Hin yndislega náttúruorka
Nú standa yfir kerfisbreytingar í Þörungaverksmiðjunni. Skrúfað hefur verið fyrir heita vatnið og á meðan þetta tækifæri gefst munu Íslenskar orkurannsóknir freista þess að mæla hve mikið heitt vatn fæst úr öllu jarðvarmakerfinu á Reykhólum. Það er nokkuð merkilegt, að jarðhitinn hefur verið notaður á Reykhólum, í iðnaði og til húshitunar, í meira en 40 ár án þess að heildarmagn sjálfstreymandi heitavatns hafi verið þekkt.
Jarðvarmaauðlindin á Reykhólum er óvenju heit og rennslið afar ríkulegt – eða hátt í 45 lítra á sekúndu. Til að þurrka þörunga og sjóða salt þarf um 100°C vatn. En þegar vatnið kemur út úr verksmiðjunum er það enn vel heitt. Núna þegar Þörungaverksmiðjan endurnýjar þurrkkerfið er þó líklegt að vatnið skili sér út á talsvert lægra hitastigi en fyrr.
Heitt vatn sem hefur verið notað á þennan hátt í lokuðu kerfi er enn hægt að nota í margs konar tilgangi. Í húshitun er heppilegt að hafa um 70°C, í böðum þarf 30-45°C og í hænsnabú og fiskeldi eru 30° nægjanlegur hiti. Í það minnsta má halda því fram, að til þessa hefur heilmikilli orku verið hent í sjóinn á Reykhólum.
Þegar Orkurannsóknirnar hafa metið hve mikið jarðhitavatn endurnýjar sig á náttúrulegan hátt á Reykhólum verður hægt að hugsa upp ný tækifæri til að nýta hitann. Hugmyndin um að stofna volg sjávarlón og nýta þörungamjöl í böð og húðmeðferðir hafa verið í undirbúningi í nokkur ár á vegum Sjávarsmiðjunnar. Saltverksmiðjan er tiltölulega ný en gæti aukið framleiðslu með meiri jarðvarma.
Og enn verður tækifæri til að bæta við starfsemina og jafnvel að reisa fleiri gróðurhús á svæðinu. Jarðvarminn er þess vegna forsenda mannlífs og atvinnustarfsemi á Reykhólum, og þar með eru þeir einstakir á vestfirska vísu.
Með rjúkandi Reykhólakveðjum.