Tenglar

22. mars 2009 |

Þorrablótsannáll Reykhólahrepps 24. janúar 2004

Guðjón Dalkvist Gunnarsson.
Guðjón Dalkvist Gunnarsson.

„Enn hefur fækkað í hreppnum eins og venjan er við hverja vegabót.

 

Segja má að hreppurinn sé opinn í báða enda eftir vegabæturnar á Klettshálsinum. Það héldu að minnsta kosti lögreglumennirnir á Patreksfirði. Í fyrsta bylnum í haust ætluðu þeir vestur. Í fyrsta skaflinum á nýja veginum urðu þeir fyrstir til að festa sig og svo urðu þeir fyrstir til að keyra út af nýja veginum og bíða nú eftir viðurkenningu frá Sturlu.

 

Halldór bróðir minn í Múla flutti suður í Dali, keypti Múlann og seldi aftur og keypti sér konu með öllu fyrir mismuninn. Bubbi póstur mátti hins vegar sjá á eftir Rannveigu án þess að fá krónu fyrir.

 

Bensi á Bakka stóð líka í braski, keypti rollur og seldi aftur í sláturhús en keypti ekkert fyrir mismuninn. Beggi á Gróustöðum keypti Múlarollurnar og seldi einhverjar áfram til Staðarbænda. Það er ekki orðum aukið að bændur hafi viðskiptavit.

 

Hörður á Tindum er loksins búinn að breyta fjósinu í lausagöngu og innréttaði í hlöðunni mjaltabása fyrir kýrnar í öðrum endanum og fólk í hinum.

 

Sameiningar, uppkaup og yfirtökur hafa tröllriðið þjóðfélaginu um nokkurt skeið. Við höfum ekki kippt okkur upp við að Staðarbændur eða Gróustaðamágar keyptu eina og eina jörð. Ýmsum brá þó í brún þegar Matti virtist ætla að yfirtaka stóran hluta Reykjanessins á einu bretti með kaupum á Skerðingsstöðunum og setja tengdason sinn á Miðjanesið. Kórónaði síðan ósvífnina með kaupum á tólf hjóla trukki til að leggja undir sig Vegagerðina líka.

 

Einhverjir furðuðu sig á kálfaboddíinu hans Matta, þegar hann gleymdi að taka frystikistuna af bílnum og setti kálfana í hana. En er ekki bara sniðugt að venja þá strax við frystikistuna? Þeir fara þangað seinna.

 

Þegar Vignir var spurður hvort hann ætlaði ekki að keppa við þá Eika og Jónas í rollufjölda var svarið: Það er ekki hægt því Eiki gefur aldrei upp réttan fjölda og Jónas er svo lyginn að ekkert er að marka sem hann segir.

 

Tíðarfar hefur verið bændum hagstætt, sem marka má af því að bæði nautgripir og sauðfé hafa gengið sjálfala hjá sumum. Tíðarfarið er einnig hagstætt músum og hafa þær gerst nærgöngular víða. Nokkrar komust inn til Gunnu og Villa, en þar hitti skrattinn ömmu sína, því Villi á kennslumyndband með Tomma og Jenna. Mýsnar stoppuðu stutt.

 

Sennilega eigum við færustu minkaveiðimenn þjóðarinnar og þótt víðar væri leitað. Minkurinn er furðudýr að því leyti, að kerlingarnar eru gáfaðri en karlarnir. Reynir síar karlana úr, svo kemur Jón Atli og eltist við kerlingarnar. Eiríkur og Stjáni hreinsa síðan upp það sem eftir verður.

 

Tumi hefur verið nokkuð lunkinn við veiðarnar hingað til en mætti nú ofjarli sínum. Minkur nokkur komst aftan að honum, í þeirra orða fyllstu merkingu, í gegnum affallsrör á kaldavatnsbrunninum og alla leið í klósettkassann. Tumi mátti nú fara út í skurð að skíta og huggaði sig þá við gamla vísu eftir Sæmund Björnsson:

 

        Eins og hraustum Íslendingi

        auðnaðist mér þó,

        að skíta úti í skafrenningi

        og skeina mig á snjó.

 

Að vísu var það aðeins hluti minksins sem Tuma hlotnaðist og því bíða þorpsbúar í ofvæni eftir því hver fái skottið.

 

Herjans mikið samkvæmi var haldið á Mávatúni í sumar. Afmælisveisla Söru. Þurfti þá að rýma öll útihús til að koma gestunum fyrir og leigja útikamra. Þá dugðu ekki skurðirnir.

