undir bekk var hedd af gömlu vélinni og við mixuðum þetta í veltingi. En um miðjan júní gáfumst við upp, við fengum lítið og þetta var bara orðið leiðinlegt og ömurlegt. Við ákváðum að selja bátinn og gefast upp í bili amk.

 

Svo merkilegt sem það var settum við bátinn á skrá hjá Brynjari í Bátum og Búnaði og honum var strax sýndur áhugi. Við vorum komnir með hann í Hólminn og í ból í Maðkavík. Um miðjan ágúst 1985 var hann seldur á 300.000 krónur en vegna enn eins óvænts vesens með vélina, urðum við að slá af verðinu um 50.000 krónur. Gamli sigldi honum útí Ólafsvík í skip og norður í Grímsey fór hann og fékk nafnið Máni EA 35, eigendur feðgarnir Haraldur Jóhannesson og Haraldur Haraldsson sem síðar varð þekktur sem Halli Grímseyingur og er nú stórútgerðarmaður í Noregi.

 

Það voru samt stórhuga menn sem kvöddu bátinn sinn og sóru þess eið að vera ekki hættir þegar þeir stóðu á bryggjuni í Ólafsvík í blíðskaparveðri síðla kvölds. Ökuferðinn heim markaði nýtt upphaf sennilega er fall fararheill.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- 

 

Kafli 9

Aftur nýr bátur


Mér hefur alltaf þótt mesta blómaskeiðið í trilluútgerð á Íslandi hafa verið á tímabilinu 1984 til 1994. Á þessum tíma voru að koma nýjar gerðir báta og mikil þróun í allri tækni við veiðar. Bátasmiðjur eins og Bátasmiðja Guðmundar og Trefjar, báðar í Hafnarfirði, ruddu út nýjum trillum á færibandi. Mér fannst þetta tímabil byrja 1985 þegar Sómabáturinn Mar SH 118 kom nýr í Stykkishólm. Strax um vorið hófu þeir handfæraveiðar og það var mokveiði því miður misstum við af þessu en það voru amk 5-6 bátar á skaki þetta vor meðan það voru líklega helmingi færri árið áður. Grásleppan veiddist sem aldrei fyrr og það var mikil hugur í mönnum. Árið eftir kom svo annar nýr Sómi 800, Már SH 56 og fleiri voru að kaupa báta. Þetta var blómatíð og bjart framundan og mikið líf allt árið við höfnina í Stykkishólmi.

 

Eftir að Anna SH var seld fór ég að vinna í Kaupfélaginu sem sendill á Kaupfélagsbitaboxinu litlum Suzuki sendibíl og lagði launin í púkkið fyrir nýtt plan. Miklar pælingar fóru í gang strax í vetrarbyrjun 1985 og hvert matarhlé var vel nýtt í að hringja út og suður. Við áttum nú ekki stóran sjóð eftir að hafa selt Önnu en um áramótin var þetta eitthvað um 250.000 krónur sem við höfðum nurlað saman og var nú kannski ekki til stórra verka og við vorum heldur ekki alveg samstíga frekar en áður með hvaða bát ætti að fá.

 

Það var svo sem ýmislegt til sölu en það allt kostaði það talsvert meira en það sem við áttum fyrir hendi og var það nú amk 1 og hálf LADA ný úr kassanum. Mig langði t.d. í Sóma 800 eða stóran Bátalónssúðbyrðing en hvortveggja var ekki inn hjá gamla. Hann hafði innprentað sér að Sómi væri ekki góður vegna hældrifsins sem var það eina í boði fyrir utan að vísu var kominn einn í Flatey, Hera BA 15 með jetdrifi en það var auðvitað eitthvað dýrara og æ, mér fannst það ekki spennandi því miður.

 

Súðbyrðingur var eins og að nefna snöru í hengds manns húsi. Um nýárið var því ljóst að ekki yrði mikið að gerast sumarið eftir 1986 nema vinna og leggja fyrir pening. En um vorið fórum við svo að velta þessu betur fyrir okkur við vorum sammála um að best væri að fá kannski nýsmíði og gera eitthvað að hluta til sjálfir vonandi sem mest. Um vorið þegar snjóa leysti komumst við að því að hugsanlega væri Bátalón með það sem við gátum báðir fallist á, dekkaðan 5-6 tonna plastbát af Víking gerð. Við gerðum okkur ferð í maí 1986 í Bátalón og skoðuðum nýjan bát 1737 Percy ÍS 777 sem var að öllu leiti kláraður þar. Í kjölfarið á því pöntuðum við plastkláran skrokk eins og það hét sem kom okkur á óvart að var framleiddur af Samtak hf en eigandi þess var þáverandi framkvæmdastjóri Bátalóns Haukur Sveinbjarnarson.

