Annáll fluttur á þorrablóti Reykhólahrepps 2009
Mikið er gaman að sjá svona mikið af fallegu og skemmtilegu fólki, það er bara ekki hægt að hugsa sér betri félagsskap. Það er oft sagt að maður eigi að horfa fram á veginn en velta sér ekki upp úr því sem liðið er. Já, „komandi tíð mun verða hörð, en bærileg“. Þessi spá hefur oft ræst, enda sennilega byggð á einhverju sem Björn Jörundur hefur þekkt úr fortíðinni.
Afkoma sauðfjárbænda hefur gjarna verið talin í lakara lagi. Það er af því að framleiðslukostnaður er meiri en afurðaverð. Ef við rýnum í rekstur meðalbús hér í sveit á síðasta ári, kemur í ljós að það er nálægt sannleikanum. Ekki verður tekið fyrir eitt ákveðið bú, því þannig næst best yfirsýn.
Í fyrrahaust var safnað saman smálömbum og vanmetaskepnum á Reykjanesinu og Hlynur flutti það á Heiðnareynni vestur í Fjarðareyjar. Eðlilegt er að reikna kostnað við það eins og hafrannsóknarskip því til stóð að Hlynur og Jóhannes færu í síldarleit hér inn um alla firði, en til þess kom nú ekki vegna þess að síldin týndist aldrei.
Þegar féð var sótt, var sami tilkostnaður að viðbættri pottflösku af rommi.
Á sauðburði er bagalegt hve fáliðað orðið er á bæjum, og þá þarf að ráða vökumenn, þar má reyndar ná dálitlum sparnaði ef þeir drekka ekki bjór. Um dánarhlutfall lamba á Kambi má lesa í júníblaði Séð og heyrt, en þar er haft eftir Karli bónda, að vel innan við 60% vanhöld hefðu orðið.
Að loknum sauðburði þarf að flytja féð í sumarhaga. Það gerist þannig að menn keyra fé sínu sem lengst í burtu. Ekki spillir ef hægt er að lauma einum og einum túnþjófi með. Þeir sem fá svoleiðis heimsóknir taka yfirleitt túnþjófana og keyra með þá upp á Þorskafjarðarheiði eða enn lengra, og það kostar kr. 110 m. vsk. pr. km. Þessir túnþjófaflutningar standa allt sumarið, fram að leitum, en þá snýst dæmið við, flutningarnir halda áfram, en nú sækja menn féð og flytja heim.
Áður hefur verið fjallað um færslu Kinnarstaðaréttar út á Reykjanes, en horfið hefur verið frá því af nokkrum ástæðum. GPS-mælingar sýna að miðjan á Reykjanesinu er ekki á réttum stað, en til stóð að setja réttina miðja vegu milli Grundar og Staðar. Miðjan sem alltaf var miðað við var náttúrlega við Miðjanes, en sú er alls ekki raunin. Önnur ástæða er að ekkert fé gengur lengur á Reykjanesinu, þannig að réttin verður sennilega sett fram á Þorskafjarðarheiði eða á Reiphólsfjöllin.
En ég var að tala um afkomu bænda. Smalar, vökumenn og aðrir sem vinna hjá bændum fá yfirleitt borgað í kjöti og þá er ekkert eftir til að leggja inn.
Í sumar var haldið brúðkaup sem verður vonandi lengi í minnum haft. Gefin voru saman Hrefna Hugosdóttir og Stefán Magnússon - stundum kallaður Stefán 3. eins og kóngur, ég hef stundum kallað hann Hara-bróðurinn - hér í Reykhólakirkju, og var samdóma álit viðstaddra að magnaðri athöfn af þessu tagi hefði aldrei farið fram, að minnsta kosti ekki við innanverðan Breiðafjörð. Stefán hefur greiðan aðgang að tónlistarfólki, og var það óspart nýtt, bæði við athöfnina sjálfa og ekki síður í veislunni. Þar sannaðist að tónlist er afar heilsusamleg, því þegar Lilja á Grund fór heim úr veislunni gleymdi hún göngugrindinni sinni.
Brúðhjónunum var ekið á gamla Miðjanesheyvagninum, sem Hugo dró á Grundarnallanum og Magnús ók Kubbnum frá Hofsstöðum á eftir, og þannig mynduðu þeir heiðursfylkingu. Óvíst að nokkurn tíma hafi verið fluttur dýrmætari farmur á vagninum gamla á Miðjanesi.
