Þorrablótsmagáll 2016
Annállinn var fluttur á þorrablóti Reykhólahrepps í íþróttahúsinu á Reykhólum 23. janúar, annan dag þorra. Höfundur og flytjandi var Sveinn Hallgrímsson á Skálanesi, en öðru hverju voru leikin atriði og myndskeið. Þorrablótsnefndina 2016 skipuðu (í stafrófsröð) Ágúst Már Gröndal, Björn Samúelsson, Einar Kr. Sveinbjörnsson, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, Jens V. Hansson, Jóhanna Ösp Einarsdóttir, Ólafía Sigurvinsdóttir og Rebekka Eiríksdóttir.
________________________
Sveinn: Góðan dag, Reynir, áttu magál 2016 í tilefni þorrans?
Reynir: Nei, ekki 2016, en ég á magál 2015.
Sveinn: En það stendur 2016 ... ég verð að skoða þennan innkaupalista betur, ég sé ekki rassgat (setur upp gleraugu). Nei, það stendur Annáll 2016.
Ég er ekki Sveinn Ragnarsson, þið hafið gert óbætanleg mistök.
Ágætu þorrablótsgestir. Er ekki vaninn að byrja á að vara alla við? Þessi annáll verður snöggsoðinn og ólseigur og má ekki taka á nokkurn hátt hátíðlega.
Hólakaup lokaði 1. janúar og leit ekki sem best út að opnuð yrði verslun aftur á Reykhólum. Voru ýmsar sögusagnir á kreiki hvað ylli, sú líklegasta að Eyvi vildi fá milljónir fyrir símanúmerið. En svo birtust Ása og Reynir af Suðurnesjunum, vön ýmsu þaðan, og létu ekki svona smámuni fæla sig frá. Hófust handa við að þrífa og mála, pússa og mála meira, og opnuðu Hólabúð í lok mars. Þar með var þriggja mánaða svelti íbúa Reykhólahrepps lokið, núna gátum við hellt þang- og þaraseyðinu úr pottunum og kýlt kviðinn aftur.
Ása og Reynir hafa verið óþreytandi að kynna okkur fyrir hinum og þessum nýjungum, t.d. framandi núðlum, sósum, sultum og fleiru sem ég kann ekki að nefna. Finnst sumum nóg um, vilja bara fá mat í búðina, sínar SS-pylsur, tómatsósu og sinnep, já og hvítkál.
Reynir: Ég á hvítkál.
Sveinn: Sorrí Reynir, þetta stendur bara í handritinu.
Búðin hjá þeim skipti litum eftir árstíðum og hátíðum, þau eru einstaklega lipur með málningarverkfærin, nú síðast máluðu þau allt rautt fyrir jólin og gott ef Reynir var ekki rauður líka. Og næsta víst verður allt málað gult fyrir páskana og heyrst hefur að vorboðinn ljúfi eða kjúklingurinn frá Klukkufelli verði þar á vappi.
Kjúllinn vappar í búðinni með tilheyrandi gali og vængjaslætti.
Ferðamenn og gestir á Reykhólum taka strax eftir furðulegu háttalagi íbúanna, þeir ganga stöðugt í hringi. Þegar þeir koma út úr húsunum sínum ganga þeir hringinn í kringum þau, þeir ganga kringum bílana áður en þeir setjast inn í þá, þeir ganga kringum búðina áður en þeir fara inn í hana og aftur þegar þeir fara út úr henni, þeir ganga kringum eldsneytisdæluna þegar þeir dæla á bílana. Svona mætti lengi telja, mun þetta vera orðin manía eða einhvers konar árátta eftir að íbúarnir tóku þátt í gönguátaki Jóhönnu og gengu eilífa hringi í þorpinu í hundraða ef ekki þúsundatali.
Leikið á meðan lesið er.
Hans líf og yndi voru stórar vinnuvélar, vörubílar og hvers kyns grúsk í vélum, bílum og viðgerðum. Hann vissi varla hvað sneri fram og hvað aftur á rollu. Nú er hann sauðfjárbóndi og skipar sér í fremstu röð á landsvísu. Hann heitir Magnús oft kallaður hinn digri, en er ekki svo digur lengur. Að gera Magnús að sauðfjárbónda er eflaust eitt mesta afrek Kristjáns í Gautsdal í sauðfjárrækt.