 

Í júlí-ágúst var svo tilbúinn fyrir okkur skrokkur og við fórum suður að taka við honum og ganga frá greiðslum. Við pöntun höfðum við greitt 100,000 krónur af 330.000 sem hann kostaði. Við höfðum notað tíman til að spá í tæki og vélbúnað og höfðum hug á að láta klára allt annað en lúkarinn. Þegar við komum suður í Bátalón fundum við hvorki bátinn né Hauk Sveinbjarnar. Í ljós kom að hann hafði hætt hjá Bátalón það bara gleymdist að láta okkur vita og eins það að Samtak, fyrirtækið hans var alfarið með þetta verkefni fyrir okkur.

 

 Við höfðum uppá honum upp við Kaplakrika þar sem hann var með húsnæði til að steypa skrokkana. Þessa dagsstund fóru fram miklar samningaviðræður. Eins og staðan var hafði hann ekki húsnæði til að klára dæmið en var að útvega sér það og svo fór að samningar tókust um að hann kláraði dæmið fyrir 1,4 milljónir með vél, dekkaður án tækja og innréttinga í lúkar. Hann útvegaði okkur 52 hestafla 4 cyl Mitsubishi JMR vél fyrir sama verð og skrokkinn, niðursetta.

 

Í ágústlok 1986 hófst svo lokaþáttur smíðinnar en við þurftum að útvega nauðsynleg siglinga- og fiskileitartæki og stýrisbúnað. Þegar báturinn var afhentur 12 janúar 1987 höfðum við greitt 700.000 krónur af 1,4 milljónum sem reikningurinn hljóðaði uppá og öll tæki sem við höfðum keypt í bátinn kominn um borð. Báturinn fékk af þessu tilefni skipaskrárnúmerið 1777 og nafnið Bryndís og einkennisstafina SH 271, heimahöfn Stykkishólmur.

 ------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Kafli 10

Á nýjum bát í nafla alheimsins, Breiðafirði

 

Ekki man ég því miður nákvæma dagsetningu á því þegar Bryndís SH 271 var sjósett, en það var að mig minnir um miðjan apríl 1987 og þá höfðum við notað tímann og innréttað lúkarinn og sett niður tvær elliðarúllur og rafmagn við þær.

 

Heildarverð bátsins var komið í 2,4 milljónir sem var mikill peningur og við skulduðum ca 1,4 af því. Sómi 800 kostaði aðeins meira eða svipað kannski. Dekkið sjálft í þessum bát var örugglega 3x dýrarara en í Sómanum mig minnir að bara efni og uppsetning á því hafið kostað 175.000 krónur plús lúga.

 

Tækjabúnaður var ein VHF talstöð man ekki tegund, Hondex 1000w litadýptarmælir, Micrologic loran C og gamla góða CBstöðin úr P 675. Fyrsta tækið sem við reyndar keyptum var forláta FM/AM útvarp með kasetttutæki.

 

Fyrsti róðurinn var farinn 2. maí frá Stykkishólmi og svo fórum við nokkra róðra en árangurinn var lítill, það hætti fljótt að gefa sig vorfiskurinn í Breiðafirði. Við vorum ekki búnir að tryggja okkur upplegg nema í Stykkishólmi, svona óbeint hjá Sæborg hf.

 

Þarna um miðjan maí kom annað í ljós, grásleppan veiddist sem aldrei fyrr. Netin voru varla orðin blaut þegar þau voru orðin full af grásleppu. Nú voru góð ráð dýr, ofaná þetta bættist að það var vöntun á hrognum í Stykkishólmi, því þetta vor hafði hrognaverksmiðjan Björg hafið starfsemi og keypti öll hrogn sem að landi komu í Stykkishólmi.

