Tenglar

föstudagur 22. janúar 2016 | vefstjori@reykholar.is

Kinnroði

Munið þið tímana áður en farsíminn kom? Munið þið tímana áður en sjónvarpið kom, - nú eða kannski útvarpið? - Allir þessir miðlar færa heiminn til okkar. Alla vinina, ættingja, kjaftasögur, fréttir. Á móti þurfum við ekkert að hreyfa okkur til þeirra. Áður var gengið í heimsókn, eftir kúnum og í hænsnakofann, búðina, laugina, skólann. Við skruppum prjónandi milli bæja. Og fæstir áttu þá jafnskjólgóðar flíkur og nú. Hvað er langt síðan við vorum meira og minna öll á rölti í ýmsum erindagjörðum?

 

Eitt af þvi dásamlega við að búa ekki í borg er þögnin, víddin og fríska loftið. Jurtirnar sem eru í vegarkantinum. Stöku fuglahljóðin. Þetta er víst það sem ferðamennirnir borga fyrir en við fáum frítt.

 

Þótt allt sé nú hægt að fá á samskiptamiðlum erum við alltaf á leiðinni eitthvert í bíl. Þá eru það ekki bara okkar 50-100 kíló sem við flytjum í búðina, á skrifstofuna, í laugina. Við látum vélina og bensínið líka flytja 800-1.500 kíló sem bíllinn vegur. Jafnvel þótt það sé meira gaman að ganga og hjóla. Með því að fara allt í bíl erum við lika að loka fuglahljóðin úti, keyra yfir fíflana, keyra á fuglana. Við missum af tækifærinu til að láta hjartað slá örar. Við rekumst síður á granna og börnin þeirra. Nema sumir, t.d. Dalli.

 

Um áramótin strengdi Inga nýársheit: Hún ætlar að skilja skrjóðinn eftir heima og ganga í vinnuna. Hún fær um 30 mínútna leikfimi daglega. Og bíltonnið hennar eyðir þar með ekki bensíni þann daginn. Inga sefur betur, börnin á leikskólanum fá betra loft og við hin getum notið betur þagnar og náttúruhljóða.

 

Ef ég fer á Landkrúser tíu ferðir á viku að heiman og upp á hrepp, þá eru það ekki nema einn og hálfur lítri á viku og um 280 krónur sem sparast. En fyrir allt árið spara ég um einn tank. Örn skipstjóri sparar líklega tvo tanka á ári. Hann gengur daglega niður í Karlsey. Hjá okkur þremur mun sparast hátt í tonn af koltvísýringi sem sæti ella í andrúmsloftinu næstu hundrað ár. Þetta má sjá á reiknivélum Orkuseturs.

 

Ég ætla hér með að ánafna börnunum í leikskólanum þessi koltvísýrings-kíló og halda áfram að slást í för með Ingu. Vona að við sjáumst á röltinu, rjóð í kinnum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2025 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30