Tenglar

26. janúar 2010 |

Annáll fluttur á þorrablóti Reykhólahrepps 2010

Sveinn Ragnarsson flytur annálinn.
Sveinn Ragnarsson flytur annálinn.

Ársins 2009 verður minnst - eins og forsetinn segir - með einum eða öðrum hætti. Í þessari úttekt verður mörgu viljandi sleppt, annað gleymist, og sumt fréttir maður aldrei. Ekki verður sannleikurinn látinn þvælast fyrir heldur ræður skemmtanagildið. Það er best að taka strax fram, að þeir sem ekki er minnst á í þessum pistli eru ekkert ómerkilegri eða leiðinlegri en annað fólk, sumir eru sáttir við að vera að engu getið, hinir eru beðnir velvirðingar.

 

Ég veit ekki hvort þið hafið velt því fyrir ykkur, hvað einfaldar og sakleysislegar ákvarðanir geta haft óvæntar afleiðingar. Þetta á til dæmis við þegar skipað er í þorrablótsnefndir. Að lenda í þorrablótsnefnd hefur iðulega valdið varanlegri röskun á lífi fólks.

 

Á síðasta blóti hér var Styrmir í Fremri-Gufudal að hvetja Kjartan á Bakka til dáða, að slá nú undir í eins og einn krakka þegar heim kæmi, en Ebba kvað upp úr með að það væri nú ekki á dagskrá alveg strax. Skömmu síðar fær hún að vita að hún hafi verið skipuð í þorrablótsnefnd í Saurbænum, og nú er fyrsti Bakkabróðirinn fæddur í þessu holli. Það er að segja, Bakkabræðurnir hafa alltaf verið þrír.

 

Þetta hefur verið nærri árvisst í Saurbænum, og virðist byrjað að smitast hingað. Gústi hefði nú kannski útbúið perustefni á Herdísi þótt hún væri ekki í þorrablótsnefndinni, en erfitt er að fullyrða neitt um það. Herdís fæddi fyrsta barn ársins í sveitinni, og þótti það að sjálfsögðu frásagnarvert. Í BB var fyrirsögnin Oddvitinn ríður á vaðið. Jahá, einhvern veginn hefur blessað barnið orðið til.

 

Nýbakaðar mæður fá gjarna einhverjar fallegar gjafir, en Gústi fékk fjórhjól á sængina og Herdís fékk þrjú til fimm hundruð þúsund krónur, reyndar ekki alveg í beinhörðum peningum. Það var mismunurinn á verðinu á hjólinu sem Gústa langaði í og því sem hann fékk sér.

 

Nefndarstörfin hafa ekki breytt högum Olgu og Möggu að ráði, ef til vill tengist það aldri, en Rannveig varð ófrísk. Að minnsta kosti lenti hún á spítala og þá hefur hún varla verið vel frísk. Nóg um það.

 

Fólk hér er alltaf að verða meðvitaðra um samhengi hlutanna, náttúru, menningar, þekkingar, atvinnulífs og hinna ýmsu þátta sem tengjast því beint eða óbeint. Allt er þetta svo dregið saman í eitthvað sem er kallað ferðaþjónusta.

 

Skilgreining á því er ekki auðveld því afar mikil fjölbreytni er í þessum geira. Þó að smá byrjunarörðugleikar væru við að setja upp vefmyndavélina við arnarhreiðrið í fyrra, og gjörvöll heimsbyggðin fengi sjá hvað fór fram í hjónaherberginu hjá Bjössa og Ágústu, þá gáfust menn ekki upp.

 

Í allt sumar var útsending frá arnarhreiðrinu - ekki „bjarnarhreiðrinu“ - en þegar sá tími kom að ungar áttu að skríða úr eggjum sást engin hreyfing. Og það sem merkilegra var að sá eða sú sem notaði eggin í bakstur kom aldrei í mynd. Beggi var reyndar sá eini sem vissi hvar hreiðrið var, en ég er ekkert að segja að hann hafi steypt undan erninum.

 

Nú gefst ferðalöngum bráðum kostur á að tjalda á Miðjanesi, á sérstaklega vel búnu tjaldstæði. Fólk verður að vera viðbúið að dvelja þar lengi, því Gústi raðar tækjunum gjarna á veginn að tjaldstæðinu, en gestirnir geta stytt sér stundir við að fylgjast með þegar hann festir haugsuguna í túninu eða mölvar rúlluvélina.

 

Í Bjarkalundi er gestum gefinn nægur tími til að bíða eftir afgreiðslu, og síðan er þess gætt að fólk sé orðið svangt þegar matur er reiddur fram. Á meðan beðið er geta gestir fylgst með Árna ganga um hlaðið og tala í símann.