 

Á ótrúlegan og undarlegan hátt var tekin sú ákvörðun, í stað þess að fara á skak, að fara frekar á grásleppu þó í mýflugumynd væri. Við redduðum spili og búnaði fyrir það í hvelli hjá Sjóvélum og eins undarlegt og það kann að hljóma höfðum við dundað okkur við að fella slatta af netum árið áður en ekki voru þau mörg. Kjartan Guðmundsson á Tindum seldi okkur svo ein 20 stk. svo við vorum með einhver 60 stutt net en reglurnar voru svolítið frjálsar svo við hefðum mátt vera með talsvert meira.

 

 Árið 1987 þurfti ekki að sækja um sérstakt leyfi og ekki voru að mig minnir takmörk á netafjölda. Merkilegt nokk lék lánið við okkur, við tókum grásleppuna í júní fram til amk 10. júní og sá litli afli sem við fengum dugði til að fleyta okkur áfram og standa við allar okkar skuldbindingar þvílíkt lán.

 

Við skruppum svo útí Rif eftir grásleppuna, og ætluðum að taka til við það sem frá var horfið, skakið, en því miður var frekar dræm veiði og veðráttan ekki góð og áhuginn ekki mikill, og það litla sem við fengum var aldrei gert upp við okkur.

 

Við skruppum að Galtará á Bryndísini til að máta hana við Kollafjörðinn sem var nú ekki gáfulegt, en svo var siglt í Hólminn og í lok ágúst komumst við nokkra róðra á skak frá Stykkihólmi og kroppuðum rúm 3 tonn. Þetta lofaði góðu.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Kafli 11

Bryndís SH 271


Árið 1988 gekk í garð. Veturinn 1987-88 var 11. og síðasti veturinn hjá föður mínum sem kennari í Stykkishólmi og jafnframt síðasti veturinn fyrir eftirlaun, eftir farsælt starf sem kennari og skólastjóri í Flatey, Grímsey, Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði, Reykhólum og loks í Stykkishólmi frá 1977. Nú átti að einbeita sér að því að gera eitthvað alvöru og áhugavert.

 

Um áramótin varð samfélagið í Stykkishólmi fyrir umtalsverðum skell sem átti eftir að hafa talsverð áhrif á lífið í plássinu og þá er ég að meina miðbænum, þegar kjörbúð Kaupfélagsins var endanlega lokað. Kaupfélag Stykkishólms hafði lagt upp laupana um mitt sumar 1986 og þá tók Kaupfélag Hvammsfjarðar í Búðardal, við rekstri búðarinar og byggingavöruverslunarinar. Í sjálfu sér var Kaupfélag Hvammsfjarðar ekki vel statt heldur og þetta var þungur rekstur í samkeppni við Hólmkjör hina matvöruverslun bæjarins. Vissulega hafði Kaupfélagið sérstöðu að vera í gamla miðbænum þar meginn þorri starfsemi og tekna var tvö frystihús og höfnin full af bátum í þá daga.

 

Persónulega fannst mér miðbær Stykkishólms aldrei bera sitt barr eftir þetta en þarna er nú Ráðhús bæjarins í dag. Kaupfélag Hvammsfjarðar rak svo byggingavörubúðina í Langaskúrnum þar til það fór á hausinn og Skipavík tók við rekstri hennar og hefur hana enn á hendi í dag, 30 árum síðar en síðustu amk. 10 árin á nýjum stað. Þennan vetur starfaði ég aftur hjá Kaupfélaginu sem bílstjóri á litla gula Suzuki bitaboxinu P 2494 og þegar kjörbúðini var lokað fór ég yfir og var fram í marslok hjá þeim Indriða og Þórði, sem þá voru orðinir einu starfmenn Kaupfélagsins í Hólminum. Sögu tæplega 70 ára verslunarveldis var að ljúka.

 

Við byrjuðum snemma að róa og náðum nokkrum tonnum af þorski áður en við byrjuðum á grásleppunni. Því miður voru blikur á lofti varðandi sölu á grásleppuafurðum og mig minnir að hrognaverksmiðjan Björg hafi átt talsverðar birgðir eftir frá góða árinu áður. Samt sem áður ætluðu þeir að taka við hrognum en á 33% lægra verði en árið áður.