Öll eldumst við. Snæbjörn flugmaður og ábúandi á Krossnesi er þar engin undantekning, og af tilefni áranna 50 blés hann til veislu mikillar í flugskýlinu og var öllum boðið. Var svo vel veitt að Woodstock bliknar í samanburðinum, treilervagn fullur af bjór á ís, gin og tónik í tugalítra vís og langborð fullt af krásum. Þegar allt var í fullu fjöri héldu kollegar hans flugsýningu með tilheyrandi reyk og mótorsprengingum. Og þegar hæst stóð sást til manns koma gangandi yfir móa og mela frá Kinnarstöðum. Hélt hann á hvítu flaggi, eða í það minnsta líktist það flaggi, en flestir vita að það er flugbann í lofthelgi Kinnarstaða. Féll nú allt í dúnalogn á meðan afmælisbarnið og gestir fylgdust með ferðum þessa manns. Þegar nær dró voru kennsl borin á kauða, reyndist vera Gunnbjörn. Og flaggið? Tja, það var afmælisgjöfin pökkuð inn í hvítt.
Leikið á meðan lesið er.
Ótrúlega lítil eftirköst urðu eftir þessa Krossstock -hátíð. Þó hafði Zetor dráttarvél flugmannsins horfið og fannst daginn eftir á Seljanesi. Höfðu Maggi og synir fengið hana „lánaða“ og boðið nágranna sínum honum Sveini Borgari með. Sannast þar að Zetor er rúmgóður. En kannski ekki sá þægilegasti, því eitthvað voru þeir marðir og skrámaðir eftir ferðalagið.
Sauðfjárbændur á Vestfjörðum fóru í skoðunar- og skemmtiferð til Skotlands í sumar. Var þetta vel heppnuð ferð í alla staði. Með í ferðinni var bóndinn með flottustu fæturna og best snyrtu táneglurnar. Eitthvað hafði frítíminn verið notaður til að versla þarna ytra, því á flugvellinum á heimleiðinni var Þráinn stoppaður með skrúfjárn í handfarangrinum. Skipti engum togum, hann var dreginn afsíðis, berháttaður og allur hans farangur skoðaður. Kom þar ýmislegt í ljós, svo sem skiptilyklar, hamar, meitill, slípirokkur, keðjusög og músaeitur í stórum lengjum sem leit út eins og sprengiefni. Skrúfjárnið var gert upptækt en annað fékk hann að taka með sér heim. Munu fæturnir hafa gert útslagið.
Leikið atriði á milli.
Talandi um ferðalög sauðfjárbænda, þá blés Sauðfjárræktarfélagið til kynnis- og skoðunarferðar í Austur-Húnavatnssýslu og voru sláturhúsið, ullarþvottastöðin og nokkur sauðfjárbú skoðuð. Á heimleiðinni sýndi Erlingur frændi á sér nýja hlið og hélt uppi fjörinu í rútunni alla leið heim. Jafnvel þótt hann segðist ekki kunna alla þessa „helvítis“ texta, „flottur nagli“.
Reykhóladagarnir voru haldnir með miklum myndarskap að vanda og fóru fram í mestu spekt, en ýmislegt gerist í spurningakeppninni. Flestum er í fersku minni keppnin fyrir nokkrum árum þegar Ásta á Grund... Æi, sleppum því. Í sumar var komið að Dalla og Bjössa Sam. Liðsfélagi þeirra hún María Maack var að leika málsháttinn Barnið vex en brókin ekki. Eftir leikræna tjáningu girti hún niður um sig og benti á nærbuxurnar. Við þetta urðu þeir báðir stjarfir, en eftir dálitla stund stundi Bjössi „að skíta“, hvernig sem hann fékk það út þegar hún benti á framanverða brókina og settist ekki á hækjur sér. Dalla er vorkunn því líklega er langt síðan hann hefur séð kvenmannsnærbrók live svo nærri sér.
Dalli var síðan valinn í Útsvarsliðið. Hvort frammistaðan á Reykhóladögunum réð úrslitum um það skal ósagt látið, en Reykhólahreppur var að keppa í Útsvari í sjónvarpssal í fyrsta sinn. Kom þá í ljós að stjarfinn hafði ekki runnið af honum, heyrðist einungis einstaka sinnum uml frá honum. Í þessum þætti kom einnig fram að við værum snjallari en Strandamenn og hugrakkari heldur en Fjallabyggð, allavega engvir aumingjar. Samt töpuðum við. Þetta kom nú samt ekki að sök, því við komumst áfram á gríðarlega háu stigaskori. Og eftir þáttinn í gærkvöldi er það endanlega staðfest að við erum heiðarlegri en Reykvíkingar, en það vissu nú allir fyrir.
Leikið á meðan lesið er.