 

Ferðalangar eiga þess kost að fara í eyjasiglingu með Bjössa. Í bæklingum stendur að siglt sé frá Staðarbryggju, en þar er stórt skilti sem á stendur að siglt sé frá Reykhólum. Ekki einfaldar málið að auglýst er að Björn sé á Súlunni. Spurning hvort það er ekki frekar í verkahring Ágústu.

 

Í sumar stóð Bátasafn Breiðafjarðar fyrir hópsiglingu gamalla báta - og nýrra raunar líka - út í Flatey. Síðustu dagana áður en lagt var frá landi lögðu margir nótt við dag að gera sjóklárt og ekki sváfu þeir mikið Steini Vald og Hafliði Aðalsteins þá sólarhringana. Þetta var tveggja daga ferð og þátttaka svo góð að allt gistirými og tjaldsvæði í eyjum troðfylltist. Daginn sem siglt var út var einstaklega gott veður en heimferðardaginn hvessti töluvert. Það fór misvel bæði í báta og fólk. Sumum gömlum sjóhundum fannst þetta alveg bjarga ferðinni, öðrum þótti sem þeir hefðu lent í miklum háska. Ása í Árbæ fékk svo mikla sjóriðu, að heila viku eftir að hún kom heim þurfti hún að sofa í hengirúmi og Deddi ýtti við henni af og til að leiðrétta í henni kvarnirnar. Vélarnar í nokkrum bátanna drápu á sér, því að við veltinginn gruggaðist olían í tönkunum og allt stíflaðist. Einhverjir voru því dregnir að landi - bókstaflega.

 

Nú er enginn maður með mönnum nema viðkomandi hafi fengið birta af sér mynd í vefútgáfu Spiegel, berrössuðum. Með grein sem hét Í bað með Björk birtist mynd af tveim fermingarstelpum í laug. Við nánari athugun reyndust þetta vera Svana og Sólrún í þarabaði, og betri auglýsingu er varla hægt að fá. Fólk úti í heimi veit nú samt ekkert hvernig þær litu út áður en þær fóru að stunda þaraböðin. Þarna voru líka myndir af Hlyn og Viktoríu að svamla í Krossneslaug, en svo sem ekkert sem bendir til að þau séu nýfermd.

 

Og vegna þess að allur heimurinn er undir í þessum þjónustubisniss sem hér er í gangi, þá hafa menn verið að þróa nýtt tímatal, sem gerir það auðveldara að ferðast yfir mörg tímabelti. Það hefur vakið áhuga mannfræðinga og hingað kom einn slíkur til að rannsaka og afla upplýsinga um þetta framtak, sem á eftir að gjörbreyta öllum samskiptum og viðskiptum í veröldinni.

 

Þeir bræður Stebbi og Bjarki eru ákaflega duglegir að afla matfanga og sagði Stebbi einhvern tíma að Bjarki væri eins og Bárður á Búrfelli þegar hann var að bæta kæfubelgina. Stebbi stakk undan einum og einum hval og skellti í súr.

 

Í haust fjárfestu þeir í hrút sem skyldi verða jólahangiket og jafnvel þorramatur. Hrúturinn var geymdur á Grund. Þegar leið að jólum uppgötvast að gleymst hafði að slátra hrútnum, og orðið fullseint að gera eitthvað í málinu. Nú sáu þeir fram á óvænt útgjöld, bæði að kaupa annað hangikjöt og fóður fyrir hrútinn. Þeir spurðu Hjalla hvað þeir þyrftu að borga fyrir fóðrið á hrússa en hann varð hálf kindarlegur, og viðurkenndi að eiginlega hefði hann nú notað hann á ærnar, þannig að sennilega væri hann matvinnungur.

 

Inda heimti rollu í haust sem drapst í fyrra, hana Bylgju. Spurning hvort hefði átt að para hana við hrútinn þeirra bræðra og rækta upp ódauðlegan stofn.

 

Það rann upp fyrir Matta í haust, að Olga væri farin að slitna og hann sjálfur reyndar líka. Þess vegna væri rétt að fara að spara hana svo hún entist lengur. Hann réðst þess vegna í það að setja upp gjafakerfi í fjárhúsin til að minnka erfiðið. Þegar rennibrautirnar voru komnar á sinn stað blasti við að þetta var býsna flókið. Járnbrautarkerfið í Frakklandi er t.d. mun einfaldara en þetta. Þess vegna hefur hann ekki lagt í að nota þetta ennþá, því féð gæti hæglega horfallið meðan hann væri að villast með heyið um fjárhúsin.

 

Þetta olli Matta dálitlu hugarangri, en þá sá hann í sjónvarpinu mynd af norskri holdakú sem gekk úti, og var öll héluð aftur og fram úr, enda rúmlega 30 stiga frost í Noregi þá. Þarna sá hann að bjuggu menn með viti og tók gleði sína á ný.