 

Við höfðum bætt netakostinn um rúman helming og nú var Bjarki bróðir kallaður til úr Grundarfirði til góðra verka. Í sem stystu máli þá var vertíðin ömurleg og afraksturinn eftir því. Veiðin var eitthvað slakari, en það sem gerði illt virkilega slæmt var að tíðarfarið var skelfilegt, stanslausar vestan og suðvestan áttir með þungum sjó sem keyrði trossurnar hvað eftir annað á kaf í drulluna, svo að endingu vorum við komnir með megnið inn á sandbotninn á Eyrunum í Suðurflóanum norður úr Langeyjunum, þar var friður fyrir drulluni og hægt að athafna sig og draga í talsverðum kalda. Samt var það líka svo að það var eins og því lengur sem vestlægu áttirnar héldust þá minnkaði veiðin í samræmi við það.

 

Ofaná þetta höfðu gengi og vextir hækkað og þar með afborganir af lánum, svo þetta var orðið þungt. Í lok júní gáfumst við upp og spóluðum öllu upp í skyndi og settum rúllurnar um borð í snatri. Við vorum svo á skaki að mestu fram í október, í mjög erfiðri tíð fram í byrjun október og lítið gekk annað en kropp, þó stundum kæmu góðir dagar en þeir voru teljandi á fingrum annarar handar.

 

Haustið 1988 var líklega það hrikalegasta veðurfarslega séð sem við fengum alla okkar tíð saman í útgerð. Þetta var ekki gott en við bara unnum úr því. Við vorum ekki eins vel í stakk búnir að standa við okkar skuldbindingar og árið áður, en engu að síður gátum við lækkað skuldirnar talsvert á okkar kostnað því launin voru ekki mikil hjá okkur fyrir vikið. Það sem við réðum ekki við gátum við þökk sé góðum mönnum þeim Hauki í Samtak og Skildi Stefánssyni í Búnaðarbankanum í Búðardal.

 

Yfir línuna voru talsverð vanskil hjá Hauki skildist mér vegna þess að slæmt tíðarfar hafði að sjálfsögðu haft áhrif allstaðar, Menn eins Skjöld í Búðardal hefði þurft að klóna. Lífið væri mun léttara í dag ef við ættum slíka öðlinga. Hann reyndist okkur betur en margur, og sýndi okkur endalausan skilning og við að sjálfsögðu gerðum okkar besta á móti, þó við gengjum langt fram yfir skynsemi. Þetta var bara klikkun, hrein og klár klikkun, en hvað mig varðar þá var þetta lífið og meðan maður dró andan bjargaðist þetta.

 

Því miður hafði ég núna ekki að miklu að ganga með vinnu á dauða tímanum og það var ekki til að gera ástandið betra. Afrakstur 6 mánaða úthalds var ekki stór, 10 tonn af þorski og 20 tunnur af grásleppu!! OMG hvernig lifði maður þetta af.

Við lögðum Bryndísi SH 271 það sem eftir lifði ársins og hertum sultarólina. Það má að sjálfsögðu alls ekki kenna ótíð eingöngu um hvernig gekk, reynsluleysi var líka stór þáttur, en auðvitað varð maður reynslunni ríkari.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- 

 

Kafli 12

Og áfram rúllar, bjartara framundan


Árið 1989 rann upp og sól fór að hækka aftur. Hækkandi sól fylgir alltaf bjartsýni og gleði. Eftir vetur að hætti Steingríms Hermanssonar fórum við að gera Bryndísi klára í næsta úthald. Stöðugt bættist í trilluflotan í Stykkishólmi og það var gleðiefni. Vorið 1989 kom til dæmis gamli Kári SH 78 á veiðar aftur, upphafið af þeirri útgerð sem enn er til, 30 árum seinna.

 

En auðvitað fóru bátar líka, Mar SH 118 sem ég hef alltaf hugsað sem upphafspunktinn að Vorinu í Stykkishólmi 4 árum áður, fór 1987 og í staðinn kom 9,9 tonna gullfallegur súðbyrðingur smíðaður af Stjána Slipp í Stykkishólmi, síðasti báturinn sem sá heiðursmaður smíðaði á sínum ferli sem skipasmiður. Því miður lenti útgerð hans í hremmingum eins og við, sem kostaði það að mér skilst að innan við ári eftir sjósetningu þurfti að selja hann í skiptum fyrir minni bát. Það gleðilega er að þessi bátur er enþá til sem Brimir SU 158 og í gær var ég að horfa á mynd af honum eins og mublu við bryggju á Fáskrúðsfirði.

