Tenglar

þriðjudagur 1. mars 2016 | vefstjori@reykholar.is

Rusl og flokkun

Flugvéla-„grafreitur“ í Arizona.
Flugvéla-„grafreitur“ í Arizona.

Þegar við fluttum á Reykhóla vakti það fljótt athygli mína og furðu, að finna hvergi ruslaílát í kringum húsið okkar bláa (sem núna reyndar lyktar af tjöru). Og það gladdi mig mikið að heyra að ætlast er til þess að hver íbúi taki ábyrgð á eigin ruslaúrgangi og komi honum flokkuðum niður á gámastöð. Þar sem ég er löt við ruslaskil reyni ég alltaf að pressa allt saman í sem minnsta fyrirferð og forðast aukaumbúðir. Ég kaupi helst það sem er óinnpakkað og geng með skrautlega poka í vasanum ...

 

Hvað er rusl og úrgangur?

 

Fræðilega er rusl það sem fyrrum notendur ákveða að farga. Þetta geta verið umbúðir, afgangar, vörur og tæki sem við hættun að nota og setjum á hauga. Ef hins vegar við geymum „rusl“ inni eða úti undir vegg á eigin landi / heimili / útihúsi / bílaplani eða hverjum þeim stað sem tilheyrir okkur, þá telst það ekki eiginlegt rusl. Það sem skilið er eftir á víðavangi telst ekki rusl fyrst eigandi eða fyrrum notandi sendi ekki skýr skilaboð um þetta væri úrgangur með því að koma því á viðurkennda hauga. En ef fyrri eigandi finnst og ruslið er almennt til ama, þá má fjarlægja það á kostnað „eiganda“.

 

En rusl þarf ekki að vera ónýtt. Þvert á móti getur rusl verið vel nýtilegt. Það getur verið endurnotanlegt (oftast kallað endurnýtanlegt), til dæmis fjölnota pokar (líka þeir sem eru úr plasti) eða gosflöskur eins og þær voru í gamla daga.

 

Endurvinnanlegt er til dæmis gler. Það er þá brotið og brætt í nýjar umbúðir.

 

Ál er endurvinnanlegt, en aðeins brot af því er raunverulega endurunnið. Gífurlegt magn af málmum liggur þannig á haugum eða í „grafreitum“ eins og hér er sýnt frá Arizona í Bandaríkjunum.

 

Flestar gerðir plasts sem unnið er úr olíuvörum eru einnig endurvinnanlegar. Glæru plasti má breyta í hart plast, og það er notað í flísefni. Mjög fínlegur þráður er spunninn úr plasttrefjum, sem því miður eru farnar að safnast upp í höfunum og hafa þar áhrif á líffverur. Hér sést hvernig flísefni er unnið.

 

Litað plast sem sjaldan er endurvinnanlegt er mikið brennt við hátt hitastig í orkustöðvum eða hitaveitum erlendis. Það er ekki gott að brenna plast á víðavangi eða í heimaofnum, því við það myndast alls kyns óhollar gufur. Svæsið, mjög krabbameinsvaldandi efni, díoxín, myndast við ófullkominn bruna og hefur það verið orsök fyrir lokun sorpbrennslu hérlendis.

 

En þar sem plast er hreint og vel flokkað á gámastöðvum fer það í endurvinnslu og nýtist fleirum og betur en ef því er aðeins hent. Svo tökum tillit til Jóns á gámastöðinni og þrífum plastumbúðir áður en við hendum þeim. Frauðplast aftur á móti er ekki endurvinnanlegt og flokkast sem haugamatur.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31