Logn í miðjum norðaustan strekkingi
Það eina sem ég sakna á Reykhólum er logn. Alla vegana stundum. Ekki svo að skilja að það hafi alltaf verið logn í huga mér eða kringum mig. Stundum voru veður svo vond undir Eyjafjöllum að dráttarvélar fuku og heylanirnar lentu í skurðum, úti í á eða hreinlega feyktust á haf út. Fyrsti sumarbústaðurinn hans pabba fauk í hvelli og fannst ekki aftur.
Á Reykhólum er hægt að búa til skjól. Okkur tókst það undir Eyjafjöllum með því að setja niður greinitré, birkitré og víði. Það þurfti bara að planta þétt í fyrstu, skýla plöntunum í fimm ár (ja kannski tíu) og svo fóru þær að skýla húsi, sólbaðselskendum og öðrum gróðri.
Það brotna alltaf nokkur tré á ári undan vindi og snjófargi. En það gerir trjávöxtinn aðeins áhugaverðari. Skjól úr rekaviði, skjól úr netatrossum, skjól úr gömlum heyvinnslutækjum - áhugaverð járnform sem liggja hvort eð er á bæjarhaugum.
Ég var ósköp fegin þegar sýslumaðurinn (Anna Birna) kom við hjá mér og spurði út í skjólgarðana, - og í stað þess að setja ofan í við mig fyrir skrautlegan sóðaskap, þá sagði hún bara í krafti embættisins: Þetta er flott hjá þér, haltu bara áfram.
Og það er eina góða ráðið í skjólbeltarækt; að halda bara áfram. Endurnýja og setja niður 10-50 plöntur á ári.
Mig langar svo að sjá skjólbelti meðfram Grundará. Ef nú væri plantað austan megin árinnar barrtrjám, birki, víði og kannski rósarunnum (!) í snotra sveiga gæti smám saman myndast skjól vestan ár. Þar væri hægt að koma fyrir göngustíg og allir Reykhælingar kæmust glaðir gangandi í logni upp í banka.
Með hárgreiðsluna enn á höfðinu.
Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, mivikudagur 03 febrar kl: 22:55
Ég er alveg tilbúin í að hjálpa þér að planta þessum trjám.