Allt sem ég hef misst!
Þorskafjörður, Teigsskógur, Hallsteinsnes og Djúpifjörður
Gróneshólmar, Melanes, Kraká og Gufufjörður,
er ég hugsa um þetta verð ég hræðilega niðurdreginn,
allar hríslurnar og arnarhreiðrin sem fara undir veginn.
Andvaka um nætur,
með enga matarlyst,
það eina sem ég hugsa um
er allt sem ég hef misst.
Í Kaupfélagið fór ég að kaupa olíu og staura,
í Kaupfélaginu ég átti alla mína aura.
Kaupfélagið hætt, þó komið hafi kaupmannsálfur,
og nú verð ég að sjá alveg um mig sjálfur.
Andvaka um nætur ...
Hreppsnefndin hún byrjaði með stæl, og hreinsun stóra,
og hrakti burtu Einar okkar sveitarstjóra.
Aldrei sit ég framar með Einari á fundi,
og ekki heldur allsber um miðja nótt í sundi.
Andvaka um nætur ...
Fátt er hérna skemmtilegt sem skeður,
og skelfing alltaf drullukalt og hríðarveður.
Ég heyrði góðan brandara eins og gengur,
en þið fáið ekki að heyra hann, ég man hann ekki lengur.
Andvaka um nætur
í Álftalandi gist.
Ekkert var eins dýrmætt,
og allt sem ég hef misst!
- Höfundur: Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í Geiradal.
Bragur þessi var „barinn saman", eins og höfundur kemst að orði, fyrir þorrablót Reykhólahrepps 2008. „Kannski er hann helst ádeila á neikvæðnina, þ.e. hvað okkur hættir svo til að horfa á það sem er farið eða búið, en gáum ekki að tækifærunum sem þá skapast."