Tenglar

þriðjudagur 16. febrúar 2016 | vefstjori@reykholar.is

Auðlindir Reykhóla eru ekki auðar lindir

Frá 1974 hefur verið þörungavinnsla á Reykhólum. Verksmiðjan nýtir jarðvarmann á svæðinu til að þurrka næringarríkt þang og þara. Sumt af hráefninu fer í áburð, annað er burðarefni í kremum og ís, búðingum og lyfjum. Í skjólbeltagróðurinn sem á var minnst í skoti númer 3 væri eftirsóknarvert að fá slatta af þörungamjöli til að setja með. Þörungamjöl er einnig notað í gælu- og húsdýrafóður. Það er sannarlega líka góð næring fyrir fólk.

 

Sláttumenn sæfangsins hafa komið sér upp kerfi til að stýra uppskerunni milli ára. Sú uppskera er miðuð við vaxtarhraða þara eins og hún var mæld í kringum 1985. Þarinn virðist stækka í fimm ár. Eftir það slitnar jafnmikið af og bætist við með vexti. Því er miðað við að slá hvern blett ekki oftar en fjórða til fimmta hvert ár.

 

Þarna má sjá í verki tvö hugtök sem mikið eru notuð í umhverfisfræðunum: Endurnýjun og sjálfbærni. Þarinn vex upp í sömu stærð á fimm ára fresti og endurnýjar því lífmassann sem er verið að sækjast eftir á þeim tíma. Hann er endurnýjanleg auðlind. Þarinn fær ljós og næringarefni hjálparlaust og mannshöndin kemur ekki nærri, - náttúran sér um þessa endurnýjun. Þetta er oft kallað þjónusta náttúrunnar. Annað dæmi er vöxtur skóga, - þeir taka upp koltvísýring og rigningu og skóglendið stækkar hjálparlaust. Fiskistofnar hrygna og bæta við nýjum árgangi á hverju ári.

 

Sjálfbær uppskera er fengin með því að taka ekki meira en stofninn gefur af sér hverju sinni. Að nota jarðvarmann hér á sjálfbæran hátt er því að nota ekki meira en það magn af heitu vatni sem hitnar og streymir fram hverju sinni. Ef vatnsyfirborðið helst jafnhátt, en það er mælt með þrýstingi í holum, og hitinn mælist sá sami yfir langan tíma, þá er verið að nota jarðvarmann á sjálfbæran hátt og hann telst endurnýjanlegur.

 

Þessi staða ætti að haldast fram til næstu kynslóða því hinir fullorðnu hafa einmitt fengið allar auðlindir að láni frá börnum sínum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2025 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30