Þegar ég segi Vorið í Stykkishólmi 1985, á ég við þá breytingu sem varð í kjölfarið af vaxandi trilluútgerð þaðan og ég er stoltur að hafa átt þátt í því. Reyndar var þetta svona um allan innanverðan Breiðafjörðinn, þessa gullkistu sem hann var og er enn.

 

Við hófum róðra í mars en veiðin var dræm. Eftir duttlunga í náttúrunni árið áður var grunnslóðin steindauð þ.e. innanverður Breiðafjörðurinn. Mig minnir að það hafi ekki verið beisið hjá netabátunum heldur þessa vertíð. Við lögðum því fyrir mánaðamót apríl-maí og hófum strax að kroppa grásleppu. Verðið hafði hækkað eitthvað um 10% eða svo, og þetta var bara alls ekki svo slæmt því tíðin var betri en árið áður. Við vorum 2 og hálfan mánuð og kroppuðum 30 tunnur í 120 net.

Eftir hremmingar ársins á undan vorum við sáttir og til að bæta ofaná þetta hafði ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ákveðið að bjóða þeim trillukörlum sem voru í vandræðum með greiðslur af lánum, fyrirgreiðslu í formi láns til 6 ára frá Byggðastofnunn með veði í bátunum. Við sóttum um og fengum 700.000 krónur sem dugaði til að hreinsa upp öll lán og vanskil, sem voru reyndar í samkomulagi, og bæta við þetta einni DNG nýrri tölvurúllu, en við vorum frá upphafi bara búnir að vera með 2 Elliðarúllurnar sem voru í fínu lagi.

 

Við tókum okkur gott frí í mánuð og fórum svo nokkra prufuróðra í lok ágúst, en það var hálfdapurt svo við græjuðum okkur nokkra haukalóðarstubba og lögðum fyrir lúðu í september. Við höfðum svo sem prófað það árið áður en ekki gengið neitt. Meðan lánið lék ekki við okkur 1988 virtist það ætla að snúast okkur í hag 1989, því við fengum smávegis af lúðu í september og viti menn, eftir mjög slæma tíð í byrjun október fór að glæðast veiði á handfærin og nóvember var bara veisla á grunnslóðinni innan um hörpuskelbátana.

 

Mikið var ég með ljótan hiksta það tímabil, en við þvældumst ábyggilega mikið fyrir þeim. Samt kvörtuðu þeir ekki og ég vona bara að þeir trúi að við höfum verið með slökkt á talstöðinni. Við kvöddum því gott en kalt ár og 1990 tók við.

Við byrjuðum veiðar um mánaðamót mars-apríl og það var bara líflegt á skakinu. Tímamót urðu þegar við fórum ásamt fleirum að senda aflann suður á Faxamarkað með mun hærra verði og gert upp vikulega að fullu. Eins og árið áður fjölgaði enn í flotanum og það var mikið og iðandi fjör í höfninni.

 

Þetta vor reikna ég með að fleiri bátar hafi verið á þorskveiðum með handfærum og línu en á grásleppu. Í lok apríl fórum við að róa með línustubb og gekk vel en við hættum því um 20. maí vegna aðstöðuleysis, en handfæraveiðin lofaði góðu og við sáum fram á að vera lausir frá grásleppuni að sinni.

 

Júní og júlí voru fínir mánuðir á skakinu frá Stykkishólmi, um 9 tonn samanlagt og góð verð á Faxa. Í ágúst tókum við frí, og september og október voru frekar rýrir. Við pöntuðum okkur radar og nýtt mastur og kappa á Bryndísi, auk þess sem við létum taka gírinn upp í byrjun október. Um miðjan október var svo aftur byrjað á skaki með nýupptekinn gír, breytt stýrishúsþak með nýju mastri og nýjum radar, og vá það var meiri veisla fram í lok nóvember, en síðustu róðrana í október fórum við með línu og fengum gott. Árið endaði í 25 tonnum að verðmæti 1,6 milljón króna.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------


Kafli 13

Bryndís SH 271 kveður


Eftir tvö bara góð ár og ljúfa siglingu, rann upp árið 1991.