Veislan var haldin hér í þessu húsi, og eins og brúðkaupsveislum er lýst í gömlum sögum stóð hún í marga daga. Það eru víst mikil meðmæli með þessu húsi, að það skyldi þola allan tónlistarflutninginn, en hann var þannig að bæði Hlynur Þór og Matthías hefðu getað notið hans heima hjá sér.
Þegar fréttist lengra burtu að það hefði verið brúðkaup á Reykhólum, rigndi hamingjuóskum yfir Stebba á Seljanesi, og sumir gerðu sér ferð upp í Grafarvog til að berja brúðina augum.
Í Þörungaverksmiðjunni voru framkvæmdastjóraskipti, Halldór hætti, og við tók Atli. Halldór var lengi að hætta, og lengi að byrja í nýju starfi, það skaraðist. Hann fór að vinna hjá byggingavöruversluninni Bauhaus, sem á samræmdar verslanir um alla Evrópu, en þeir byggðu sitt stærsta vöruhús hér á Íslandi, þetta var alltsvo í sumar. Þarna átti að vera stór vinnustaður, en nú er Halldór eini starfsmaðurinn. Vinnustaðurinn er reyndar stór í fermetrum talið.
Atli kom hingað frá Bretlandi, þar sem hann vann við flugrekstur. Á þessum síðustu og viðsjárverðustu tímum þurfa menn í því fagi að kunna að bregðast við hryðjuverkaógn. Það þótti góður bakgrunnur fyrir mann sem þarf að vinna með þangskurðarmönnum.
Í haust var haldinn hér fundur og kynnt svonefnd vaxtarsprotaverkefni, og boðið upp á námskeið í framhaldi af því. Gestir á þessum fundi voru hjón frá Möðrudal á Fjöllum, mikið dugnaðarfólk sem hefur byggt upp ferðaþjónustu og heimavinnslu afurða af dugnaði og hagsýni. Þau sátu svona námskeið, en voru byrjuð á sinni uppbyggingu áður. Það var mikil hvatning þegar bóndinn sagði að ef hann hefði farið á svona námskeið áður en þau hófu uppbygginguna, hefði hann aldrei byrjað á því.
Þarna var líka Kjartan Ragnarsson frá Landnámssetrinu í Borgarnesi. Hans erindi hét: Að finna sína eigin fjólubláu kú. Það hefði nú kannski verið eitthvað fyrir Herdísi, því henni hefur gengið nógu illa að finna sínar kýr þó þær væru bara rauðar.
Það er skemmst frá því að segja, að þátttaka í þessu námskeiði var með ólíkindum góð, og fjölbreytt og frumleg verkefni sem fólk vann þar.
Strax í upphafi var lögð rík þagnarskylda á alla sem sátu námskeiðið. Ég ætla nú samt að brjóta þennan trúnað.
Á námskeiðinu var aðalverkefnið að búa til viðskiptaáætlun um sína hugmynd. Tilgangur viðskiptaáætlunar er að sannfæra einhvern sem á peninga um að gáfulegt sé leggja þá í þetta tiltekna verkefni. Hér um pláss hafa menn sem hafa léð máls á því að eyða pening í eitthvað annað en bíla og gervihnattadiska verið álitnir meira en lítið bilaðir. Hvaða heilvita maður leggur t.d. fjármuni í elliheimili fyrir hross? Afsláttarhestar eru yfirleitt étnir og það kostar ekki mikið. Eða örninn, vandséð er að þurfi mikið af peningum til að horfa á hann hjassast hér um, aftur væri hægt að selja sjóliðsforingjanum aðgang við að fæla hann í burtu.
Reyndar er þetta nú ekki alveg svona einfalt. Sett var upp til prufu vefmyndavél við arnarhreiður, ekki má segja hvar, þeir stóðu í þessu Beggi á Gróustöðum og Bjössi Sam. Vélin var tengd gegnum netkerfið hjá Bjössa. Svona útgerð kostar helling en erfitt að ná innkomu á móti. Þá kviknaði hugmynd byggð á vefsíðum sem gjarna heita hardcore xxx eða eitthvað þannig, og þarf að greiða fyrir aðgang að. Ákveðið var að prófa þetta, að selja aðgang að vefmyndavélinni við hreiðrið, og það er skemmst frá því að segja að strax var gríðarleg aðsókn að vélinni, og óx jafnt og þétt með tilheyrandi tekjum.
