Víðfeðmi andans
Jóhannes úr Kötlum: Formáli að ljóðakverinu Gullregn úr ljóðum Matthíasar Jochumssonar útg. 1966.
Séra Matthías fæddist að Skógum í Þorskafirði 11. nóvember 1835, sonur hjónanna þar, Jochums bónda Magnússonar og Þóru Einarsdóttur, sem bæði voru komin af merkum breiðfirzkum ættum. Þau voru andlegt atgervisfólk hvort á sína vísu, en bjuggu lengstum við þröngan kost, þar sem ómegð var ærin og harðindi tíð, en margförult um Skóga og mikil gestrisni.
Matthías var hinn þriðji að aldri bræðranna þar á bænum og ólst upp með foreldrum sínum fyrsta áratug ævinnar, en fór þá í vistir, fyrst í nágrenninu, en síðan til séra Guðmundar móðurbróður síns, sem um þær mundir fluttist að Kvennabrekku í Dölum.
Þar dvaldi hann fram yfir fermingu, en ekki prísaði hann sig með öllu sælan undir handarjaðri frænda síns, því enda þótt hann kynni vel að meta mannkosti hans, var klerkur kappsmaður um búsýslu, að hann hélt drengnum meir til vinnu en náms.
Sextán ára gamall hvarf svo Matthías vestur í Flatey, þar sem hann hóf störf við verzlun föðurfrænda síns, Sigurðar Jónssonar, en hann var tengdasonur Brynjólfs Bogasonar, sem þá var einn ástsælasti höfðingi þar vestra.
Skipti nú heldur en ekki um hagi, því hér var hann kominn sem í ný foreldrahús, auk þess sem hann naut góðvildar og fyrirgreiðslu þess ágæta menntafólks sem búsett var þar í eynni. Kom loks þar, að það styrkti hann til utanfarar, þegar hann var ári betur en tvítugur og dvaldi hann þá vetrarlangt í Kaupmannahöfn.
Á þessum árum hafði honum vaxið svo andlegt ásmegin, að næsta haust bauðst Brynjólfur kaupmaður til að kosta hann í skóla - og það raunar ekki síst fyrir tilstilli Þuríðar Kúld, sem fljótt hafði séð hvað í pilti bjó og studdi hann til frama sem hún mátti.
Stundaði hann nú undirbúningsnám hjá séra Eiríki, manni Þuríðar, næstu tvo vetur, en verzlunarstörf eða sjómennsku á sumrin. Síðan settist hann í þriðja bekk latínuskólans haustið 1859 - þá orðinn 24 ára gamall.
Snemma hafði borið á skáldskaparhneigð hjá Matthíasi, en nú tvíefldist hún er í skólann var komið og gerðist hann þar brátt mestur hagsmiður bragar og kvað ótrauður fyrir minnum.
Sumarið 1861 ferðaðist hann með kvekurum vítt um byggðir og öræfi landsins og mun sú reynsla hafa orðið kveikjan að Útilegumönnunum, sjónleiknum um Skugga-Svein, sem sýndur var í skólanum veturinn eftir og varð honum síðar einna drýgstur til vinsælda og þjóðfrægðar um langa hríð.
Stúdentsprófi lauk Matthías á sínu þrítugasta aldursári, sat þar næst tvo vetur í prestaskólanum og vígðist síðan til Kjalarnessþinga á hvítasunnudag 1867. Settist hann að í Móum ásamt konu sinni, Elínu Sigríði Knudsen, sem hann hafði kvongast árið áður. Hún hafði aldrei orðið fullheil eftir höfuðmein, sem hún tók á unga aldri, enda lézt hún á jólum eftir aðeins tveggja ára sambúð þeirra hjóna.
Tveim árum síðar kvæntist séra Matthías að nýju og nú Ingveldi, dóttur Ólafs E. Johnsens prófasts á Stað á Reykjanesi, en hann var náfrændi Jóns forseta og náinn heimilisvinur þess Skógafólks. Það hjónaband entist enn skemur, því þessa konu missti hann úr lungnabólgu eftir tæpt ár.