 

Það þarf að huga að fleiru en vinnuhagræðingu, bændur verða líka spara. Tumi nýtti til dæmis ferðirnar þegar hann flutti lambféð á fjall. Þá flutti hann heim fé sem hann heimti á Hjallatúninu í sömu ferð.

 

Bændur eru oft alveg óútreiknanlegir. Til skamms tíma hafa þeir talið það órétt og valdníðslu að þurfa að sinna fjallskilum, en núna þegar búið var að leggja af aðra hverja varnarlínu og leitarsvæðin stækkuðu um helming, þá þustu menn í stórum hópum ferð eftir ferð að smala, brosandi langt út fyrir eyru.

 

Reyndar er það nú ekki áhugi á að ná heim fénu sem drífur þá á stað, heldur er þetta kærkomið tækifæri til að prófa fjórhjólin. Og þá er bara betra að girðingarnar séu ekki að þvælast fyrir. Meira að segja byggðu þeir rétt norður undir Drangajökli, í sjálfboðavinnu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það er að sjálfsögðu búið að taka þetta saman, hvað er í verkahring hvers og eins, og vinnuframlag.

 

Þeim langþráða áfanga var náð í haust, að vegurinn yfir á Strandir var opnaður. Eiginlega má segja að hann hafi verið opnaður þrisvar. Fyrsta sinn þegar segja mátti að orðið væri sæmilega greiðfært. Þá sagði Ingileifur að mönnum væri frjálst að fara yfir - þegar ekki væri verið að vinna - það virtist túlkað þannig að aldrei væri unnið og til að fá vinnufrið lokuðu þeir aftur. Samt stálust margir yfir og flestir eyðilögðu dekk, eitt eða fleiri.

 

Annað skipti þegar vinahlaupið var. Strandamenn og Reykhólamenn hlupu hvorir sínu megin frá og mættust á Þröskuldunum. Það skapaði nú reyndar hálfgerðan misskilning, því aðeins mátti aka yfir þann eina dag, en var ekki opnun í þeim skilningi.

 

Þriðja sinn var svo formleg opnun og afhjúpun skjaldar sem sýnir leiðina með bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur, en endinn er nú í Bolungavík. Vegna veðurs var athöfnin færð af Þröskuldunum niður í skjól í grjótnámu í Arnkötludalnum. Það var því eiginlega bara grjótnáman sem var formlega vígð, enda er vegurinn ekkert búinn. Á Hólmavík var svo veisla af þessu tilefni, og enginn gesta hafði það skarpa sjón að hann sæi með berum augum fyrir endann á flöskuröðinni sem stillt var upp vígslugestum til hressingar.

 

Það að færa þurfti athöfnina vegna veðurs kom fáum staðkunnugum á óvart. Sú reynsla sem komin er af veðri og færð á þessari leið er þannig, að allt sem Kristján í Gautsdal og Ebbi hafa sagt um það hljómar nú frekar eins og bjartsýnisraus.

 

Biskupinn kom og vísiteraði í sumar og messaði m.a. á Skálmarnesmúla og í Flatey og predikaði í kirkjunni hér, og blessaði hér svo rækilega að óþarft var að messa um jólin.

 

Allt gengur frábærlega í Þörungaverksmiðjunni og meðal annars var keypt skip, sem á að leysa m.s. Karlsey af hólmi. Mörg ár er búið að leita að skipi sem gæti hentað, en ekkert gekk. Þetta skip hentaði nú ekki alveg, þannig að byrjað var á að brytja það niður, svo verður smíðað nýtt í staðinn. Ef til vill fer að styttast í veru Karlseyjar hér, svo það voru síðustu forvöð að prófa nýja strandstaði í túninu í Fagradal og sigla í surtarbrandsnámunni á Tindum á Skarðsströnd.

 

Leikfélagið Skrugga var endurvakið, og það er þetta með kynjakvótann. Á endurreisnarfundinum voru 13 kellingar og Gústi. Kannski má segja að hann hafi riðið á vaðið.

 

Nú er liðið heilt ár, og enn er Júlía skólastjóri. Og ég held að baðkarið sé farið af hlaðinu hjá henni. Eftir að hún tók við hafa flestir kennararnir farið í skóla, Áslaug að taka einhverja meistaragráðu, Kolfinna að læra að reikna, og Rebekka að læra að kenna, og Ásta Sjöfn líka.

 

Leikskólinn var stækkaður og endurbættur í sumar, og er samt sprunginn. Það sem bjargar að öll börn fá pláss, er að þau skiptast á að vinna í Hólakaupum, og vera í leikskólanum.

