Tenglar

13. desember 2011 |

Limrur eftir Eystein í Skáleyjum

Eysteinn á bátnum Kára árið 1986.
Eysteinn á bátnum Kára árið 1986.
1 af 2

Eysteinn G. Gíslason (Eysteinn í Skáleyjum) er núna orðinn aldraður og hættur að yrkja. Hann fékk leikandi hagmælsku í vöggugjöf og bæði lausavísurnar hans og limrurnar flugu víða. Eysteinn var bóndi og ekki síst hlunnindabóndi í Skáleyjum á Breiðafirði en líka var hann kennari á Flateyri um árabil. Hann er væntanlega í hópi fremur fárra sem verið hafa í sveitarstjórn á fleiri en einum stað. Annars vegar átti hann sæti í hreppsnefnd á Flateyri og hins vegar í Flateyjarhreppi sem síðar varð hluti hins sameinaða Reykhólahrepps. Eysteinn var meðal stofnenda Skáksambands Vestfjarða árið 1976 og var kosinn í fyrstu stjórn þess.

 

Gjarnan orti Eysteinn limrur um málefni líðandi stundar, innan lands sem utan, og nefndi þær „fréttamyndir teknar með flassi“. Hér fer á eftir nokkurt safn af limrunum hans.

 

 

     Ólympíp

 

     Þjóðirnar gagnteknar góna

     á garpana frægðinni þjóna.

           Með sólbrúna kroppa

           þeir synda og hoppa

     suður í Barselóna.

 

     Mikill er fræknleikur fimra,

     í fullkomnun stjörnurnar glimra.

           Til upphefðar snjöllum

           konum og köllum

     er kveðin hér ólympísk limra.

 

 

     Samdráttur

 

     Þjóðin er orðin að ambátt,

     auralaust hyskið er framlágt.

           Ráðamenn standa

           í stöðugum vanda

     stundandi lífsgæðasamdrátt.

 

 

     Bókmenntahátíð

 

     Þó yfirleitt fremur sé fátíð

     í fortíð og nútíð og þátíð

           með ófölskum tón

           vor inspírasjón

     við uppfærum bókmenntahátíð.

 

 

     Áreitni á vinnustað

 

     Strákurinn stelpuna greip í,

     strauk hana, þuklaði, kleip í.

           Viðþolið missti

           meyjuna kyssti

     umlandi I love you baby.

 

 

     Mastrikk

 

     Í kjálkunum þjáðir af þrasgigt,

     þreyttir á mengun og gaslykt,

           búsældarfórnun

           og brüsselskri stjórnun

     Baunverjar höfnuðu Maastricht.

 

 

     Hátignir

 

     Hugþekkar hefjast til skýjanna

     hátignir Dana og Svíanna.

           En vert er að geta

           um vandamál Breta:

     Vesalings Kalli og Díana!

 

 

     Fegurðarsamkeppni

 

     Glæsileg mörg sýnist mey vor,

     mjúkvaxinn kroppurinn ei slor,

           barmurinn kæri

           lendar og læri

     líkt og á Elísabet Taylor.

 

 

     Ófriður

 

     Djöflast í ófriðaraninu

     ýmsir á veraldarplaninu.

           Til aðstoðar guði

           þótt prestarnir puði

     og páfinn í Vatikaninu.

 

 

     Gorbi

 

     Hann Gorbasjoff borðaði brasost

     boðandi lýðfrelsisþraskost.

           Færði með prýði

           puðandi lýði

     perestrojku og glasnost.

 

 

     Járnkarl

 

     Af ótta við kvalræði hvellt hrín

     kvíðandi aftöku gelt svín.

           En háskanum storkar

           og heilmiklu orkar

     rússneski járnkarlinn Jeltsín.

 

 

     Ágirnd

 

     Hinn gráðugi Geirþjófur dósent

     græddi víst þó nokkur prósent

           er seldi hann Merði

           á margföldu verði

     mölétið Jónsbókarljósprent.

 

 

     Vaxtarrækt

 

     Hér útþenjast aflraunavöðvar

     við æfingar kjötræktarstöðvar.

           Ekkert má fela.

           Prúður á pela

     pissar því hálftröllið Böðvar.

 

 

     Afþreying

 

     Margur var postillupésinn

     og prelátaboðskapur lesinn.

           Sá langfeðgasiður

           lagðist þó niður

     sem afdankað óþarfavesin.

 

     Lífsstíllinn núna er námstrit

     við „náttúrufræði“ með blám lit.

           Vísa leið sálum

           í viðkomumálum

     vídeóspólur og klámrit.

 

 

     Gamla sagan

 

     Hún Systa var sexí og kókett

     en svo varð hún dálítið ólétt.

           Hún hleypur um nætur

           náföl og grætur

     ælandi oft fram á klósett.

 

 

     Harmsaga að austan

 

     Ungmeyja austur í Japan

     öslaði hnédjúpan krapann.

           Rakst þar á Kana,

           hann klóraði hana.

     Þá réðst hún á dónann og drap hann.

 

 

     Kvennaguðfræði

 

     Faðir vor ku vera kvenmaður

     og kona var sonurinn blessaður.

           Efum samt ei

           að María mey

     var mikill og harðsnúinn karlmaður.

 

 

     Síbylja

 

     Hann Sigurður heitinn á Hamri

     var hrjáður af síbyljuglamri.

           Er heyrð'ann í Bubba

           hann byrjaði að gubba

     og andaðist úti á kamri.

 

 

     Magga

 

     Fallin af tróninum Thatcher

     tilreiðir ódýran mat sér.

           Á borð trúi ég beri

           brauðið með sméri

     en það er nú fráleitt neitt fratsmér.

 

 

     Að loknum Flóabardaga

 

     Erfið er stríðsrekstur stússgrein,

     stúrinn því nagar sín hrússbein

           austur hjá Evfrat

           engan fær kornmat

     vesalings harðstjórinn Hússein.

 

 

     Mörlandi

 

     Það merkilegt sýnist, en satt nokk,

     ég síbylju dýrka og flatt rokk.

           Í prangarans höllu

           ét pulsu með öllu.

     Ég er skopmynd af Meatloaf og Matlock.

 

Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31