 

Nokkuð hefur borið á því að messuvínið í Gufudalskirkju hafi gerjast fullmikið og jafnvel svo að það truflaði messur.

 

Tvöfalt systrabrúðkaup var haldið í Flatey. Þegar faðir brúðanna, Jói í Skáleyjum, hélt sína fagnaðarræðu, tíundaði hann af kostgæfni öll helstu afrek sem þessar merku ættir sem voru að tengjast höfðu afrekað í gegnum tíðina. Þegar hann fór að telja upp kolludrápara og sauðaþjófa, róna og ribbalda, munaði mjóu að partíið endaði með tvöföldum systraskilnaði.

 

Til Flateyjar fór í sumar sveit vaskra skákmanna og enn vaskari áhorfenda að keppa við Hólmara. Úrslitin eru ekki gefin upp.

 

Í vor var kosið til Alþingis. Ekki var mikil ásókn í atkvæði okkar, ef tekið er mið af framboðsfundum. Þeir voru aðeins tveir. Vegagerðarmenn í Kollafirði fengu gervihnattadisk til að fylgjast með sjónvarpsumræðum. Mest var hann notaður til að horfa á þýskar rásir, sem þeir voru búnir að kynnast á Seljanesi.

 

Lítið hefur heyrst frá hreppsnefndinni liðið ár. Ekki er einu sinni að maður heyri aukatekið blótsyrði, svo varla hefur hún gert neitt af viti. Þó hafði hún það af með húsabraski að koma Guðlaugi í neðri byggðir. Fyrsti kaleikurinn þar.

 

Mér er sagt, að þeir sem vilji fylgjast með störfum á skrifstofu hreppsins geti bara horft á Stundina okkar, sem mun vera tekin upp þar. Þið sem eigið erindi á skrifstofuna, leggið ekki fyrir aftan Einar ef þið eruð á forstjórajeppa. Það getur forstjóri Hótel Bjarkalundar borið vitni um.

 

Hallarbylting var gerð í skólanum. Skarphéðinn var sendur í útlegð til Ísafjarðar og öðrum karlkyns kennurum einnig sparkað út. Áslaug tók við skólastjórn ásamt skjaldmeyjum sínum. Aumingja Trausti.

 

Ég heyrði í samræðum tveggja feðra skólabarna, að afmælum hefði stórlega fækkað.

 

Smalamenn lentu í óveðri og hrakningum í haust og var svo af fjallkóngunum dregið, að þeir gátu ekki rifist.

 

Hættuástand skapaðist hér í borginni þegar óvættur í hrútslíki gekk um tún og engi og olli bæði líkamlegum og andlegum mannsköðum, en nánar er fjallað um það í öðru atriði.

 

Háhyrningur gekk á land á Gilsfjarðargarði nálægt sýslumörkum. Þegar aflífa skyldi skepnuna var hún fyrst fyllt af blýi og síðan skorin. Ekki er vitað til að önnur skepna hafi lifað af slíka skothríð og hefur það nú verið tilkynnt til heimsmetabókarinnar. Ekki voru til næg skotfæri til að berjast um hræið á eftir eins og venja var til forna. Lengi hafa menn velt fyrir sér ástæðu þess að hvalir ganga á land, en þökk sé Keikó hafa menn nú meiri þekkingu á hegðun háhyrninga. Það gæti til dæmis hafa legið dekk í fjörunni.

 

Hópferð var farin til Dublinar í lok nóvember. Frekar litlar fréttir hef ég heyrt af henni. Gæti stafað af slæmu minni ferðalanganna eða slæmri samvisku. Þó kvisaðist það út að Gulla í Árbæ hefði dottið í það. Gylfi tældi hana til að drekka hálfan sopa.

 

Jói og Kidda í Skáleyjum fóru í þessa ferð. Þegar komið var til landsins varð frúin eftir í Reykjavík en Jói kom heim í Eyjar. Þegar fór að styttast í fengitíma fór Jói að ókyrrast eins og fleiri. En allt ófært. Rifjaðist þá upp fyrir honum að Landhelgisgæslan hafði hjálpað til við að koma hrútum í Arnarfirði áleiðis. Hringdi hann suður og sagðist hafa brotnað. Hann var að sjálfsögðu sóttur og það var kraftaverk hve fljótt honum batnaði eftir að suður var komið."

 

Eins og þið hafið heyrt er allt sem ég hef sagt stolið og engra heimilda getið. En ég setti gæsalappir.

 

- Höfundur og flytjandi: Guðjón D. Gunnarsson á Reykhólum (Dalli í Mýrartungu).

 

Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31