 

Hver er sínum gjöfum líkur, er sagt, og þetta átti nú vel við seinni partinn í sumar, þegar allt bar upp á sama daginn: Reykhóladaginn, vinahlaup Strandamanna og Reykhólasveitunga, haustlitahlaupið og opnun sýningarinnar Stefnumót á Ströndum.

 

Vinahlaupið var á nýja veginum um Arnkötludal og mættust hlaupararnir á Þröskuldunum ca. á miðri leið. Þar var skipst á skrautrituðum plöggum með kveðjum, og við færðum Strandamönnum stein sem leggja átti í „vörðu til framtíðar“ sem hlaðin var á Hólmavík í tilefni sýningarinnar.

 

Ekki reyndist auðleyst mál að finna hentugan stein til gjafa og því var það dregið fram á síðustu stund. Það endaði svo með því að Gústi fór í grjótnámuna á Miðjanesi og fann góðan stein og annan til vara. Gústi setur oft samasemmerki milli magns og gæða.

 

Það kom svo í hlut okkar Kalla að velja hvor steinninn yrði færður Strandamönnum. Það var tiltölulega auðvelt, þó við séum báðir með meðfæddan og áunninn valkvíða. Sá minni varð fyrir valinu, hann virtist jafnvel innan við 50 kg. Mesta mildi var að enginn slasaði sig á honum. Viktoría og Hlynur fengu hinn steininn og færðu í vörðuna góðu. Hlynur var lengi að jafna sig eftir að rogast með steininn þangað sem hægt var að leggja hann í vörðuna.

 

Þessi sýning á Hólmavík var mjög hátíðleg. Forsetinn kom og ávarpaði gesti og var einmitt nýkominn úr útreiðartúr, Dorrit lék sér við krakkana, og þingmenn spiluðu við innfædda, eða spiluðu með.

 

Þó að svona margt væri um að vera á sama tíma var aðsókn mjög mikil, nema helst í haustlitahlaupið. Þar var einn sem hljóp.

 

Reykhóladagurinn var með nokkuð hefðbundnu sniði, og endaði með dýrðlegri veislu og fagnaði akkúrat hér, um kvöldið. Þrjár harðsnúnar valkyrjur sáu um alla framkvæmd, þær Kolfinna, Ásta Sjöfn og Rebekka.

 

Kvöldið fyrir Reykhóladaginn var haldin spurningakeppni - með fyrirkomulagi eins og Útsvar - og kepptu 6 lið. Til úrslita kepptu Hólakaup og Kambur, eða Rip, Rap og Rup, þar sem enginn var frá Kambi nema Gauti, og vann Kambur. Skemmtilegasta liðið var tvímælalaust Makar Reykhólanefndar, en í því voru Eiríkur Kristjáns, Guðmundur á Grund og Dalli. Ég skýri það ekkert nánar.

 

Eins og allir vita er látbragðsleikur ein þrautin sem keppendur þurfa að leysa, og kom það í hlut Guðmundar að leika, því Ásta hefur mikinn áhuga á svona spurningaleikjum og þjálfaði hann sérstaklega í því skyni. Orðin voru þak, sjóveiki og skírnarfontur meðal annars. Þak túlkaði hann með því að benda upp í loftið, og Dalli og Eiríkur giskuðu á himininn, sólina og flest fyrir ofan mann, annað en þakið.

 

Sjóveiki er táknuð með því að þykjast gubba, og róa lífróður. Dalli stakk upp á morgunógleði, en í þessari látbragðsleiknu slarkferð var Gummi næstum dottinn fram af sviðinu. Skírnarfonturinn var dálítið erfiður, en Guðmundur leysti það af mikilli hugkvæmni. Hann myndaði hring með höndunum, strauk yfir kollinn á sér og benti á séra Elínu Hrund. Dalli og Eiríkur horfðu hvor á annan eins og þeir hefðu aldrei hist, og sennilega hefur skírnarfontur verið það síðasta sem þeim datt í hug.

 

Öll liðin stóðu sig með mikilli prýði og oft mjótt á munum, eins og í úrslitunum. Þar munaði einu stigi.

 

Af því við erum að fjalla um spurningakeppni er tilvalið að ljúka þessu með lítilli gátu. Inga Lára á hvítan kött, mjög skankalangan, hann er hálfur skógarköttur. Þetta er skemmtilegur köttur og gaman að fylgjast með honum. Hann virðist vera dálítið fljótfær og framkvæmir á stundinni það sem honum dettur í hug. Hann er líka feykiduglegur veiðiköttur og hefur mikinn áhuga á fuglum.

 

Og þá er spurningin: Hvað heitir kötturinn?

 

- Höfundur og flytjandi: Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30