Í gleði sinni yfir þessum góðu viðtökum fóru þeir sjálfir að fylgjast með myndunum á vefnum, en þá sáu þeir að einhver feill var í uppsetningunni á nettengingunni, því myndirnar á vefnum voru úr hjónaherberginu hjá Bjössa.
Öll verkefnin á námskeiðinu voru þess eðlis að þau geta auðveldlega stutt hvað annað, segjum að hingað komi fjölskylda. Þá byrjar hún á því að kíkja í Skrínuna hjá Jónu Valgerði og Ebbu, þær eru eins og kvenkyns útgáfur af Gög og Gokke, og fá vöfflur og kaupa minjagripi.
Næst er skoðað Arnarsetrið hjá Begga og Möggu. Þar er alls konar fróðleikur um örninn og hægt að kíkja á vefmyndavélina, en hætt við að búið sé að breyta tengingunni.
Ef þetta er bændafólk kemur það við í Hólsverki og kaupir heyskera, ef það tekur ekki feil á Svarfhóli og ruslasvæði hreppsins.
Hugsanlega er þetta hestafólk og þá rennir það upp að Hríshóli og pantar pláss á Leiðarenda fyrir gamla hestinn sinn. Kemst þá að því að þar eru líka geymdir graðhestar og pantar dropa í eins og 4 merar.
Næst er haldið að Reykhólum, þetta eru hjón með 2 stálpuð börn, strák og stelpu. Nú vandast málið, á að gista í Álftalandi eða tjalda á Miðjanesi? Endirinn verður að þau skella sér í þarabað, mæðgurnar fara í Heilsurjóðrið hjá Hrefnu, enda dálítið búttaðar, en feðgarnir gista í Álftalandi, og þeir leggja ekki af hjá Steina. Þegar þetta er búið ákveða þau að tjalda nokkra daga á Miðjanesi.
Nú er ferðasjóðurinn farinn að rýrna verulega hjá þessari fjölskyldu. Þá er nú ekki ónýtt að komast í ókeypis smakk hjá Fríðu á Stað og gæða sér á hangikjöti, sel, rauðmaga og ýmsu góðgæti sem kemur úr Reykskemmunni á Stað.
Niðurstaðan er þessi: Fríða kemur til með að niðurgreiða alla ferðaþjónustu í hreppnum.
Gistirými í héraðinu er allt of lítið. Og ekki skánaði það þegar Bjarkalundi var breytt í kvikmyndaver, þar sem Dagvaktin var tekin upp. Fjöldinn allur af fólki kom að sjá með eigin augum staðinn þar sem hommar fá ekki gistingu, ekki er leyft að fara með húsdýr inn á herbergi, og er ekki afdrep fyrir lostalæti. Hópur heimafólks fékk að spreyta sig í kvikmyndaleik. Eitthvert erfiðasta hlutverkið fékk Eríkur á Stað því hann þurfti að leika sjálfan sig.
Hingað flutti nýr skólastjóri, hún Júlía. Það er nú ekki frásagnarvert, að skólastjóraskipti séu hér, en að hún skuli vera hér enn er stórmerkilegt.
Í sumar var Jenshúsið lagað töluvert, málað og baðherbergið tekið í gegn og fleira.
Fallegan dag í byrjun ágúst hringir Júlía og boðar komu sína, nú sé hún að flytja. Það upphefst voðalegt írafár uppi á hrepp, Jenshúsið ekki klárt, Júlía að koma, og enginn heimavið á Reykhólum til að græja íbúðina eða hjálpa til við að bera búslóð. Áslaug fannst fyrir rest og fór umsvifalaust að þrífa húsið. Sá sem hér stendur átti leið um af tilviljun og var þegar drifinn í að gera klárt, og það stóð heima að við vorum að klára þegar Júlía kom. Þá vantaði burðardýr og gat Áslaug haft upp á Sigmundi hámeraveiðimanni og platað hann til að koma.
Það gekk vel að koma búslóðinni inn, og þegar allt var komið, spurðu þau okkur Simma hvort við værum verkfræði- eða tæknimenntaðir, það þurfti nefnilega að setja saman hjónarúmið. Við létum vel yfir því og lánaðist að koma rúminu saman, þannig vorum við eiginlega í rúminu hjá Júlíu.