 

Ég verð að viðurkenna að stundum var maður ekki alveg að höndla hlutina. Í mars var góð veiði á fjarrslóðini, 2-3 tíma siglingu á 7 hnútunum. Því miður höndluðum við það bara ekki þó tíð væri góð. Við vorum vanari að hafa þetta nær og eyjarnar í bakgrunni. Því var mars og apríl ónýtur hjá okkur að mestu og við pirruðum okkur á því að hafa ekki betri gang.

 

Nú var gamli farinn að viðurkenna að það var svolítið mislukkað að hafa bara ekki fengið sér Sóma eins og allir hinir. Þetta var eins og að labba á járnhurð. Við veltum þessu orðið talsvert fyrir okkur en það var amk. milljón króna munur á okkar bát og góðum Sóma auk þess sem þyrfti að selja Bryndísi fyrst. Síðan var þetta bara misslæmt kropp það sem eftir var ársins og tölur ætla ég ekki að nefna þetta árið hvað þá næsta ár. Nóvember sem hafði verið góður síðustu 2 ár var alveg hörmung, því tíðarfarið var slæmt og ef það gaf fékkst ekki bein. Ofan á þetta var byrjað að þrengja verulega að smábátum og bara það eitt og sér var frekar ógnvekjandi.

 

Það er með ólíkindum hvað alþingismenn eru tilbúnir að ganga langt fyrir eina helvítis asnagulrót í boði þeirra sem yfir peningunum ráða jafnvel þó þeir eigi þá ekki. LÍÚ með Kristján Ragnarsson í farabroddi hóf skæruhernað gegn þessum geira sjómennsku og útgerðar og það jók hvorki ánægjuna eða bjartsýnina. Þeim óx mjög í augum hvað þessi floti hafði stækkað og tæknivæddist og það virtist líka fara í taugarnar á þeim hvað þetta skilaði mikilli atvinnu sem kannski gerði þeim erfitt fyrir að manna ryðkláfana sína.

 

Um haustið var Bryndís auglýst til sölu eða í skiptum fyrir Sóma 700 eða 800. Við höfðum um sumarið bætt við annari DNG rúllu og ásett verð var 4,5 milljónir. Lengi vel gekk nú ekki mikið en eftir áramót 1992 fóru óvæntir hlutir að gerast. Ungur Patreksfirðingur búsettur í Garðabæ hafði samband og bauð okkur að skipta á Sóma 700 bát sem hann átti og Bryndísi. Þetta hljómaði vel því við skulduðum um 500.000 kr en hjá Byggðastofnunn og tilboð hans hljómaði uppá að slétt skipti og hann tæki yfir Byggðastofnunarlánið en við héldum grásleppuleyfinu og spilinu. Samningar tókust og 29. janúar skrifuðum við undir og gengum frá kaupunum í Hyrnuni í Borgarnesi. Já þetta var stuð og stemming, leynifundur í Borgarnesi, manni leið bara eins og sægreifa loksins. Sóminn hét Lóa RE 328, skipaskrárnúmer 6528 og nú fékk hún nafnið Sædís SH 128.

 

Þessi bátur var búinn 165 hestafla BMW og smíðaður 1984, einn af fyrstu bátunum þessarar gerðar. Meira að segja raðnúmerið er 28 frá Bátasmiðjunni. Seinna fékk hann svo símanúmer sem endaði á 28. Honum fylgdu 3 sænskar tölvurúllur, loran, Ratheon dýptarmælir í svarthvítu og reyndar ekki nema 100W en merkilegt nok hann dugði og VHF sömu gerðar og mig minnir einhver rosalegur CB hlunkur sem virkaði illa.

 

Hann var nýdekkaður með palladekki og mjög sportlega innréttaður fram í lúkar, plussklæddur í hólf og gólf og ég verð að segja að plássið í þessum bátum fram í er alveg einstaklega rúmt og þægilegt. Fyrir nokkrum dögum fór ég og skoðaði bát, gamla Sörla ÍS 601 sem búið er að breyta mikið og er Víkingur eins og Bryndís SH 271 var, en lúkarinn hefur ekki verið hækkaður eins og stýrishúsið og þetta var eins og að skríða ofan í músarholu.

 

Það lá vel á okkur í febrúar þegar við fengum bátinn og mikil ástæða til bjartsýni.

  

  

 

 

  

 

 

Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31