Tenglar

20. janúar 2009 |

„Ég syndi eftir helvítinu“

Guðjón Dalkvist Gunnarsson.
Guðjón Dalkvist Gunnarsson.

Í mörsugslok á miðjum vetri

mátti varla finnast betri

veðursælli vetrardagur.

Var það bænda mikill hagur.

 

Sækja átti sauði marga,

frá sulti og vosbúð þeim að bjarga,

úr Reykjahóla- háum -eyja.

Hóað var í nokkra peyja.

 

Fyrst skal telja frækinn slána,

frægan smala nefndan Stjána.

Yngri-Matti, eflingsdrengur,

að honum var mikill fengur.

 

Á Heiðnarey, með Hlyn í brúnni,

hentaði vel að bjóða frúnni

Viktoríu valið sæti.

Vakti það hjá henni kæti.

 

Gott var að hafa gamla skarfa

sem gátu nýst til léttra starfa.

Nonni Ját og Dalli dugðu

að drekka meira en ýmsir hugðu.

 

Þessu sterka, stælta liði

stjórnuðu með góðum friði,

æðruleysi og engu fumi,

óðalsbændur Matti og Tumi.

 

Er upp í fjöru sauði sæki,

Zodiac er valið tæki

og prammabotn með breiðu dekki.

Betri tæki finnast ekki.

 

Ystey geymdi góðan hóp,

gimbrarnar frá Hamarlandi.

Á prammaflotið hraður hljóp.

Hér var allt í góðu standi.

 

Grensey hafði grasið nóg.

Gamalærnar býsna sprækar.

Í grasi, þangi, grjóti og snjó

greyin voru illa rækar.

 

Hlaupið, stokkið, hrasað var

á hausinn, síðan risið aftur.

Lengi reyndust rollurnar

ráðabetri en okkar kraftur.

 

Á endanum þó öllum ná,

eftir svita, tár og dreyra,

því að vægja verður sá

er vitið hefur ívið meira.

 

Á Leiðólfsey gekk langtum skár,

með lagni náðum flestum ánum.

Aðeins sluppu einar þrjár.

Eina Matti greip í sjánum.

 

Heim var snúið Heiðnarey,

hér var lokið verki.

Skíðakaffið skemmdi ei

né Skoti og Egill sterki.

 

Upp á sand var siglt með lið.

Zodiac lagt við stjóra.

Að Mávatúni mættum við

í mat og nokkra bjóra.

 

Komið var myrkur og kindurnar heim,

kuldi í þreyttum herðum,

er stóðu í fjörunni, starsýnt varð þeim

er stjórnuðu þessum ferðum.

 

Zodiak úti á legunni lá

langt svo að trauðla var farið.

Tumi samt ætlaði í tækið að ná,

tók þá af Matti skarið:

 

„Þú ert búinn að þræla nóg,

þetta er í lagi fínu,

ég blautur er fyrir af svita og sjó.

Ég syndi eftir helvítinu."

 

- Höfundur: Guðjón D. Gunnarsson á Reykhólum, betur þekktur sem Dalli frá Mýrartungu.

 
Eins og fram kemur í fyrsta erindinu var ferð þessi farin í mörsugslok eða upp úr miðjum janúar, nánar tiltekið árið 2008. Bragurinn var kveðinn þegar höfundurinn hafði skolað af sér svita og sjó og látið líða úr þreyttum herðum.

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30