En að mér hefur verið gaukað alveg sannri sögu sem gerðist rétt fyrir keppnina. Stjórnendur þáttarins komu og gáfu sig á tal við keppendur, fóru stuttlega yfir reglurnar og reyndu að dempa stressið. Eftir stutt og laggott spjall leit Sigmar á Dalla og spurði hvort hann ætlaði að leika. Dalli svaraði neitandi, sagðist vera upptekinn í Útsvari fram eftir kvöldi en benti honum á að tala við Helga Seljan. Helgi myndi kannski nenna að leika við hann.
Herdís ríka keypti hverja jörðina á eftir annarri á Reykjanesinu. Nágrannar hennar eru að verða hálfgerðir kotbændur í samanburði við hana, þótt hún hafi minnkað aðeins við sig og selt Bjarna og Ingu Smára íbúðarhúsið á Skerðingsstöðum og dálitla lóð í kring. Mun þessi landskiki vera orðinn lögbýli og heitir Klettaborg, mjög líklega eftir skemmugrunninum vestan við heimreiðina, en það er það eina sem getur talist grjótkyns á þessum bletti.
Eftir að Eiríkur smiður flutti í hreppinn er alltaf talað um hreindýr á þorrablótum, en nú er komið að systur hans. Sigrún fór á hreindýraveiðar og veiddi Rúdólf með rauða nefið í stíl við rauðu stígvélin sín. Kolfinna fór líka á hreindýraveiðar með Eiríki en veiddi ekki dýr af því hún var ekki í rauðum stígvélum, en kom þess í stað heim með hreindýrshúð. Er svo gott sem búin að leggja undir sig bílskúrinn og breyta honum í sútunarverksmiðju. Eiríkur er byrjaður að byggja við húsið í þeirri veiku von að endurheimta bílskúrinn.
Leikið á meðan lesið er.
Sveitarstjórn hefur verið iðin við að stofna nýjar nefndir. Fyrst átti að stofna tómstundanefnd til höfuðs Jóhönnu. Hætt var við það, taldi sveitarstjórn sig geta komið böndum á Jóhönnu með öðrum hætti.
Eldriborgaranefnd var stofnuð fyrir gamla og afdankaða sveitarstjórnarmenn og síðast en ekki síst dreifbýlisnefnd fyrir olnbogabarn Reykhólahrepps, Flatey. En eins og landslýður veit líkar íbúum og húseigendum í Flatey ekki lengur vistin í Reykhólahreppi og vilja hverfa á braut. Sveitarstjórnin vill ekki sleppa af þeim takinu og setti fram rök fyrir því í mörgum liðum. Framfarafélag Flateyjar óskaði eftir rökstuðningi sveitarstjórnar við allnokkra liði, sem og sveitarstjórn gerði, þar til kom að því að rökstyðja hvað það þýddi að taka betur utan um íbúana. Brást þeim bogalistin við rökstuðninginn og sögðust ekki geta rökstutt þetta á nokkurn hátt.
Nú í ársbyrjun kom hins vegar í ljós hvað þetta utanumhald þýddi, þegar sveitarstjórn samþykkti að ráða Áslaugu í fullt starf í sumar við að faðma og knúsa eyjaskeggja. Miðað við fullt starf gætu þetta verið rúmar 50 klukkustundir af knúsi á mann með lögheimili í Flatey, en ef sumardvalargestir væru teknir með yrði þetta mun bærilegra.
Eftir fárið hér um árið við Kinnarstaðarrétt þegar allt safnið slapp úr nátthaganum og bændur og búalið þurftu að smala öllu fénu aftur og rétta samdægurs sáu menn að þetta væri að öllum líkindum hægt, það er að rétta sama dag og smalað er. En þá þyrfti að koma upp lýsingu við réttina. Flutti Tumi tillögu um það í fjallskilanefnd, sem var samþykkt. Engin skýring hefur fengist á því hvers vegna réttin er lýst með mörgum ljóskösturum annars vegar en einungis gömul 25 vatta ólögleg glópera hinum megin. Hafa verið uppi vangaveltur að í þeim hluta sem er vel upplýstur sé hugsanlega verið að fylgjast með ólöglegum fjárdrætti en sennilegri skýring er að þarna séu einfaldlega fallegustu bændurnir. En þeir sem þurfa að paufast í myrkinu með höfuðljós við sundurdráttinn gætu verið að fást við áhættufé eða óreiðufé sem þolir illa mikla birtu. Þessu verður fjármálaráðherra hreppsins, Einar Hafliða, að svara.
Leikið á meðan lesið er.
Hafið þið velt fyrir ykkur orðunum fjárdráttur, sundurdráttur, áhættufé, óreiðufé og fjármálaráðherra sem komu fyrir í textanum hér á undan? Ég fletti upp í orðabók og þar segir að fjárdráttur þýði fengitími en sumstaðar samræði við kind. Verður nú spilað samtal því til sönnunar sem Gústi allt í öllu og alls staðar átti við Óla fjárhirði.
Höldum áfram með orðskýringarnar.
Sundurdráttur þýðir: Fengitíma lýkur.
Fjárhirðir þýðir: Sá sem tekur sauðfé ófrjálsri hendi.
Áhættufé þýðir: Fífldjarfar kindur.
Óreiðufé þýðir: Ekki reiðar kindur.
Fjármálaráðherra þýðir: Formaður fjallskilanefndar.
Og ef við tökum fleiri orð þýðir Norðurá kind norðan af Ströndum og hlutafé þýðir súpukjöt, svo fátt eitt sé nefnt úr þessari orðabók.
Mannabreytingar urðu hjá hreppnum, Egill hætti sem umsjónarmaður fasteigna og Hjalti var ráðinn í staðinn. Hann byrjaði á að henda öllu góssinu sem Egill hafið safnað saman í gegnum árin og taldi nýtilegt, til dæmis miðstöðvarofnum, rörbútum, fittings og fleiru, enda vantaði pláss fyrir gamlar haugryðgaðar bátavélar sem komu í bílförum frá Akureyri eftir tiltekt á ruslahaugunum hjá Slippnum. Einnig er gott að geta stungið inn kássufúnum þarfaspýtum úr gömlum bátaskriflum.
Myndband sýnt.
Húsnæðisvandinn hefur verið viðvarandi í mörg ár í hreppnum. Má bregðast við því á ýmsa vegu, til dæmis taka hús með sér í hreppinn líkt og Hafrós og Jói gerðu, einnig er hægt að planta sér niður á tjaldstæðið, en vel að merkja án salernisaðstöðu yfir vetrarmánuðina. Þá er bara að hengja slóðadraga aftan í Jón hrepp í vor. Síðan er hægt að setja undir sig hausinn og byggja hús eins og Guðmundur og Ásta á Litlu Grund, Kaplaskjólshjónin og Skálaneshjónin eru að gera. Jafnvel þótt það taki mörg mörg ár og þrátt fyrir að klæðningin á Grundarhúsinu líti út eins og bútasaumsteppi sem hefur gengið afar hægt að sauma. Kaplaskjólshúsið er byggt í áföngum og Skálaneshúsið rétt rúmlega fokhelt og öll búslóðin í kössum, en við erum með lagnir í gólfinu.
Ótalmargt fleira er hægt að minnast á. Hér koma nokkur sýnishorn.
Árshátíð starfsmanna hreppsins var haldin í fyrsta skipti og fyrsta Halloween-partýið leit dagsins ljós. Voru þetta prýðisskemmtanir, en óljóst er með Halloweengleðina að ári eftir að Lilli lagði álög á alla gestina.
Matti á Hamarlandi heyrði hundgá á næsta bæ. Verður það að teljast kraftaverk, nema þetta hafi verið hundaheppni.
Sveinn Ragnarsson var með sögustund í Dalabyggð. Að sögn hlustanda var hún lengri en áratugirnir sem hann fjallaði um.
Hlynur Stefáns stofnaði flutningafyrirtækið Leiftur sem Leifur í Djúpadal rústaði síðan leiftursnöggt.
Erna í Gufudal skilaði Helga í vor eftir að leyndur galli kom í ljós. Hófst þá leitin að eftirmanni hans, sem má helst líkja við kappreiðar. Bjöggi kom fyrstur í mark og flutti inn fyrir jól.
Bókaútgáfan Melbær sló í gegn. Stíflaði Arfurinn kannski salernið?
Bíllinn hennar Helgu hjúkku lagði af stað einn síns liðs, komst ekki langt og faldi sig í asparlundinum hans Tuma. Hvað er þetta með hjúkkubílana?
Björgunarsveitin keypti bát austur á landi og tímir ekki að sækja hann.
Það á að fækka póstburðardögum um helming af því að Torfi málaði póstkassann í sama lit og búðina.
Leiksvæðið á skólalóðinni var tekið í gegn og leiktæki sett upp, að vísu svolítið snúin og skökk.
Staðarbændur löguðu gjafaaðstöðuna hjá sér í haust og þurfa Stjáni og Rebekka ekki lengur að bera afsagaðar hjólbörur á milli sín fram á jöturnar.
Og síðast en ekki síst kíkti Þórður í Árbæ á hjúkkurnar í Hollandi.
- Njótið kvöldsins og lifið heil.