Eftir þessi miklu áföll undi hann eigi fyrir harms sakir þar heima í Móum, heldur byggði jörðina og fékk leyfi til að hverfa frá brauðinu um sinn. Hélt hann síðan utan, fyrst til Englands, en þar næst til Danmerkur og Noregs, og var nær árlangt í þeirri för.
Ekki hafði honum þó auðnazt það jafnvægi að hann mætti staðnæmast til lengdar á Kjalarnesi og sagði hann lausu brauðinu árið eftir og lét enn í haf til Englands. Dvaldi hann þar að mestu þann vetur. Eins og nærri má geta urðu þessar utanfarir slíkum manni sem séra Matthíasi í senn reynslubrunnur og harmabót. Hann eignaðist vini hvar sem hann fór og kynntist ýmsum helztu frumkvöðlun mennta og lista í gistilöndum sínum, sem og ýmsum stofnunum og stefnum samtíðarinnar úti í hinum stóra heimi.
Séra Matthías kom heim úr þessari þriðju utanför sinni þjóðhátíðarsumarið 1874 og varð þá eitt af fyrstu verkum hans að yrkja sjö minni í tilefni af hátíðinni - „og flest sama daginn“ eins og hann segir sjálfur í minningum sínum.
Árið eftir kvæntist hann í þriðja sinn. Hét sú kona Guðrún Runólfsdóttir og var frá Saurbæ á Kjalarnesi, en bróðir hennar var giftur systur séra Matthíasar. Lifði Guðrún mann sinn og eignaðist með honum ellefu börn.
Það hafði orðið að ráði með tilstyrk vina séra Matthíasar erlendis að hann festi kaup á blaðinu Þjóðólfi og gerðist ritstjóri þess. Settist hann nú að í Reykjavík og varð blaðamennskan aðalstarf hans þar næstu sjö árin, en auk þess fékkst hann nokkuð við tímakennslu og sitthvað fleira, þar til hann seldi blaðið og gerðist prestur að Odda á Rangárvöllum. Bjó hann þar við allmikla rausn um sex ára skeið.
En er harðæri kreppti mjög að þar eystra, tók að hvarfla að honum að skipta um set og að ráði landshöfðingja sótti hann um Akureyrarbrauð og fékk það. Kostaði sá tilflutningur ærna örðugleika og einnig urðu fyrstu ár hans þar nyrðra með ýmsum hætti heldur óyndisleg. En smám saman rættist úr um hag hans og frægðarorð og um aldamótin sagði hann lausu kallinu, en naut eftir það skáldalauna frá Alþingi.
Hann bjó þó áfram á Akureyri til æviloka og fór svo, að á efri árum sínum hlotnaðist honum óskoruð ástsæld bæjarbúa, sem og þjóðarinnar allrar, er nú taldi hann nær einróma höfuðskáld sitt og andlegan höfðingja. Kom þetta meðal annars ljóslega fram á 75 og 80 ára afmælum hans, er honum voru haldin samsæti og auðsýnd margvísleg önnur sæmd.
Enda þótt séra Matthías ætti lengstum við vinsældir safnaðanna að búa í klerkdómi sínum og ekkert síðari tíma skáld hafi ort innilegri trúarljóð en hann, þá átti hann oftlega í hörðu sálarstríði á þeim vettvangi.
Andlegt víðfeðmi hans var slíkt, að hann átti jafnan örðugt með að sætta sig við „bókstaf fræðanna“ og var af þeim sökum stundum litinn hornauga af rétttrúaðri stéttarbræðrum sínum.
Svipuðu máli gegndi um þjóðmálaviðhorf hans: einnig þar kunni hann lítt að hlíta fastmótuðum stefnuskrám og kaus heldur að vera menningarlegur mannasættir en flokkastreitumaður.
Það má því með nokkrum rétti segja, að hvorki prestsstarfið né blaðamennskan hafi veitt honum það svigrúm sem andlegu vængjataki hans hæfði. Það var í skáldskapnum einum að hann gat orðið fullkomlega gagntekinn þeim „guðmóði mannelsku, svo og lotning fyrir vegsemd hins frjálsa manneðlis“ sem hann talar um á einum stað í söguköflum sínum. Í því ríki opinberaðist honum mátturinn og dýrðin.
