Fjöldi gamalla Reykhólamynda
Reykhólavefnum hafa borist ómetanlegar Reykhólamyndir frá fyrri tíð, teknar á árabilinu frá því laust fyrir 1950 og fram yfir 1960. Myndirnar sendi Örn Elíasson, læknir í Baltimore í Maryland-ríki í Bandaríkjunum (f. 1951). Þeim fylgdi örstuttur og mjög hógvær texti: „Ég heiti Örn Elíasson, fæddur og uppalinn á Reykhólum til 11 ára aldurs. Foreldrar mínir voru Sigurður Elíasson og Anna Ólöf Elíasson (fædd Guðnason). Ég sendi hér með nokkrar myndir sem ég átti í gömlu albúmi og svo nokkrar sem ég fann ofan í skúffu að foreldrum mínum látnum. Ykkur er velkomið að nota þetta ef þið viljið.“
Hér er um að ræða 26 myndir af fólki, bæði börnum og fullorðnum, húsum og staðháttum á Reykhólum og þar í grennd. A.m.k. eina myndanna tók Þorgeir Samúelsson á Höllustöðum, æskuvinur Arnar, nú framleiðslustjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum, og sjálfur er Þorgeir á annarri. Einnig getur að líta bræðurna Ebenezer og Helga Jenssyni, sem líka voru æskuvinir Arnar.
Á einni myndanna er stór hópur af fólki í leikbúningum fyrir utan Braggann á Tilraunastöðinni, en í honum voru haldnar leiksýningar í árdaga. Þarna er líka mynd frá heimsókn forseta Íslands og eiginkonu hans á Reykhólum.
Textarnir með myndunum eru frá hendi Arnar Elíassonar (nema nr. 27-29).
Smellið á myndirnar til að stækka þær.
Ef einhverjir geta veitt upplýsingar um leiklistarfólkið við Braggann á Reykhólum fyrir meira en sex áratugum eða látið í té fróðleik um leiksýningarnar þar, þá væri slíkt afar vel þegið. Skrifa mætti í athugasemdadálkinn hér fyrir neðan eða senda umsjónarmanni tölvupóst (vefstjori@reykholar.is) ellegar þá hringja í síma 892 2240.
Umsjónarmaður vefjarins bað Örn Elíasson um að senda æviágrip til fróðleiks, minningabrot frá æsku og uppvexti á Reykhólum og myndir af honum sjálfum á fullorðinsaldri og helst fjölskyldunni hans vestra líka. Hann brást vel við. Ágripið er á þessa leið (Tilraunastöðin á Reykhólum var í daglegu tali einfaldlega kölluð Stöðin):
- Ég er fæddur í Stöðinni á Reykhólum. Við börnin vorum öll „Elíasson“. Foreldrar okkar, Sigurður Elíasson og Anna Ólöf Guðnason (síðar Elíasson) giftust í Danmörku. Elsta systir mín, Nína Björk, var fædd þar og skírð Elíasson eftir þarlendum sið, og viðeigandi þótti að við hefðum öll hið sama nafn.
- Ég var heimagangur hjá Jens og Jóhönnu í Jenshúsi (seinna kallað Tröð), og synir þeirra, Ebenezer, Eiríkur og Helgi, voru mér eins og bræður á þeim tíma. Við Helgi vorum jafnaldrar og fór mjög vel á með okkur. Aðrir góðvinir mínir á þessum tíma voru Eiríkur Snæbjörnsson á Stað og Valdimar Jónsson í Árbæ og hjólaði ég oft út á Stað í heimsókn og var um nótt eða lengur. Foreldrar beggja voru mjög innileg við mig. Einnig vorum við Þorgeir Samúelsson góðir vinir og veiddum silung í Arnarvatni. Ég man mjög vel eftir Eysteini Gíslasyni úr Skáleyjum, sem dvaldi í Stöðinni um tíma og kenndi mér smíðar. Einnig var ég með honum í hlunnindunum við dúntekju og selveiðar.
- Við fluttum til Reykjavíkur þegar ég var 10 ára gamall en kom síðan til Reykhóla enn eitt sumarið með foreldrunum. Fyrsta árið sem Ingi Garðar var tilraunastjóri var ég um sumarið hjá honum, ásamt Ebenezer. Ég fór fyrst í barnaskóla hjá Jens 9 ára gamall, en áður hafði mér verið kennt heima.
- Í Reykjavík hélt ég áfram námi, fór í Menntaskólann við Hamrahlíð og lauk þar stúdentsprófi*). Ævintýraþrá leiddi mig til Frakklands í læknisfræði, fékk styrk frá Frökkum til þess. Námið stundaði ég við læknaskólann í Montpellier á Miðjarðarhafsströndinni, sem er elsti samfellt starfandi læknaskóli Evrópu, stofnaður á 13. öld; gamalfræg stofnun.
- Var kandídat í eitt ár heima, m.a. héraðslæknir í þrjá mánuði á Ísafirði. Fór síðan til USA þar sem ég fór í sérgrein í lyflækningum, lungum, gjörgæslu og atvinnusjúkdómum. Starfandi læknir þar síðan.
- Giftur franskri konu, Nadia. Við eigum tvö börn, Anne-Laure og Paul Eric, og eitt barnabarn, dóttur Önnu, sem heitir Serina.
*) Því má bæta hér við, að Örn Elíasson var semi-dux scholae í MH eða næsthæstur á stúdentsprófinu af alls 149 nemendum. Hann var jafnframt þriðji hæstur allra nýstúdenta hérlendis það vorið og hlaut þar með sjálfkrafa námsstyrk á vegum menntamálaráðuneytisins, sem nokkrum öflugustu nýstúdentum landsins hlotnaðist. Jafnframt fékk hann námsstyrk frá franska utanríkisráðuneytinu.
Sigurður Elíasson, faðir Arnar læknis, var forstöðumaður Tilraunastöðvar landbúnaðarins í sauðfjárrækt á Reykhólum (starfsheitið var tilraunastjóri) frá stofnun hennar árið 1947 og fram yfir 1960. Sigurður var ljóðskáld og þekktasta ljóð hans er eflaust Litla flugan. Eins og fjallað hefur verið um hér á vefnum (og miklu víðar) samdi Sigfús Halldórsson tónskáld lag við þetta ljóð þegar hann dvaldist á Reykhólum um tíma. Það var síðla árs 1951 eða þegar Örn Elíasson var tæplega eins árs (fæddur 9. janúar 1951). Þar með varð til eitthvert allra vinsælasta dægurlag hérlendis fyrr og síðar.
Fyrir aftan gömlu myndirnar er mynd (nr. 27) sem tekin var úr þyrlu á síðasta sumri, þar sem sér yfir Stöðina eins og hún er nú. Í húsi tilraunastjórans er Gistiheimilið Álftaland, Bragginn er enn á sínum stað og neðst til vinstri á myndinni sést aðeins í fjárhúsin gömlu.
Á mynd nr. 28 getur að líta Litlu fluguna, ljóðabók Sigurðar Elíassonar (2. útg. 1991, káputeikning eftir Sigrúnu Eldjárn), og á mynd nr. 29 er ljóðið Litla flugan eins og það birtist í bókinni.
Á myndum nr. 30-32 eru Örn Elíasson og fjölskylda hans vestanhafs.
► Reykhólavefurinn, jóladagur 2012:
Dægurlagið hraðfleyga sem fæddist á Reykhólum (sjá einnig tengla þar fyrir neðan)
Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, fimmtudagur 31 janar kl: 20:06
Lilja tengdamamma er ein af af leikendum hún er 5 frá hægri. Með hvíta húfu !