Hún var búin að vera hérna nokkrar vikur, og alltaf var baðkerið sem hún átti að hafa til afnota á hvolfi fyrir utan vegg. Hún var eitthvað búin að minnast á að það væri nú fínt að fá það í lag, en Egill benti henni á að það væri örstutt í sundlaugina!
Fólki gengur misvel að passa hlutina sína. Bjössi Kristjáns var að koma frá því að kenna krökkunum íþróttir og finnur hvergi peysuna sína. Hann er að svipast um í skólanum og mætir Herdísi og spyr hvort hún hafi séð peysuna, en hún kannast ekki við það. En svo spyr hún hvort hún sé græn, og Bjössi jánkar því. Og er hún með mynd á bakinu? spyr Herdís. Já, segir Bjössi. Jaá, hún er á stól við eldhúsborðið hjá Eygló!
Í fyrra var í fyrsta sinn boðin út gatnagerð hér á Reykhólum. Þetta var Hólatröðin. Við alvöru framkvæmdir eru að sjálfsögðu viðhöfð alvöru vinnubrögð, og allt undirbúið af stökustu kostgæfni. Nokkur tilboð bárust, og við yfirlestur reyndist villa í einu þeirra, og var strax ákveðið að ganga að því. Það var frá Brynjólfi, fyrirtækið hans heitir Verklok ehf., en hér er töluvert algengt að verklok framkvæmda eru nokkru áður en hægt er að segja að verkið sé búið.
Þegar nálgaðist skiladag verksins var gengið til samninga við Bolla. Að því loknu vildi hann fá að vita hvar gatan ætti að liggja og Óskar teymdi hann út í dyr á skrifstofunni og benti: Það er þarna hinum megin við kirkjuna, það sést ekki héðan, en þú átt að hafa öll gögn um þetta. Með þetta fór Brynjólfur, grunlaus um hvað í vændum var. Ég ætla ekki að þreyta ykkur með útlistunum á mælingaskekkjum, röngum gögnum, gleymsku, kunnáttuleysi, þrjósku og fljótfærni. Það var þegar Gústi greip inn í og ætlaði að láta hlutina ganga, en allt þetta ásamt þverhausagangi hjá Orkubúinu varð til þess að þetta annars einfalda verk varð að martröð sem enginn virtist ætla að geta vaknað upp af. Gústi vildi því kalla götuna Martröð.
Það endaði þó með því að Verklok gátu haft verklok.
Vignir á Klukkufelli fór í mjaðmarliðsaðgerð og honum var sagt að eftir aðgerðina færi hann sennilega í Hveragerði til endurhæfingar. Þórarinn í Hólum hefur dvalið sér til heilsubótar í Hveragerði og hann lýsti fyrir Vigni hversu mikil uppgrip af kvenfólki væru þar, eiginlega væri það fullmikið. Vignir kveið því nú ekkert, en þegar aðgerðin var afstaðin var honum sagt að hann væri svo brattur að hann hefði ekkert í Hveragerði að gera, og Vignir var bara hálffúll.
Það er orðið hversdagslegt að skipt sé um liðamót í fólki. Kolla fékk hnjálið úr stáli og þá get ég nú kannski eitthvað lagað hana sjálfur.
Lítill stöðugleiki hefur ríkt í verslunarmálum undanfarið ár. Jón hætti með Jónsbúð snemma árs og við tók Björn Fannar með Hólakaup. Björnsbúð gekk ekki, því þá datt öllum fyrst í hug Björn Samúels. Ekki fann Fanni sig nógu vel í versluninni, en gat ekki tilgreint hvað var að. Svo áttaði hann sig á því, hann var ekki kaupmannslega vaxinn, enda ekkert líkur Jóni. Þegar svo var komið sá hann enga aðra leið en hætta og auglýsti Hólakaup til sölu. Von bráðar kom áhugasamur kaupandi og ekki spillir að Nóri er eiginlega eins og Jón í laginu.