Ljóðmæli séra Matthíasar voru fyrst gefin út 1884. Grettisljóð hans birtust í sérstakri bók 1897. Á fyrsta áratug þessarar aldar kom svo út í fimm bindum heildarútgáfa af ljóðum hans, frumsömdum og þýddum, önnur aukin í einu bindi 1936 og hin þriðja í tveim bindum 1956-58. Auk þess hafa úrvöl kvæða hans verið gefin út nokkrum sinnum.
Þótt séra Matthías reyndi nokkuð við leikritagerð síðar á ævinni, einkum af tækifærisbundnum tilefnum, þá var það skólaverk hans um Skugga-Svein sem eitt náði þjóðarhylli í þeirri grein. Helztu sjónleikir hans aðrir eru Helgi magri og Jón Arason.
Af öðrum ritum hans í lausu máli má nefna þrjár ferðabækur: Chicagóför mín, Frá Danmörku og Ferð um fornar stöðvar. En merkast verður þó að teljast ágrip endurminninga hans fram eftir ævi: Sögukaflar af sjálfum mér. Bréf hans hafa og verið gefin út, en auk þess á hann auðvitað fjölda greina í blöðum og tímaritum.
Þrátt fyrir ærna örðugleika lagði séra Matthías alla tíð mikið kapp á að halda sem órofnustu sambandi við menningarlindir umheimsins, las feiknin öll af erlendum bókmenntum og brá sér utan eigi sjaldnar en ellefu sinnum um ævina, sem til fádæma mátti teljast á hans dögum. Hann var einnig ótrúlega mikilvirkur við að snara öndvegisverkum á íslenzka tungu og náði þar oft glæsilegum árangri.
Af leikritum þýddi hann Hamlet, Macbeth, Othelló og Rómeó og Júlíu eftir Shakespeare, Manfred eftir Byron og Brand eftir Ibsen. Þá þýddi hann Sögur herlæknisins eftir Topelius og kvæðabálkinn Friðþjófssögu eftir Tegnér, auk fjölda ljóða eftir fræg skáld af ýmsu þjóðerni - gaf meðal annars út þýðingasafnið Svanhvít, ásamt vini sínum og skáldbróður Steingrími Thorsteinssyni.
Það orð hefur löngum legið á, að séra Matthías hafi verið skálda mistækastur í ljóðagerð sinni og má það víst til sanns vegar færa, enda var hann síyrkjandi og þá margvíslegum skilyrðum háð, hvernig hann var fyrirkallaður í það og það skiptið. Hitt er eigi að síður trúa mín að aldrei hafi innblásnara skáld og andríkara verið uppi á Íslandi.
Innlifun hans í tungu og sögu þjóðarinnar var slík, að þar sindraði allt í spám og teiknum, þegar bezt lét. Hinn hlýi, falslausi faðmur hans umlukti þá landið allt í blíðu sem stríðu, kynslóðir þess og örlagavef. En jafnframt var hann fordómalaus heimsborgari: hvar í rúmi og tíma sem hann rakst á mikinn persónuleika eða stórbrotna hugsun, þar var hann kominn með logstafi sína, og það böl né sá smælingi var ekki til á jörðu, að hann vildi ekki freista þar líknstarfa.
Hann var annarsvegar búinn nær tröllauknu atgervi til sálar og líkama, en hinsvegar viðkvæmur og umkomulaus eins og hvítvoðungur. Stundum virtust honum allir vegir færir, stundum lá honum við sturlun. Geð hans sveiflaðist löngum milli upphafins fagnaðar og yfirþyrmandi harms. Honum hefur án alls efa oft veitzt erfitt að hemja andstæðurnar í eðli sínu - og var þó öll skáldlist hans þrotlaus leit að varanlegum sálarfriði.
Hann elskaði þessa jarðnesku tilveru og gat ekki hugsað sér hana án tilgangs og sigurs í lífi og dauða. Og í öllum sínum háleitustu ljóðum kveður hann sig í sátt við sjálfan sig og þann guð sem sló hörpu hans. En það var ekki neinn lögmálsguð, heldur ó guð vors lands, [...] - sá lífs og alda faðir sem meðtekur ekki önnur orð en þau sem flogin eru upp úr dýpstu auðmýkt hjartans. Hið litla barn þessa guðs var stórskáldið Matthías Jochumsson.