Vegamál hafa verið ofarlega í hugum fóks af ýmsum ástæðum, sumir hafa barist fyrir nýjum vegi, aðrir gegn sama vegi. Nægir að nefna Teigsskóg í því sambandi. Vegur er að verða að raunveruleika yfir Arnkötludal og hafa margir getað nýtt sér hann nú þegar. Flestar aðrar leiðir hafa nú samt verið fljótfarnari, jafnvel þó ófærar væru. Vegurinn fram Þorskafjörð var endurbyggður í sumar.
Í Biblíunni er minnst á að vegir Drottins séu órannsakanlegir en þessi vegur var nú ekki mikið kenndur við hann. Þeir sem áttu leið þarna um voru meira með annað nafn á vörum. En þeir sem komust klakklaust, eða höfðu varadekk, lofuðu Guð hástöfum þegar þeir komu á leiðarenda.
Og úr því minnst er á það, þá fór séra Sjöfn í leyfi í haust og við tók sr. Elína Hrund, og ekki vanrækir hún okkur. Um jólin fór hún vestur í Gufudal að messa í vitlausu veðri, og allt fór það nú vel, þó að eins og hún sagði hefði hún um tíma óttast að þau fykju til himnaríkis með kirkju og öllu saman.
Sá gleðilegi atburður var í vetur að flutt var í nýja húsið við Hólatröðina. Þegar húsið var tilbúið var gestum og gangandi boðið að skoða fínheitin. Ótrúlegustu menn urðu áhugasamir um húsbyggingar og mættu.
Undirritaður átti leið hjá og stóðst ekki mátið að líta inn. Þegar inn kom voru Eygló og Inga Sæm að dást að einhverjum tuskuskáp, sem var víst miklu merkilegri en aðrir sambærilegir, og Eygló sagði: Jæja Svenni, líst þér ekki bara vel á þetta, fáðu þér svo kaffi frammi. Þetta þýddi m.ö.o. enginn bjór! Og það urðu fleiri vonsviknir. Jón Atli taldi að ekki hefði margt verið merkilegt í þessu húsi.
Á Reykhólavefnum birtist mynd af Tuma og sýndist hann fljótt á litið vera með tvö höfuð. Við nánari skoðun sást að annar hausinn - sá gáfulegri - tilheyrði uglu sem hafði tyllt sér á öxlina á honum.
Undirbúningur kræklingaeldis er á töluverðum skriði og eru Beggi og Magga óþreytandi að kynna þessa afurð. Varla er haldin samkoma án þess að þar sé í boði að smakka krækling soðinn í bjór, meira að segja í Ólafsdal, sem er nú ekki frægur fyrir sjávarnytjar. Ekki hafa þessar kynningar mikið verið við erfidrykkjur.
Fleiri greinar útgerðar blómstra. Maddi er að koma sér upp skipastól sem hann gerir út á hámeraveiðar. Kári í Mýrartungu veiddi eina síld og varð að borða hana á staðnum samkvæmt leiðbeiningum Arnar, ef hann vildi komast hjá að verða glæpamaður, því hann á engan kvóta.
Grásleppuveiðar gengu afar vel og verðið á hrognum þannig að Árbæjar- og Staðarmenn hafa setið og horft út í tómið eftir að þeir seldu útgerðina.
Fólk hér í sveit hefur verið duglegt að sækja unglingalandsmót um verslunarmannahelgar vítt og breitt um landið. Í sumar var það í Þorlákshöfn, og ekki mikið meira um það að segja. En eftir það var haldið hérna annað mót, meira svona fullorðins, og það eru 3 börn væntanleg í sömu vikunni í maí.
Leikskólinn er þegar orðinn allt of lítill, og ekki árar til að byggja nýjan, þannig að sveitarstjórn mun að öllum líkindum gefa út tilskipun um notkun á smokkum. Sveitarstjóri mun annast leiðbeiningar og aðstoð við notkun og sjá um að alltaf séu nægar birgðir tiltækar.
Töfluframleiðslan hjá Jóni Árna gengur skínandi vel. Aðallega er þetta svokallað hunda- og kattanammi, sem er notað við þjálfun dýra. Ef þau gera eitthvað rétt eru þau verðlaunuð, og eins ef þau gera ekki einhverja vitleysu. Tilraunir voru gerðar með þetta á hreppsnefndinni, en hún hefur aðeins einu sinni fengið svona gæludýranammi fram að þessu.
Þá er þetta nú upptalið að sinni og við endum á línum Megasar:
Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig.
- Höfundur og flytjandi: Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli.